Farsímar 2007

Framtíð
Farsímar 2007

Árið 2007 var reynt að endurskapa tölvuna í lófaformi. iPhone kom fram og seldist grimmt, er jafnframt iPod. Tölvurisar, símtækjarisar og hugbúnaðarrisar börðust um völdin, Apple, Microsoft, Nokia, SonyEricson, Google, Palm.

Verið er að sameina í eitt tæki síma, tölvu, vafra, póst, skilaboð, myndavél, leit, tónlist, myndskeið, staðsetningu. iPod og iPhone frá Apple eru skref á þessari leið. Opni, gjaldfrjálsi hugbúnaðurinn Android frá Google er annað skref.

Notendur farsíma eru fleiri en notendur tölva. Búast má við mikilli þenslu auglýsinga í farsímum allra næstu árin. Notendur fá í staðinn ókeypis aðgang að sjónvarpsþáttum, leikjum og tónlist. Með netsíma má búast við ókeypis símtölum.

Árið 2007 höfðu 76% notenda farsíma aðgang á þeim að vefnum og þriðjungur þeirra notaði aðganginn. Þetta kallar á auglýsingar. Óumbeðnar auglýsingar eru bannaðar, en hluti notenda, 37%, vill greiða fyrir notkun símans með auglýsingum.

Auglýsingar í farsíma gætu tengst fyrri notkun símans eða núverandi staðsetningu símans. Þegar þú gengur framhjá kaffihúsi, færðu sérstakt afsláttartilboð. Þetta kallar á betri staðsetningartækni, sem er raunar alltaf að batna.

60% notenda BlackBerry í Bandaríkjunum tékka símann í rúminu, 40% senda póst þegar þeir aka bíl, 40% hafa símann við hendina að nóttu til, 83% nota símann í sumarfríum. Þetta eru fíklar. Þeir eru aldrei lausir við símann og truflun hans.

iPhone er um margt líkur Black Berry, sem hefur þó umfram QUERTY lyklaborð og hraðritun. iPhone hefur umfram samhliða vinnslu og val um röð á lestri skilaboða. Hann er svo auðvitað iPod um leið. Hjá sumum hefur iPhone leyst BlackBerry af hólmi.

Apple iPhone byltingin felst mest í að sama flatarmálið er notað fyrir skjáinn og lyklaborðið. Þannig er hægt að hafa hvort tveggja miklu stærra en hjá öðrum framleiðendum. Þótt iPod og iPhone séu tölvur, eru þær seldar sem tæki.

Í Frakklandi eru iPhone seldir ólæstir til notkunar á vegum hvaða símafélags sem er. Þegar maður kaupir iMac þarf maður ekki að nota ákveðna netþjónustu. Það sama á að gilda um iPhone.

Meðan tvö stýrikerfi tölva hafa 95% af tölvumarkaði, ráða tólf stýrikerfi farsímamarkaði. Stærst eru Symbian ,Windows Mobile, Linux og Mac með iPhone. Palm er næstum horfið. Google bauð árið 2007 upp á opið kerfi, Android, í samvinnu við marga.

Android felur í sér opið stýrikerfi farsíma, óháð símum og símafélögum, alveg eins og internetið sjálft er opið stýrikerfi, óháð tölvum og hýsingaraðilum. Farsíminn yrði þá í svipaðri stöðu og nettengd fartölvan.

Bakslag er komið í spár um þróun internets í farsímum. Það varð ekki 50% af tekjum farsímafélaga árið 2007 heldur 12%. 3G er slys, sögðu menn. Notendur hafa átt erfitt með að nota símana, öfugt við fartölvurnar. Skjár er lítill og lyklaborð lélegt.

Android og iPhone geta breytt þessu. Sum símafélög hafa samstarf við Apple eða Google-bandalagið. Óvíst, að nýtt netkerfi á síma verði eins og internetið. Sími og tölva eru misjöfn. Síminn þarf raddstýringu í stað lyklaborðs. Og annað viðmót á vef.

Nokia hefur svarað iPhone og Android með kaupum á NavTeq, með Nokia Music Store, með símanum N95 og með netþjónustunni Ovi. Nokia á 39% af farsímamarkaðinum, meira en þrír næstu keppinautarnir samanlagt.

Um mitt ár 2007 bauð Google 4,6 milljarða $ í hluta ljósvakans. Fyrirtækið vill komast úr spennutreyju símafélaga. Google hefur gert opinn hugbúnað fyrir síma, Android, og gert bandalag við önnur fyrirtæki um notkun hans við síma, sem eru á netinu.

Google tilkynnti í árslok 2007, að það mundi bjóða í opna tíðni fyrir farsíma, sem verður úthlutað. Skilyrði fyrir úthlutun var, að tíðnin yrði öllum opin, að kröfu Google og fleiri aðila. Eftir það verður farsíminn opinn eins og veftölvur.

Símafyrirtæki reyna grimmt að selja fólki 3G og aðra nýja þjónustu, t.d. myndsendingar, en viðtökur hafa verið dræmar. Sumir telja þjónustuna vera tilraun til hafa af sér fé. Aðrir skilja ekki flækjur tækninnar. 3G er flókið í umgengni miðað við væntingar.

Fólk er ósátt við léleg gæði mynda í símum og enn frekar við léleg gæði sjónvarpsefnis. Í raun notar fólk með 3G síma þá á sama hátt og fólk með GPRS síma. Símar eru enn lítið notaðir í netsambandi og tölvupósti. Myndsímafundir eru ekki notaðir.

Ótrúlega erfitt er að nota farsíma á vefnum. Að ná inn tölvupósti er meiri háttar mál. Áhugi fólks hefur líka minnkað. Reikningar eru allt of háir. Svigrúm er fyrir nýja aðila að koma inn á þennan markað. Einkum eru það símafyrirtækin, sem hafa bilað.

Farsímar með staðsetningu, GPS, hafa rutt sér til rúms í Japan. Búnaðurinn er þungur og plássfrekur og hentar frekar í bíla en í vasa. Kortin eru því ekki geymd í símanum, heldur koma af netinu. Aðstæður fyrir þessa nýjung eru enn ekki góðar í Evrópu.

GPS tækni í farsímum varð að veruleika árið 2007. Áður höfðu slík tæki einkum verið bíltæki. Gerðu ekki ráð fyrir lestum, strætó. Nokia gaf út síma, N95, með nothæfri staðsetningu og leiðbeiningum um leiðir.

Samkeppni við GPS er í vændum. Evrópusambandið undirbýr Galileo, Rússland er með Glonass og Kína undirbýr Baidu. Þessir aðilar vilja ekki, að Bandaríkin hafi einokun á slíku. Hvert kerfi þarf a.m.k. 24 gervihnetti. Hvert kerfi kostar lítið á hvert handtæki.

Símaskilaboð byrjuðu 1993 og hafa algerlega slegið í gegn eftir aldamótin. Þetta hefur reynst öruggur og skjótur samskiptamáti sem hefur sparað mikinn tíma, sem annars hefði farið í símtöl eða í tölvupóst.

Twitter er hugbúnaður, sem sendir fólki skilaboð frá skilgreindum vinum og jafnvel óviðkomandi aðilum. Flestir nota Twitter í vinahópi, en vinsælir twittarar hafa yfir þúsund vini og fylgismenn. John Edwards frambjóðandi hefur yfir 4000.

Twitter er skilaboðakerfi, sem sameinar félagslyndi MySpace, örblogg að hætti Jaiku og að fólk er alltaf viðlátið. Skilaboð eins renna til margra áskrifenda. Frægðarfólk er áberandi, með hjörð fylgismanna á eftir sér.

Í Frakklandi er farið að nota farsíma sem greiðslutæki, eins konar debetkort, þannig að símarnir eru skannaðir eins og kort. Þetta þýðir, að nota verður öðru vísi símakort en nú eru notuð.

Í Evrópu skiptir þú um símkort í farsíma og skiptir þá um símafélag. Það er flóknara í Bandaríkjunum. Þar eru símarnir sjálfir háðir símafélagi. Þetta er að lagast. Fjarskiptastofnunin þar er að bjóða út pláss á ljósvakanum og einn þriðji af því á að vera frjáls.

Lesendur með myndsíma eru að leysa papparassa af hólmi. Þeir eru alls staðar, taka myndir af frægðarfólki og senda beint á blöð eða tímarit. Vandamál hafa skapast af myndum úr búningsklefum og öðrum viðkvæmum stöðum. Lítil áhrif Karólínudóms.

Almenningur tók þátt í fréttum frá Myanmar. Fólk tók símamyndir af atburðum og sagði fréttir í síma beint frá atburðum. Menn sendu inn á YouTube og þaðan fór það um heiminn. Stjórnin gat ekki haldið atburðunum leyndum. Sumir notuðu gervihnattasíma.

Stjórnvöld í Burma reyndu að skrúfa fyrir blaðamennsku borgaranna með því að hægja á internetinu, skrúfa fyrir farsíma og loka netkaffihúsum. En þá komust menn framhjá þessu með því að nota gervihnattasíma.

Síðan á Filippseyjum 2001 hefur notkun farsíma aukist í andófi “mobile activism”. Sett hafa verið upp vefsöfn símamynda af ofbeldi yfirvalda. FrontlineSMS er hugbúnaður, sem heldur utan um eftirlit með kosningum. Var notað í Burma til að koma fréttum út.

Víða er erfitt að loka farsímakerfum til að spilla fyrir andófi. Fólk hefur líka gervihnattasíma. Í Hvíta-Rússlandi lokuðu yfirvöld farsímakerfum á takmörkuðu svæði mótmæla. Yfirleitt hefur almenningur færi á að fara kringum eftirlit stjórnvalda.

Viltu, að vinir þínir eða konan þín viti, hvar þú ert. Ungu fólki finnst það eðlilegt, það leitar að vini, sem er staddur nálægt og nennir að koma í kaffi. Buddy Beacon heitir eitt forritið. Hægt er að stilla GPS af og á í simum, sem það hafa.

Það nýjasta í vefsíma er að bjóða auglýsingar, sem byggja á staðsetningu símans hverju sinni. Það gæti verið tilboð frá veitingahúsi í nágrenni við símahafann. Tilboðin eru grundvöllur þess, að hann sætti sig við auglýsinguna. Annars væri þetta ruslpóstur.

Árið 2006 bauð brezkt símafélag upp á ókeypis Skype netsímtöl. Fram að því höfðu símafélög barist gegn Skype og reynt að bjóða fólki upp á 3G í staðinn. Skype notar VoIP tækni, sem flestir telja, að muni leysa hefðbundna símatækni af hólmi.

Erfitt er að sjá, að símafélög geti lengi selt þjónustu, sem internetið býður ókeypis. Skype er dæmi um ókeypis síma, en aðrir framleiðendur hugbúnaðar eru einnig á svipaðri leið. Google hefur gefið út opinn hugbúnað fyrir síma, Android.

Með VoIP, Voice over Internet Protocol, getur fólk hringt á ókeypis neti í stað þess að nota dýran síma. Nokkur símafélög erlendis tóku árið 2006 upp VoIP til að hringja í hvers kyns síma, ekki bara í tölvur. Er betra á 3G símakerfum en eldri kerfum.

Á fyrsta ársfjórðungi 2006 fækkaði notendum heimasíma í Bandaríkjunum um 150.000. Á sama tíma fjölgaði notendum VoIP tölvusíma um 100.000. Símafélög eru ekki samkeppnishæf við internetið. Lágt fastagjald mun leysa notkunargjald af hólmi.

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé