Frumlag-umsögn

Textastíll
Frumlag – umsögn

Keyrðu á sagnorðum og notaðu sértækt frumlag

Það er gömul grilla, að ekki megi byrja málsgreinar á OG eða EN: “Sakborningurinn virtist í uppnámi. En sækjandinn sagði …” Stundum er þó óþarfi að nota þessi orð í upphafi og þá má bara sleppa þeim.

Byrja má málsgreinar á “Og” eða “Eða”: “En spurt verður, hvort kurteisi sé ei matsatriði. Og sé svo, hvaða reglum er þá hægt að beita.” Byrja má málsgreinar á “Þar sem”. “Þar sem vitað er um innihaldið, getum við gagnrýnt það.” Enda má setningar með forsetningu: “Reglurnar eru til að lemja nemendur með.”

Það er gömul grilla, að ekki megi enda málsgreinar á forsetningu: “Lögreglan fann blóðuga öxina, sem hann drap hana með.” Eins og Churchill sagði: “Það er kredda, sem við sættum okkur ekki við.”

Ekki sundra nafnhætti sagna. Skrifaðu “Þeir voru í þann veginn að falsa skjalið örlítið”. Ekki: “Þeir voru í þann veginn að örlítið falsa skjalið.” Nota má lýsingarhátt nútíðar: “Vonandi sigrum við”. Verið spör á fyllingarorð á borð við: Mjög, alveg, nokkurn veginn, almennt séð, næstum því.

Ekki: “Fyrstu mótmæli gegn vetnissprengjunni misheppnuðust af því að hún tók ekki tillit til stjórnmála.” Fylgdu tölu eftir: “Fyrstu mótmæli gegn vetnissprengjunni misheppnuðust af því að þau tóku ekki tillit til stjórnmála.” Athugið að sum orð yfir fjölda eru í eintölu: “Nefndin ákvað niðurstöðuna.” Ekki “ákváðu.”

Nú forðast menn kynbundinn texta eftir föngum, nota til dæmis “hann” og “hún” til skiptis eða breyta yfir í “þú” eða “við”. Blaðamönnum hentar best að vera blátt áfram í skrifum og alþýðlegir. Skrúfað mál, mál stétta eða stofnana verður aldrei blaðamál, enda yfirleitt torskilið almenningi.

Keyrðu á sagnorðum.

Skrifaðu hreint út: “Skólunum hefur ekki tekist að kenna grundvallaratriði, af því að þeir skilja ekki, hvernig menningarsvæði móta lærdóm barna”. Ekki stofnanamál: “Orsök vangetu skólanna við að kenna grundvallaratriði felst í að skilja ekki mótunaráhrif menningarlegs bakgrunns á menntunina.”

Skrifaðu eins og ævintýrin: “Einu sinni var Rauðhetta á leið um skóginn, þegar úlfurinn stökk undan tré og hræddi hana.” Ekki skrifa stofnanamál: “Einu sinni þegar ganga um skóginn var framkvæmd af Rauðhettu, kom fyrir stökk úlfsins undan tré, sem hafði þau áhrif, að það framkallaði ótta.”

Notaðu sögnina að ganga, ekki nafnorðið ganga. Notið sögnina að stökkva, ekki nafnorðið stökk. Notið ekki “greiddi atkvæði”, þegar “kaus” er betra. Keyrið textann á virkum umsögnum, ekki á nafnorðum og ekki á nafnorðum með hlutlausum sögnum. Menn “hræða”, ekki “framkalla ótta”.

Mikilvægustu orð hverrar málsgreinar eru sagnorðin. Segðu ekki: “Röksemdir Framsóknarflokksins með tilliti til klofnings Evrópusambandsins af völdum skrípamynda voru settar fram á grundvelli þeirrar skoðunar, að hagsmunahópar mundu annars efla eiginhagsmuni sína á kostnað almannahagsmuna.”

Ekki skrifa: “Skortur okkar á staðtölum kom í veg fyrir mat á aðgerðum Sameinuðu þjóðanna við að staðsetja fjárhagsaðstoð á þeim sviðum, þar sem þörfin fyrir aðstoð var mest.” Heldur: “Þar sem okkur skorti staðtölur, gátum við ekki metið, hvort Sameinuðu þjóðirnar hefðu sett fé í brýnustu sviðin.”

Rétt er að segja: “Þau ræddu vandann fyrir hádegi”. Ekki segja: “Vandinn var viðfangsefni umræðna þeirra fyrir hádegi.” Ekki skrifa: “Tillaga hans var sú, að umræðan um málið yrði vönduð”. Heldur: “Hann lagði til, að farið yrði vandlega yfir málið.”

Ekki segja: “Flutningur vel launaðra hátæknistarfa til Asíu á vegum íslenskra tölvufyrirtækja hefur það í för með sér, að margir missa vinnuna í Reykjavík.” Segðu heldur: “Margir missa vel launaða vinnu í Reykjavík, því að íslensk tölvufyrirtæki flytja hátæknistörf til Asíu.”

Ekki skrifa: “Það er engin þörf fyrir frekari rannsókn þessa máls.” Heldur: “Við þurfum ekki að kanna þetta mál frekar.” Ekki skrifa: “Sölutap fyrirtækisins var afleiðing af fjölgun útsölustaða.” Skrifaðu heldur: “Fyrirtækið tapaði sölu af því að það fjölgaði útsölustöðum.”

Ekki þetta: “Lögreglan framkvæmdi rannsókn á málinu”. Heldur þetta: “Lögreglan kannaði málið”. Ekki skrifa: “Þeir framkvæmdu endurmat á þróun heilans”. Heldur skrifa: “Þeir endurmátu, hvernig heilinn þróaðist.” Ekki “jákvæð ákvörðun um útþenslu ferlisins”. Heldur: “Ákveðið var að víkka ferlið.”

Ekki: “Ákvörðun um útskrift lyfs þrátt fyrir vangetu vanstillts sjúklings, sem kemur á geðdeild, um að leggja fram lögmætt samþykki, er á ábyrgð vakthafandi læknis eins.” Betra: “Ef sjúklingur kemur á geðdeild svo vanstilltur, að hann veitir ekki lögmætt samþykki, getur bara vaktlæknir ákveðið að gefa lyf.

Markmið undanfarinna ábendinga er ekki að útrýma nafnorðum, heldur að nota þau sparlegar en áður. Láta sagnorð koma í auknum mæli í staðinn. Segja má: “Hann samþykkti ósk hennar.” “Þessi ákvörðun getur leitt til góðrar niðurstöðu.” “Fátt hefur valdið meira rifrildi en krafan um fóstureyðingar.”

Sagnorðin koma með hreyfinguna inn í textann, nafnorðin með persónurnar. Nafnorð plús sagnorð svara spurningunni: “Hver gerði?” Konan drap leigjandann. Skipstjórinn sigldi á miðin. Lögmaðurinn tapaði málinu. Blaðamaðurinn misskildi skýrsluna. Ritstjórinn svaf yfir sig.

Notaðu sértækt frumlag

Lesendur vilja virkni í sögnum og enn frekar vilja þeir persónur í frumlagi. “Óttast var, að mælt yrði með niðurskurði”. Hver óttast? Hver mælir með? Hver sker niður? Það er ekki nóg að hafa sagnir virkar, heldur verður frumlagið í málsgrein að vera stutt, sértækt og áþreifanlegt.

Ekki segja þetta: “Guðfræðileg umræða á miðöldum fjallaði oft um atriði, sem talin eru skipta litlu máli í heimspekihugsun nútímans.” Heldur þetta: Guðfræðingar miðalda fjölluðu oft um atriði, sem heimspekingar í nútímanum telja skipta litlu máli.

Persónur í frumlagi geta verið í forsetningum eða atviksorðum, ekki bara í nafnorðum. Finna þarf þessar persónur. “Ákveðið var að framkvæma rannsókn á ósamkomulagi.” Þetta breytist annað hvort í “Við ákváðum, að ég kannaði deilumálið.” Eða: “Ég ákvað, að þú kannaðir deilumálið.”

Stundum segja menn: “Það eru góðar og gildar ástæður fyrir því, að skortur er á sönnunum.” Þeir eiga þá við þetta: “Ég get útskýrt, af hverju ég hef ekki fundið neinar sannanir.” Menn nota persónulausa frásögn til að draga athygli frá aðild sinni að máli eða frá ábyrgð sinni á máli.

Flestir lesendur vilja, að frumlög með sögnum nefni aðalpersónur sögunnar og að þessar aðalpersónur séu holdi og blóði klæddar. Oft verður þú samt að skrifa um óhlutlæg hugtök. Vont er að skrifa um mörg óhlutlæg hugtök í einni málsgrein. “Kenning málfrelsis hefur verið tekin upp af öllum málsaðilum.”

Hver er gerandi málsins, það er spurningin. Er það ég, ert það þú eða er það hann eða hún eða þeir eða þær eða þau? Hverjir eru svokallað fólk, hverjir eru svokallaðir sérfræðingar, hverjir eru svokallaðir viðmælendur, hverjir eru allir þessir óáþreifanlegu aðilar, sem sagnorðin eru falin á bak við.

Ekki segja: “Á síðustu árum hefur innleiðing nýrra túlkana á gildi fundar Ameríku leitt til endurmats á stöðu Kólumbusar í sögu vesturlanda.” Heldur: “Jared Diamond hefur endurmetið stöðu Kólumbusar í sögu vesturlanda af því að hann hefur túlkað fund Ameríku á nýjan hátt.”

Ekki: “Með minnkun áhorfs hjá sjónvarpskeðjum og aukningu áhorfs á kapal og mynddiska hefur aukist meðvitund um það hjá keðjunum, að þörf sé á endurskoðun dagskrár.” Heldur: “Ráðamenn Sýnar hafa séð, að breyta þarf dagskránni, því að notendur horfa minna á keðjusjónvarp, meira á kapal og diska.”

Ekki segja: “Rannsókn var framkvæmd á því, hvers vegna svona fá viðtöl voru framkvæmd við nýbúa.” Heldur þetta: “Við könnuðum, hvers vegna þeir töluðu svona lítið við nýbúa.” Ekki segja: “Peningarnir voru týndir.” Heldur “Ég/hann/hún týndi peningunum.” Ekki leyna gerandanum fyrir lesendum.

Stundum er ekki vitað um geranda í máli og þá verður að nota ópersónulegt orðalag: “Sagt var, að ráðherrann hefði íhugað að segja af sér.” “Þeir sem sekir verða fundir, geta sætt sektum.” Eða “Dýrmæt gögn ber ætíð að geyma á öruggum stað.” Best er þó að finna gerandann, ef það er hægt.

Margir viðmælendur eru feimnir við að nota myndir orðsins “Ég”. Þeir nota ópersónulegt orðalag í staðinn, “maður”. Þeim finnst það vera fræðilegra, hlutlausara, ekki síst ef þeir eru í vörn. En það nær ekki eins vel til lesenda, enda er ópersónulegt orðalag oft notað til að halda fram órökstuddum fullyrðingum.

Flestir starfshópar leggja áherslu á, að félagarnir virði gildi þeirra með því að nota orð þeirra og framsetningu. Bankamaður verður að tala og skrifa á bankamáli. Úr þessu verður stíll, sem reynir að útiloka almenning frá hópnum. Slík framsetning á ekki heima í fjölmiðlum, sem ætlaðir eru fólki.

Fimmtán reglur um meðferð texta
1. Lestu fyrst alla greinina áður en þú breytir nokkru. Þú þarft að sjá allt.
2. Fullvissaðu þig um, að sagan sé rétt byggð með góðri efnisröð.
3. Þéttu söguna, styttu hana. Taktu út hluta, sem ekki skipta máli.
4. Taktu út óþörf orð, bættu bygginguna, léttu rennsli málsgreina.
5. Fullvissaðu þig um, að öllum mikilvægum spurningum sé svarað í greininni.
6. Fullvissaðu þig um, að sagan sé sanngjörn og óhlutdræg.
7. Hafðu efasemdir um svokallaðar staðreyndir. Passaðu nöfn og tímasetningar.
8. Einfaldaðu málið. Breyttu flóknum málsgreinum í einfaldar.
9. Útskýrðu, útskýrðu. Láttu ekki lesandann fá eitthvað, sem hann skilur ekki.
10.Forðastu óþarflega miklar tilvitnanir. Gættu þess, að rétt sé eftir haft.
11.Hafðu málfræðina rétta. Forðastu tískuorð og klisjur.
12.Fylgdu stíl blaðsins. Víða eru samræmdar reglur um notkun tungunnar.
13.Skerðu miskunnarlaust niður nauðsynlegar, leiðinlegar sögur.
14.Notaðu læknishníf, ekki kjötskurðarhníf við allan niðurskurð.
15.Vertu í símasambandi við höfundinn, ef hann er farinn af skrifstofunni.

Fimmta regla Jónasar:
Keyrðu á sagnorðum og notaðu sértækt frumlag

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé