Fréttaþróun

Forsaga
Fréttaþróun

Núlifandi vesturlandabúar búa við aðstæður, sem forfeður okkar þekktu ekki. Við treystum því, að við getum kynnst heiminum á vegum fréttamiðlanna, ef við kærum okkur um. Menn telja, að fjölmiðlar séu ekki mjög fjarri réttum lýsingum á heiminum.

Árið 1702 reiknuðu Bandaríkjamenn með, að fréttir frá Evrópu væru mánuði á leið yfir Atlantshafið. Lengi vel voru bandarískar fréttir endurskrifaðar upp úr gömlum blöðum frá Englandi og Frakklandi.

Árið 1818 hófust hraðsiglingar póstskipa yfir Atlantshaf. Ritsíminn kom svo árið 1844 og þá urðu fréttablöðin stærstu viðskiptavinir hans. Kapall var lagður undir Atlanshafið 1866 og eftir það bárust fréttir samstundis milli heimsálfanna.

Tribune í New York sendi fréttaritara til Frakklands árið 1870 og síðan einnig til Prússlands. Þá hófust stríðsfréttir nútímans. Fréttamaður New York Tribune spurði Bismarck greifa á vígvellinum, hverjar yrðu kröfur hans í friðarsamningum.

Árið 1892 lýsti Lloyd’s List í London yfir, að það hefði 32 fréttaritara í 28 hafnarborgum. Samkeppnin við hraðann var orðin slík, að um aldamótin 1900 voru fréttir farnar að berast á svipstundu um allan heim.

Fyrstu fréttaritararnir voru póstmeistarar með ritsíma. Þeir fóru ekki úr húsi og létu segja sér fréttir. Síðan komu fljótlega fréttaritarar, sem sjálfir fylgdust með atburðunum og lýstu þeim sem sjónarvottar. Það gerðist fyrst á heimavelli.

Fréttaritarar á heimavelli voru fyrst þekktastir þingfréttaritarar. Þeir fengu 1770 aðgang að breska þinginu. Fjórum árum síðar höfðu sjö dagblöð í London fasta fréttaritara í þinginu. Fyrst máttu þeir ekki skrifa niður og urðu að muna allt.

Nú hefur lengi þótt sjálfsagt, að blaðamenn hafi sæti á þingpöllum, í dómsölum, í skriðdrekum stríðsmanna, yfirleitt hvar sem frétta er að vænta. En það voru mikil tíðindi 1819, er Times skýrði nákvæmlega frá fjöldamorðunum í St.Peter’s Field.

Nú hefur lengi þótt sjálfsagt, að blaðið þitt ábyrgist, að þú munir ekki missa af neinum mikilvægum fréttum. Þú færð allt sem máli skiptir af því, sem gerist á þinginu, þú færð mikilvægustu morðin. Flóðljós fjölmiðlanna lýsa um allt.

Sagan um James Gordon Bennet, sem sjálfur rannsakaði morðið á Ellen Jewett og birti um málið daglegar fréttir í Herald, sem borgarar í New York gleyptu í sig á hverjum degi. Hann birti heilu samtölin við vitni í blaði sínu.

Árið 1870 urðu tímamót í rannsóknablaðamennsku, þegar New York Times kom upp um spillingu í Tammany Hall, meirihluta borgarstjórnar í New York. Blaðið náði í allt bókhald málsins og lagði spilin á borð fyrir lesendur.

Um svipað leyti dulbjó Nellie Bly sig sem geðsjúkling fyrir New York World og lét leggja sig inn á geðsjúkrahús til að koma upp um aðbúnað geðsjúkra. Það var í fyrsta skipti sem blaðamenn störfuðu undir fölsku flaggi í þágu rannsóknablaðamennsku.

Það er einmitt rannsóknablaðamennskan,sem veitir okkur besta öryggið gegn martröðum George Orwell. Til þess að halda lífi í lýðræði nútímans þarf við og við að velta við steinum, grafa upp leyndarmál, til að halda valdhöfum við efnið.

Joseph Pulitzer setti upp plakat á New York World. Þar stóð: “Accuracy, accuracy, accuracy.” Nákvæmni í fréttum var orðið að heilögu boðorði blaðamanna. Staðreyndir voru orðnar að gjaldmiðli fréttamennskunnar, alfa og ómega hennar.

Fundinn var upp öfugi pýramídinn í fréttstíl, sem hæfði hinni nýju blaðamennsku. Settar voru upp spurningarnar: “Hver gerði hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna og hvað svo.” Texti fréttablaða varð einfaldur og stuttaralegur.

Fyrsta fréttastofan var Havas í Frakklandi 1832, Associated Press kom 1848, Wolff 1855, Reuters 1858. Þær urðu að skrifa fréttir fyrir dagblöð með ólík sjónarmið og notuðu harðan fréttastíl, þar sem fréttirnar segja sig sjálfar málefnalega.

Fréttablöðin fylltust af menntuðu starfsfólki, sem leit á vinnu sína sem fag. Skilið var í sundur milli fréttamanna og skoðanamanna. Blaðamennska nútímans var orðin nokkurn vegin fullsköpuð um aldamótin 1900. Flokksblöð voru þá útdauð. Ekki þó á Íslandi.

Nám í blaðamennsku var á boðstólum fyrir aldamótin 1900 í Bandaríkjunum. Siðareglur fyrir blaðamenn urðu til í Bandaríkjunum árið 1923. Umboðsmenn lesenda urðu til upp úr síðari heimsstyrjöldinni, fyrst í Bandaríkjunum.

Á 20. öldinni hefur hlutlægni verið helsta boðorð blaðamanna. Að vísu er ókleift að vera fullkomlega hlutlægur. Fréttir gerast í skurðpunkti atburða og texta. Þótt atburðirnir móti textann, mótar textinn líka atburðina.

Sumt er ekki leysanlegt. Hryðjuverkamaður eins er frelsishetja annars. Sértrúarsöfnuður eins er kirkjusöfnuður annars. Stjórnmálamaður eins er pólitíkus annars. Margir blaðamenn fela sig því að baki tilvitnana í heimildamenn: “Hann sagði …”

Þegar Joseph McCarthy veifaði fölsuðum listum, var ekki nóg fyrir fjölmiðla að birta listana með formerkjunum: “Hann sagði …” Blaðamenn eru ábyrgir fyrir fölsunum heimildamanna sinna. Það tók langan tíma að koma upp um McCarthy.

Fyrsta útvarpsstöðin byrjaði 1920. Fimm árum síðar var komin hálf milljón úvarpstækja í Bandaríkjunum. Útvarpsmenn komu frá dagblöðunum og fluttu með sér vinnureglur þeirra. Áherslan á stuttaralega texta varð enn harðari en áður.

1950 kom sjónvarpið. Útvarpsmenn fluttu hefðina áfram þangað. Af nútímamiðlum kemst sjónvarpið næst fortíðinni, þar sjá fréttanotendur þann, sem segir fréttina. En núna er samhengið ekki lengur beggja átta, það er einnar áttar.

Eins og penníblöðin upp úr 1830, eins og gula pressan upp úr 1880 og eins og smábrotsblöðin upp úr 1920 hefur sjónvarpinu tekist að ná til almennings. Miðað við það er merkilegt, að sjónvarpsfréttir skuli ekki vera æsilegri en þær eru.

Ný tækni hefur þvingað dagblöðin til að fara aftur út í lengri texta, meiri fréttaskýringar og bakgrunn. Texti blaðanna er sumpart orðinn lengri og hægari en hann varð stystur. Hinn aldagamli fréttaskortur hefur breyst í offlæði frétta.

CNN og sólarhringsfréttir komu til sögunnar 1980. Tilraun til slíkra fréttastofu var gerð á Íslandi 2005. Nú eru komnar fréttir á veraldarvefinn. Google er orðin fréttastofa margra. Flest heimsblöðin eru aðgengileg á vefnum.

Nýir miðlar fara oft framhjá erfiðleikum og flöskuhálsum eldri miðla. Nú eru nemendur í tímum með reiknitölvur, sem gera marklaus fyrri próf í minni á margföldunartöflur. Hjálpartækið hefur gert margföldunartöfluna óþarfa.

Mestu áhrif tölvunnar eru á aðra miðla. Tölvan gerir alla miðla stafræna, þannig að úr verður almennur fjölmiðill, sem tengir saman tölur, orð, gröf, myndir, myndskeið og hljóð í einn pakka, sem tölvan geymir og miðlar eftir þörfum.

Í framtíðinni verða skrifaðir textar ekki geymdir í bókum, heldur breytast bókasöfn í gagnagrunna. Dagblöð, sjónvarpsfréttir og aðrar upplýsingaveitur eru víða orðin aðgengileg á veraldarvefnum, svo sem á visir.is og mbl.is. Google skannar milljónir bóka árlega.

Ljósmyndir og ritsími 1830, rúlluprentvélar 1840, ritvélar 1860, úthafskaplar 1866, sími 1876, kvikmyndir 1894, þráðlaus ritsími 1895, segulbönd 1899, útvarp 1906 og sjónvarp 1923. Sameiginlega er þetta bylting í samgöngum og miðlun.

Fyrst var landbúnaðarbyltingin, síðan viðskiptabyltingin, þá iðnbyltingin og núna upplýsingabyltingin. Fyrsti raunverulegi fjölmiðillinn byggðist á rúlluprentvélum og góðum pósti. Markaðsrannsóknir fjölmiðla hófust 1911.

Hlutverk skriffinna ríkisvaldsins er ekki lengur að stjórna fólki, heldur að stjórna hlutum. Mat þeirra er ekki lengur huglægt, heldur byggist það á rökrænum, tölfræðilegum og reikningslegum reglum.

Aukin notkun í kaupsýslu og í einkalífi á eftirlitstækni, sérstaklega í formi upplýsingabanka fyrir heimilistölvur einstaklinga veldur því, að rétt nafn á upplýsingabyltingunni er stýringarbylting.

Frumframleiðsla var 87% vinnu árið 1800, 2% árið 1980. Iðnaður var 1% vinnu árið 1800, 22% árið 1980. Þjónusta var 11% vinnu árið 1800, 29% árið 1980. Upplýsingar voru 0% vinnu árið 1800, 47% árið 1980. Upplýsinga- eða stýringarbyltingin.

Fréttablöð fyrir minnihlutahópa hafa styrkst í Bandaríkjunum, t.d. dagblöð á spænsku. Í Þýskalandi hafa þau átt erfitt uppdráttar, því að lesendur telja venjulegu, þýsku blöðin vera betri og áreiðanlegri. Unga fólkið þar fjarlægist tyrknesku og nálgast þýsku.

Gott dagblað er samfélag sem talast við. Það fellir Nixon úr embætti. Það andar á háls valdamanna. Það stjórnar umræðunni í samfélaginu. Þessi valinkunna stofnun er núna í útrýmingarhættu. Dagblöð hafa miðla mest tapað á internetinu.

Dagblaðaútgáfa í Bandaríkjunum er um áramótin 2007-2008 42% minna virði en hún var fyrir þremur árum og 26% minna virði en hún var fyrir ári. Þetta er ekki bylgja, heldur hrun. Margir forstjórar dagblaða verða ekki lengur í bransanum árið 2009.

Nú er það innblað dagblaðanna sem gildir. Þar er plássfrekt efni, sem hefur meira flatarmál en hægt er að hafa á vefnum. Þar eru risastórar myndir og risastór gröf. Pappírinn heldur uppi samkeppni út á flatarmálsfræðina.

Sjá nánar:
David Crowley & Paul Heyer, Communication in History, 2003
Mitchell Stephens, A History of News, 1988

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé