1962-1964: Hjá Indriða ritstjóra

Tíminn var næststærsta blað landsins, háði samkeppni við Morgunblaðið, sem var gamaldags á þessum árum. Frá síðari hluta árs 1961 til ársloka 1964 urðu hægfara útlitsbreytingar. Indriði G. Þorsteinsson varð fréttaritstjóri 7. janúar 1962. Hann tók um tíma sumt af þessari vinnu, hafði svipuð viðhorf og ég. Af Indriða lærði ég margt. Hann hafði djúpan skilning á almenningi og hvernig framsetning hentaði honum. Engar stórar útlitsbreytingar urðu samt við komu hans, hægfara lagfæringar héldu áfram. Formlega var ég svo gerður að fréttastjóra 19. júní 1963, en var þá raunar búinn að vera það um skeið.

Indriði kom af bráðhressu Alþýðublaði Gísla Ástþórssonar og fylgdi mildri götusölustefnu í fréttastjórn. Lagði áherzlu á aðeins eina frétt á dag, lét aðrar fréttir afskiptalausar. Lagði áherzlu á hverja forsíðu sem nýtt listaverk, ólíka fyrri forsíðum, sinnti lítið öðrum síðum. Vildi, að forsíðan væri spánný á hverjum degi. Ég vildi hins vegar byggja á fimm-tíu formum fyrir hverja síðu, þannig að hefðir mynduðust, sem lesendur tækju eftir og væru sáttir við. Indriði var mikið fjarverandi í bókaskrifum og á Borginni, svo að hugmyndir mínar höfðu meiri áhrif en ella hefði verið.

Raunar var framhaldssagan sá þáttur blaðsins, sem átti hug Indriða óskiptan. Þegar sá efnisþáttur var á útleið í dagblöðum, fjölgaði hann sögunum úr einni í tvær á dag. Heil síða var lögð undir framhaldssögur á degi hverjum. Hann bætti við metsölubókum á sviði sagnfræði síðari heimsstyrjaldarinnar. Svo sem dagbókum Alanbrooke lávarðar. Um þetta mál talaði hann á mörgum fundum. Áhugi hans á hönnun fréttasíðna blaðsins minnkaði fljótt. Hönnunin féll meira eða minna í mínar hendur. Ári eftir komu hans á Tímann, í upphafi árs 1963, var mín stefna í hönnun orðin ráðandi á fréttasíðum blaðsins.

Indriði samþykkti aldrei tillögur fólks um uppslætti. Björn Þ. Guðmundsson, síðar lagaprófessor, skrifaði erlendar fréttir. Þegar hann var búinn að því og velja aðalfrétt, skrifaði hann aðra til vara. Með hana fór hann niður til Indriða og sagði hana vænlega aðalfrétt. Það fannst Indriða ótækt og spurði, hvort ekkert væri til skárra. Björn minntist þá á málið í földu fréttinni. Indriða leizt vel á það, Björn fór upp og beið í tíu mínútur. Kom svo með fréttina, sem hann hafði alltaf ætlað í uppslátt. Indriði varð kátur og áttaði sig aldrei á sjónhverfingunni. Björn kunni lagið á honum.

Indriði var fyrsti maðurinn, sem talaði um fréttastíl í mín eyru. Hann var harðsoðinn rithöfundur eins og Ernest Hemingway, skrifaði smásögur í stíl lögreglufrétta. Indriði kunni vel við stuttar og snarpar málsgreinar. Hann vandaði sig við texta, lá stundum yfir honum. Ég held, að Hemingway og Halldór Laxness hafi verið hans helztu fyrirmyndir. Undir áhrifum frá Indriða fór ég í fyrsta skipti að hugsa um textastíl fjölmiðla. Ég var þó seinþroska á þessu sviði. Náði ekki skipulegri stílstefnu fyrr en ég var hættur að vera ritstjóri og farinn að kenna blaðamennsku við háskóla.

Indriði var fyrst og fremst ritstjóri síðdegisblaðs, götusölublaðs. Á blaði, sem samt var morgunblað og var selt í áskrift. Hjá honum kynntist ég fyrst sjónarmiðum götusölublaðs: Mögnuðum fyrirsögnum, aðeins einum uppslætti á hverjum degi og daglegri byltingu í útliti. Ég held þetta hafi ekki hentað Tímanum þá og ég flutti þessi sjónarmið ekki yfir á Vísi. Á þessum tíma var ég raunar nær fortíð Tímans en Indriði. Það tók mig nokkurn tíma að átta mig á sjónarmiðum götusölublaðs og læra að meta þau. Nú tel ég, að götublöðin geti betur nálgast sannleikann heldur en stofnanavædd dagblöð hefðbundin.

Árin mín 1961-1964 á Tímanum voru ár Viðreisnarstjórnarinnar, sem blaðið var mjög andvígt. Ég hins vegar sá í henni glætu og gekk smám saman til fylgis við meginstefnu hennar, frjálsa verzlun. Vegna aðskilnaðar frétta og stjórnmála á síðum blaðsins hafði það ekki áhrif á starf mitt. En auðvitað sést á fólki, ef það tekur sinnaskiptum í pólitík. Ég var kannski gálaus í tali um pólitík og kom við spenntar taugar kommissara. Þetta truflaði þó ekki samstarf mitt við aðra í húsinu, enda voru þetta allt ágætis menn, líka kommissararnir. En Indriði var sá eini, sem ég lærði eitthvað af.

Af blaðamönnum átti ég mest samskipti við Magnús Bjarnfreðsson, sem síðar varð sjónvarpsmaður. Sigurð Hreiðar, sem síðar varð kennari á Bifröst. Birgi Sigurðsson, sem síðar varð leikritaskáld. Tómas Karlsson, sem síðar varð sendifulltrúi. Runólf Elentínusson, sem síðar varð ljósmyndakennari. Magnús, Birgir og Runólfur voru utan sambúðar um þetta leyti og leiddu mig um völundarhús skemmtistaðanna. Þá var barinn á loftinu í Naustinu samkomustaður þeirra, sem töldu sig menningarvita. Um skeið varð ég svo auðugur, að ég borðaði kvöldmat í Naustinu nánast öll laugardagskvöld.

Þegar ég hóf störf við Tímann, hvarf ég frá náminu í félagsfræði. Ég bætti mér það upp með því að hefja nám í sagnfræði og landafræði við Háskóla Íslands. Ég lauk BA-prófi í þeim greinum undir lok ferils míns á Tímanum. Kennarar mínir voru hinir sömu og ég hafði áður litið upp til, Ólafur Hansson og Sigurður Þórarinsson. Ég tók líka eina gráðu í ensku, þar sem kennari var Gunnar Norland. Hann hafði ég einnig áður haft í menntaskóla og kunni vel við. Ég var í þessu samhliða vinnu og hafði að mestu leyti gaman af. Ég var samt feginn, þegar þessu tvöfalda vinnuálagi mínu lauk.