Gögn á netinu

Rannsóknir
Gögn á netinu

Thomas Maier hjá Newsday notaði upplýsingar á vefslóðum til að finna, hvort trúnaðarlæknar tryggingafélaga hefðu eitthvað á samviskunni, svo sem rangar upplýsingar um próf og lækningaleyfi eða áminningar fyrir afglöp í starfi.

Maier notaði gífurlega stóran gagnabanka, fjölda af viðtölum og málsókn til að ná gögnum. Hann bar síðan saman nöfn á mismunandi listum til að sjá fortíð læknanna, sem hann var að skrifa um.

Margir blaðamenn þekkja þá aðferð að hlaupa á blaðamannafund, spyrja þar nokkurra spurninga, þjóta til baka á skrifstofuna, hringja nokkur símtöl í æðibunu og fá þar staðfest nokkur lykilatriði, áður en sagan er skrifuð og birt.

Núna er sú aðferð meira notuð að fara á netið eða veraldarvefinn, krækja þar í upplýsingar, til dæmis tölulegar upplýsingar, sem má setja í reiknivinnslu. Þessi breyting er hrein bylting. Auk þess flæða inn gagnabankar á CD-diskum.

Aðgangur blaðamanna að gagnabönkum hefur jafnað samkeppnisaðstöðu þeirra gagnvart þeim, sem áður skömmtuðu blaðamönnum upplýsingar úr gagnabönkum. Erfiðara en áður er orðið að skekkja upplýsingarnar áður en þær eru afhentar blaðamanni.

Jafnframt verða blaðamenn eins og áður að feta stíginn af varúð. Villur geta leynst í gagnabönkum, sem þeir fá. Ef þær fara á leiðarenda inn í sögur, sem birtast á prenti eða í sjónvarpi, er fall blaðamannsins hærra en það var áður.

Stafrænar upplýsingar eru ekki endilega réttari en upplýsingar á pappír. Það er hins vegar miklu fljótlegra að leiðrétta villur í stafrænum upplýsingum en þeim, sem eru á pappír. Heimildir á vef geta því verið réttari á vef en pappír.

Upplýsingar í töflureiknum er skráðar í línur og dálka, sem sameiginlega mynda töflu. Þetta er tvívíður heimur, sem fellur vel að pappírsblaði og tölvuskjá. Á blaðinu eru upplýsingarnar frosnar, en á tölvuskjánum eru þær lifandi. Ath. Guardian.

Að finna stafrænar upplýsingar á netinu eða vefnum getur verið tímafrekt, þreytandi og marklaust. Þú þarft að hafa áætlun um verkið og skilning á því, hvað vefurinn getur boðið, og þá getur þú náð góðum árangri:

1) Rannsókn: Blaðamaður fer á netið, stærsta upplýsingasafn í heimi, og leitar í fréttum, háskólaskjölum, bókum og öðru efni.
2) Viðtöl: Blaðamaður víkkar sviðið með því að leita að ráðgjöfum, fórnardýrum, vitnum og málsaðilum á netinu (Barnaland).

3) Gagnabankar: Blaðamaður tekur upplýsingar af netinu og hleður þeim í sína tölvu.
4) Samþætting: Blaðamaður notar töflureikni eða gagnagrunn til að vinna frekar úr upplýsingum, sem hefur hefur fengið af netinu.

Upp úr 1980 notuðu menn Lexis/Nexis dómsmálabankann til að rekja slóð svikara milli sparisjóða og banka. 1991 notaði Mike Berens á Columbus Dispatch gagnabanka á vefnum til að finna mann, sem hafði framið morð í mörgum ríkjum.

1992 notuðu Dave Davies og Ted Wendling á The Plain Dealer skjöl á netinu til að finna fólk, sem hafði dáið af geislameðferð.
1994 notuðu blaðamenn skjöl á netinu til að ná í upplýsingar um jarðskjálftann í Kaliforníu, þótt síminn lægi niðri.

1995 notuðu blaðamenn spjallrásir til að ná í vitni að sprengingunni miklu í Oklahoma City.
1996 notuðu blaðamenn við Newsday alls konar gögn af netinu til að fá vitneskju um TWA800 slysið og finna vitni.

Gögn á netinu er einkum tvenns konar:
1) Annars stigs gögn, svo sem fréttasöfn og dómsmálagögn.
2) Fyrsta stigs gögn, svo sem gagnagrunnar ríkisstofnana og spjallrásir.

Þú verður að sannreyna allt, sem þú vilt nota af netinu. Þú verður að meta, hvaða slóðum er hægt að treysta og hverjir stjórni þeim. Spjallrásir eru ekki meira marktækar en fólk er í daglegu lífi. Blaðamaður étur það ekki hrátt eftir þeim.

Sumir blaðamenn hafa aðgang að reyndum fagmönnum í leit á netinu. Þeir eru kallaðir leitarmenn, “searchers” og hafa reynst vera mikilvægir. Blaðamenn verða þó að hafa næga þekkingu til að geta spurt leitarmenn réttra spurninga.

Þeir eru eins konar bókasafnsfræðingar netsins, gefa góð ráð og þekkingu. Þeir raða upp flóknum leitum og beina athygli blaðamanna að réttum slóðum. Þeir vita, hvar upplýsingar eru geymdar og hvernig á að ná í þær.

Leitarmaður kann að vinna í skjölum á vefnum og ná þar í viðbótarspurningar við þær, sem upprunalega voru settar fram, og síðan að nota þessa viðbót til enn frekari leitar í skjölum, svo sem greinum, ritgerðum, bókum og fréttum.

Gamlir fréttabankar eru mikilvæg gagnalind. Margir byrja á því að fletta upp í slíkum bönkum. Í Bandaríkjunum geta stúdentar oft fengið aðgang að þeim, en aðgangur er dýr fyrir einstaklinga og fjölmiðla, til dæmis að Lexis/Nexis.

Kosturinn við slíka banka er, hversu gífurlega umfangsmiklir þeir eru. Gallinn er, hvað lengi er verið að leita í þeim og að oft kemur of mikið af gögnum út úr því, sem getur orðið dýrt spaug.

Ókeypis gagnabankar efnisskrá innhald stóru bankanna og geta sagt þér, hvað þar er að finna, áður en þú borgar fyrir upplýsingarnar. Þar á meðal eru LexisOne og sunsite.unc.edu/slanews/internet/archives.html.

Blaðamenn finna sérfræðinga á öllum sviðum milli himins og jarðar með því að hafa samband við ProfNet, www.prnewswire. com, og útskýra verkefnið. Spurningunni er dreift til sérfræðinga, sem hafa samband við þig í tölvupósti eða síma.

ProfNet hefur reynst bandarískum blaðamönnum vel. Auðvelt er að finna fólk, sem hefur mikið vit á málefninu. Mikilvægast er að orða spurninguna vel, eins nákvæmt og þétt og mögulegt er, og að láta vita, hve lítill tími sé til stefnu. Ath: powerreporting.com.

Með því að taka þátt í listserv eða newsgroup geturðu tekið þátt í umræðu á afmörkuðu sérsviði. Þú getur spurt spurninga, sem hundruð eða þúsund manna geta séð. Þar eru líka söfn eldri umræðna, sem hægt er að leita í. Ennfremur FAQ.

Til að finna rétt listserv eða newsgroup ferðu á www.tile.net/lists/ og slærð þar inn lykilorð til að finna hópinn. Þátttakan í listserv hefur tilhneigingu til að fylla póstinn hjá þér, því að hvert innlegg kemur í pósti. En þú getur líka pantað þar dagsyfirlit.

Newsgroup er að því leyti öðru vísi en listserv, að samtalið er ekki sent til málsaðila í tölvupósti, heldur sett inn á slóð, þar sem menn geta komið í heimsókn, þegar það hentar þeim. Það eru eins og skilaboð á skólatöflu.

Til að finna rétt newsgroup ferðu inn á leitarvélina Google, www.google.com, og velur “groups”. Þú færð þá upp ýmsa málaefnaflokka og getur flett í hverjum flokki fyrir sig. Mín reynsla er, að skynsamlegum spurningum sé svarað.

Netið er heilt úthaf upplýsinga. Þú getur fiskað vel þar, en oft þarftu að skaka svo lengi, að það tekur því ekki. Til þess að auðvelda leitina notar þú leitarvélar, sem hafa stöðugt batnað með árunum.

Google, AltaVista.
Flestar leitarvélar gefa kost á “Boolean logic”, sem felst í að geta spurt með þremur samtengingum, “og”, “eða”, “ekki”. Þú getur leitað að Árna og Birni, að Árna eða Birni, að Árna en ekki Birni, að Árna og/eða Birni en ekki Davíð.

“Og” færir þér upplýsingar um efni, þar sem Árni og Björn koma báðir við sögu. “Eða” færir þér upplýsingar, þar sem annar þeirra kemur við sögu. “Ekki” færir þér upplýsingar, þar sem annar, en ekki hinn, kemur við sögu.

Á íslensku er mikilvægt að gagnabankar gefi kost á að slá inn stofn orða og setja stjörnu fyrir afganginn. Þá þarftu ekki að ákveða, hvort orðið sé birt í þessu falli eða þessari tölu. Með stjörnu er hægt að spyrja: seld*

Google er þekktasta og mest notaða leitarvélin í heiminum, daglegt hjálpartæki blaðamannsins. Hún leitar í efni á öllum tungumálum, þar á meðal íslensku. Altavista.com er önnur þekkt vél. Báðar nota “boolean logic” í leit sinni.

Leitarvélar leita innan í texta eftir orðum. Leitarorðavélar eru eins konar atriðisorðaskrár. Dæmi um þær eru: www.ire.org, www.reporter.org, www.ire.org/resourcecenter, www.poynter.org.
Þekktust er: Yahoo. Dæmi: Hótel í Feneyjum.

Góðar bækur um þetta eru: Nora Paul & Margot Williams: Great Scouts. Allan Schlein: Find It Online. Chris Callahan: A Journalist’s Guide to the Internet. Randy Reddick: The Online Journalist. Paula Hane: Super Searchers in the News.

Yahoo.com og www.searchsyst.ems.net hafa lista yfir gagnabanka bandarískra stjórnvalda, sem liggja á vefnum, öfugt við flesta opinbera gagnabanka hér á landi, sem eru einkamál embættismanna. Ath. www.fedworld.gov og www.census.gov.

Tékklisti:
1) Netið má nota til að ná sambandi við fólk, rannsóknir og gagnabanka.
2) Listserv og newsgroup eru umræðuhópar um sérhæfð mál.
3) Byrjaðu hvert mál á að leita í gagnabönkum.

4) Leitarorðaskrár eru hagkvæmt upphaf leitar.
5) Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa gagnabanka á netinu. Einnig stjórnvöld á Íslandi.
6) Gögn eru vistuð í ýmsu formi á netinu, öllum er hægt að hlaða í töflureikni eða gagnagrunn.
7) Stundum þarftu að þenja upplýsingar, sem hafa verið þjappaðar.

Brant Houston
ComputerAssisted Reporting
A Practical Guide
3rd Edition 2004

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé