Eðli frétta

Fréttir
Eðli frétta

Fréttir þurfa að vera:
1. NÁKVÆMAR. Allar upplýsingar eru sannreyndar áður en þær eru notaðar. Bein skoðun er besta leiðin til að fá réttar upplýsingar.
2. TILVITNAÐAR. Blaðamaðurinn segir, hverjar séu heimildir fyrir upplýsingum.
3. FULLNÆGJANDI. Fréttin segir frá einstökum atriðum, sem sýna, sanna og skrá meginatriðin.
4. JAFNVÆGAR, SANNGJARNAR. Sagt er frá öllum hliðum.
5. HLUTLÆGAR. Blaðamaðurinn treður ekki inn tilfinningum sínum eða skoðunum.
6. STUTTAR og FÓKUSAÐAR. Fréttin kemst strax að kjarna málsins og heldur sig við hann.
7. VEL SKRIFAÐAR. Fréttir eru skýrar, beinar, áhugaverðar.

Blaðamaðurinn reynir að skrá sannleikann nákvæmlega með því
1) að hafa séð hann eða
2) með því að nota áreiðanlegar heimildir, mannlegar eða skriflegar. Hann reynir að skrifa áhugaverða, tímabæra og skýra sögu með fjölbreyttum texta.

Góðir blaðamenn þola ekki villur. Gourmet tímaritið birti uppskrift með örlitlu af vetrarliljuolíu. Þar átti að standa vetrarliljukraftur. Olían er eitruð. Leiðrétting var prentuð á límmiða og fest í 750.000 eintök af tímaritinu.

Skoðanakönnun meðal 550 bandarískra blaðamanna sýndi, að þeir telja helstu gildi sín vera:
1) að fara rétt með staðreyndir.
2) að fá báðar hliðar málsins.

Þrátt fyrir tímahrak er nauðsynlegt að fá atriði staðfest. Joseph Pulitzer, slagorð hans: “Nákvæmni, nákvæmni, nákvæmni.” Fréttamaður er gjaldgengur, þótt ekki neisti af texta hans. En hann endist ekki lengi, ef hann er ekki nákvæmur.

Mistök verða, þegar blaðamaður lætur undir höfuð leggjast að sannreyna heimild eða fullyrðingu hennar. Hljómsveitarstjóri lætur þig hafa nöfn sveitarmanna og eitt er vitlaust skrifað. Þér verður kennt um það, ekki hljómsveitarstjóranum.

Leiðrétting er einföld: “Í síðasta tölublaði Michigan Chronicle í frásögninni um morgunverð hjá Fontroyfjölskyldunni var rangt farið með gælunafn ömmunnar. Fjölskyldan kallar hana “Big Ma”, en ekki “Big Mouth” eins og stóð í blaðinu.”

Blaðamaður notar nákvæma orðið yfir það, sem hann lýsir, ekki almennt orð. Ekki segja: “Hún er hávaxin”, heldur “Hún er 180 sentimetrar”. Ekki segja “Skipið skemmdi bryggjuna”, heldur “Ferjan olli 3ja milljón króna tjóni á bryggjunni.”

Hraðinn er óvinur nákvæmninnar. Sannreynsla upplýsinga tekur tíma. Það er ekki auðvelt, þegar það kostar tvær mínútur aukalega, en ein mínúta er í útsendingu. Krafan um nákvæmni þýðir þá, að fréttin nær ekki þessum fréttatíma.

Bertrand Russell: “Skoðaðu málið sjálfur. Aristóteles hefði getað forðast þau mistök að halda fram, að konur hafi færri tennur en karlar, ef hann hefði haft fyrir því að biðja frúna um að hafa munninn opinn, meðan hann teldi tennurnar.”

Oft verður blaðamaðurinn að reiða sig á heimildir, svo sem skjöl og skýrslur, eða einstaklinga á borð við vitni, málsaðila eða valdamenn. Blaðamaðurinn sér sjaldan sjálfur innbrotsþjófinn að verki eða bílinn klessast á staurinn.

Þegar blaðamaðurinn er sjálfur ekki á vettvangi og fær frétt frá þeim, sem voru á staðnum, er fréttin frá annarri hendi, ekki frá fyrstu hendi. Sumar fréttir eru byggðar á upplýsingum frá þriðju hendi. Davíð sagði Illuga, sem sagði mér.

Bernstein og Woodward sögðust hafa byggt Watergatefréttir sínar á brotum úr sönnunargögnum, yfirlýsingum margs konar heimilda, margvíslegum túlkunum og á hluta úr skilningi á atburðum, ýmsum smáatriðum, sem söfnuðust upp á löngum tíma.

Watergatefréttirnar voru mikið fengnar úr þriðju hendi. Slíkar upplýsingar eru sérstaklega vandmeðfarnar og krefjast miklu meiri vinnu við sannreynslu. Þótt fréttir Bernstein og Woodward hafi reynst réttar, efast margir um verklagið.

Þegar frétt hefur farið gegnum síur frá fyrstu hendi til annarrar handar og þriðju handar er hætt við, að sitthvað hafi farið úrskeiðis á leiðinni. Mikilvægt er, að lesendur átti sig á, hvað hver heimild er nálægt atburðunum, sem lýst er.

Blaðamaðurinn skýrir frá, hver gaf hverja yfirlýsingu eða upplýsingu, annað hvort með fullu nafni eða með því að segja frá staðsetningu í kerfinu: “yfirmaður hjá borginni”, “aðstoðarmaður ráðherra”, “samkvæmt lögregluskýrslu”.

Við skrifum það beint, sem við vitum sjálf. Við berum aðra fyrir öðru. Mörg gögn fela í sér staðreyndir, en önnur gögn eru ekki eins áreiðanleg. Við getum lent í vandræðum, ef við notum nafn og aldur upp úr lögregluskýrslu, þær eru ónákvæmar.

Fullyrðing eða skoðun þarf alltaf heimild á bak við sig. Markmið þess að geta heimildar er að dreifa ábyrgð frá blaðamanni yfir á herðar heimildar. Ef hennar er ekki getið, telur lesandinn að þú vitir sjálfur, að upplýsingar séu réttar.

Stundum vill heimild ekki koma fram undir nafni. Blaðamaðurinn þarf að reyna að fá hana til að koma fram og vera að öðrum kosti klár á því, hvernig megi vísa til heimildarinnar: Ráðuneytisstjóri sagði, embættismaður sagði, starfsmaður sagði.

Sumir fjölmiðlar og sumir blaðamenn neita að nota heimildir, sem ekki má vitna í. Þess vegna þarf að þrýsta á heimildamenn. Og það er alger regla, að ekki má leyfa nafnlausum aðila að koma á framfæri gagnrýni á nafngreindan aðila.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum nota oft nafnlausar heimildir til að kanna viðbrögð samfélagsins við hugmyndum sínum, áður en þær verða að veruleika. Þá geta þau neitað öllu, þegar fólk kvartar, og kennt fjölmiðlum um óvandaðan fréttaflutning (trial balloon).

Lærdómurinn er skýr fyrir blaðamenn. Þeir mega ekki láta nota sig til að hjálpa stjórnvöldum til að setja á loft villandi blöðrur í tilraunaskyni. Blaðamenn mega ekki láta stjórnvöld misnota sig, þótt margir geri það raunar hvað eftir annað.

Fjögur stig heimilda.
1) Undir nafni og í gæsalöppum.
2) Undir starfsheiti og í gæsalöppum.
3) Án heimildar og gæsalappa.
4) Bakgrunnsupplýsingar til að fræða blaðamanninn, en ekki til að þær fari í fjölmiðilinn.

David Shaw við Los Angeles Times segir: “Þegar við skrifum: “Samkvæmt heimildum blaðsins”, telja lesendur okkur vera að ljúga.” Í öllum tilvikum vill ritstjórinn vita nafn heimildarinnar. Sumir fjölmiðlar heimta nöfn á allar heimildir.

Í verklagsreglum New York Times segir: “Við leyfum ekki ónafngreindum heimildum, svo sem “lögreglumönnum” að nota okkur til að dreifa áburði á hendur nafngreindum aðilum, ef ekki fylgja nöfn kærenda eða aðrar sannanlegar heimildir.”

Hjá Associated Press er þetta orðað svona: “Við samþykkjum ekki holt og bolt kröfur um nafnleynd. Við viljum traustar heimildir. Ef heimild vill ekki koma fram, segjum við það. Ef við samþykkjum slíkt, stöndum við síðan við það.”

Rannsóknir sýna, að lesendur, hlustendur og áhorfendur taka mun meira mark á nafngreindum heimildum en ónafngreindum. Shyam Sundar við Pennsylvania State segir, að jafnvel í smáfréttum fylgi því meira traust, að heimild sé nafngreind.

Jason Riley varði sex mánuðum til að skoða gögn, sem bentu til, að illa væri staðið að héraðsdómum í Louisville. Þegar hann kom með þykka grein um málið og byrjaði á fullyrðingu um þetta, sagði ritstjórinn: “Segir hver?”

Tilvitnun í heimildir annarrar og þriðju handar fríar ekki blaðamanninn frá ábyrgð á meiðyrðum samkvæmt prentrétti. Blaðamaðurinn þarf sjálfur að hafa reynt að skoða gögn og skýrslur til að fullvissa sig um, að heimildin sé rétt.

Fullyrt var að Hillary Clinton hefði falsað tölur um verðgildi fasteigna þeirra hjóna, notaðar tölur á ljósriti, sem skýrt var merkt sem 1. síða af 2, að ekki mætti nota nema með fylgdi bakhliðin, blaðsíða 2. Þar kom fram rétt verðgildi.

Þegar við horfum á blaðamenn vinna, sjáum við, að þeir bregðast fljótt við atburðum, sem munu vekja áhuga fólks og hafa áhrif á líf þess. Þeir eru ötulir í leit að upplýsingum, sem máli skipta. Þeir dýrka nákvæmni og eru sanngjarnir.

Við lærum um alls konar atburði og aðstæður, af því að blaðamenn hafa frétt af þeim. Þeir hafa beitt dómgreind sinni, reynslu og verklagsreglum til að lyfta því upp, sem þeir telja fréttnæmt, muni fræða fólk, hafa áhrif á það og skemmta því.

Stærðfræði er það, sem þarf. Jack Marsh, Argus Leader: “Færið mér blaðamann, sem kann prósentur.” Skoðanakönnun Columbia sýnir eina mikilvæga samræmið milli einkunna og árangurs í blaðamennsku vera í stærðfræði. Stærðfræði er “sine qua non”.

Mikilvægi bloggsins: Þegar 60 Minutes sýndi haustið 2004 gögn um, að Bush forseti hefði komið sér undan herþjónustu, voru bloggarar á fáum mínútum búnir að sjá, að skjölin voru fölsuð, gátu ekki verið úr ritvél frá árinu 1970. En varið ykkur á blogginu.

Við lærum um alls konar atburði og aðstæður, af því að blaðamenn hafa frétt af þeim. Þeir hafa beitt dómgreind sinni, reynslu og verklagsreglum til að lyfta því upp, sem þeir telja fréttnæmt, muni fræða fólk, hafa áhrif á það og skemmta því.

Fréttamennska er:
Nákvæmni
Nákvæmni
Nákvæmni

Sjá nánar:
Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10. útgáfa 2006

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé