Sannleikur-staðfestingar

Blaðamennska
Sannleikur og staðfestingar

Bill Kovach og Tom Rosenstiel,
The Elements of Journalism,2001

1.
Skuldbinding blaðamennsku er fyrst og fremst við sannleikann,
(nákvæmnina?). Framhald

Notendur eiga að geta séð, þegar pressan hefur komist nálægt sannleikanum.
Það er þegar heimildir pressunnar eru traustar og nafngreindar.
Það er þegar rannsóknir pressunnar eru rækilegar og aðferðafræðin er gegnsæ.

Fyrsta frétt af atburði er erfiðust og um leið mikilvægust. Ef ríkisstjórnin fær þrjá daga án andmæla, getur hún búið til atburð og ákveðið, hvernig hann slær fólk. Heimildamenn eru orðnir valdameiri en sjálfir blaðamennirnir.

Sumir hafa lagt til, að stefnt verði að sanngirni og jafnvægi í stað sannleika. En þessi hugtök eru enn loðnari en sannleikurinn. Sanngjarnt gagnvart hverjum? Jafnvægi milli hverra? Það er þó hægt að staðfesta sannleikann.

Umræðusýningar í sjónvarpi eru í auknum mæli að leysa öflun upplýsinga af hólmi. Vinsælast er að menn séu á öndverðum meiði og hafi hátt. Vinnsla slíks efnis er afar ódýr í samanburði við raunverulega fréttaöflun. Viðmælendur blaðamanna hafa tekið völdin.

Nýjar tegundir blaðamennsku:
1. Rifrildisblaðamennska (Crossfire)
2. Innprentunararblaðamennska (Fox)
3. Söfnunarblaðamennska (Google)

Tíminn, sem fer í fréttanotkun, hefur haldist óbreyttur um árabil. Flutningur frétta er mun erfiðari en áður. Blaðamenn þurfa að sjá gegnum óheiðarlega heimildarmenn, hreinsa út slúðrið og spunann og finna sjálfa söguna. Blaðamaður sannreynir söguna.

2.
Hollusta blaðamennsku er
við borgarana.
(Ekki við eigendur, bókhald, auglýsendur, vini, lesendur)

Sums staðar er farið að greiða blaðamönnum eftir fjárhagslegu gengi fyrirtækisins. Þar með er verið að gera þá að kaupsýslumönnum og breyta grundvallarviðhorfum til starfsins. Blaðamenn og borgarar þurfa að átta sig á þessu.

Fréttafólk er ekki eins og aðrir starfsmenn fyrirtækja eða samsteypna. Blaðamenn hafa félagslega ábyrgð, sem getur snúist gegn hagsmunum eigandans. 70% bandarískra blaðamanna lítur á notendur fjölmiðlanna sem yfirmenn sína.

Margir blaðaeigendur hafa gefið út yfirlýsingar í þessa veru. Sjá dæmi í bókinni. Stjórn 365 miðla hefur gefið út yfirlýsingu um, að hún hafi engin afskipti af efni fjölmiðla. Hefur þó ekki ráðið umboðsmann til að gæta sérstaklega hagsmuna notendanna.

Beinum fréttum hefur fækkað, en fréttaskýringum hefur fjölgað. Oft eru fréttaskýringarnar ekki einu sinni skilgreindar sem slíkar. Notendur þurfa að fá að vita, hvað eru hefðbundnar fréttir og hvað eru fréttaskýringar.

Phil Trounstein: “Það er ekki það versta að saka blaðamann um ónákvæmni eða ósanngirni, heldur að saka hann um trúgirni.” Efahyggja hefur víða orðið svo hörð, að blaðamenn trúa ekki neinu, sem þeim er sagt. Þeir eru “cynicists” og “nihilists”.

Markhópar eru hættulegir blaðamennsku, leiða til skrifa fyrir ríkar yfirstéttir. Forstjóri Bloomingdale sagði við Murdock, að ekki væri hægt að auglýsa í New York Post, af því að “lesendur þínir eru hnuplarar okkar”. Þessi stefna er orðin viðskiptaáætlun.

Foxsjónvarpsstöð í Tennessee var staðin að því að lofa jákvæðum fréttum um þá, sem vildu auglýsa á stöðinni. Þetta kom víða í fréttum og þótti gróft, en blaðamenn þar vestra telja dæmin um slíkt vera fleiri. Talað er við sponsora fremur en aðra.

Robert McCormick, eigandi Chicago Tribune, vildi ekki, að blaðamenn og auglýsingamenn notuðu sömu lyftu í húsinu. Henry Luce hjá Time sagðist krefjast aðskilnaðar ríkis (viðskiptadeildin) og kirkju (ritstjórnin).

Þessi veggur dugir ekki lengur. Enda eru notendur fjölmiðla, oft ranglega, sannfærðir um, að samband sé milli auglýsinga og efnis. Sú trú er án efa mikilvægur þáttur í vaxandi ótrú fólks á því sem þar stendur eða er sagt.

Los Angeles Times samdi við íþróttamiðstöð um fréttir. Skipaðar voru samstarfsnefndir blaðamanna og auglýsingafólks um fréttaval. Allt varð vitlaust í Bandaríkjunum. Langtímatraust fjölmiðilsins hafði verið selt í skiptum fyrir skammtímatekjur.

Almenningur telur, að aðrir fjölmiðlar geri það sama og Los Angeles Times. Allt innihald fjölmiðla er skyndilega orðið grunsamlegt. Álit manna á stétt blaðamanna hefur hrapað. Þess vegna þarf að endurreisa gömul gildi þeirra og kynna þau fyrir fólki.

Fyrirtækjasamsteypur þurfa markvisst að sýna gegnsætt, að þær virði hin gömlu gildi trúnaðar við lesendur, og gera öllu starfsfólki grein fyrir því, þar á meðal forstjórunum. Ljóst þarf að vera, hver stýrir fréttum og í þágu hvers. Og básúna þetta út.

Auglýsingar, sem nefnast kynningar eða aukablöð eiga þátt í efasemdum notenda fjölmiðla. Fólk telur samhengið vera náið. Þarna er um að ræða vanda, þar sem ritstjórnir fjölmiðla verða aftur að endurheimta fyrra traust notenda sinna.

Markmið:
Samsteypur, sem eiga fjölmiðla,
1. setji borgara í efsta sæti,
2. ráði forstjóra, sem skilja þetta,
3. setji skýrar vinnureglur,
4. birti þessar vinnureglur,
5. ritstjórnir ráði fréttum

Hollusta blaðamennsku er við borgarana, ekki við niðurstöður bókhalds, ekki við eigendur, ekki við auglýsendur, ekki við aðra vini, ekki við lesendur eða hópa lesenda (Bloomingdale-kúnna). Þetta er mjög erfitt á tíma samdráttar.

3.
Eðli blaðamennsku er
leit að staðfestingum.
(Ekki að hlutlægni eða raunsæi, ekki að sanngirni eða jafnvægi)

Verklag á borð við að leita að fleiri heimildum um atburð, gefa sem mest upp um heimildamenn og að leita álits sem flestra sýna leit að staðfestingum.

Blaðamenn þurfa að vinsa burt orðróm, slúður, misminni og spuna.

Í raun er leitin að staðfestingum það sem greinir blaðamennsku frá skemmtun, áróðri, skáldskap og list. Blaðamennska fjallar eingöngu um sannar sögur. Þetta er kjarni málsins, raunveruleikinn, sem blaðamenn standa andspænis.

Hlutlægni er gamalt hugtak í blaðamennsku, sem hefur glatað merkingu sinni.
Fyrir hálfri öld var í staðinn farið að tala um raunsæi. Ef staðreyndir væru dregnar fram hver á fætur annarri, mundi sannleikurinn koma í ljós.

Sanngirni við fólk getur ekki verið markmið, aðeins sanngirni við staðreyndir. Markmið blaðamennsku er ekki að forðast að gera neinn óhamingjusaman.
Blaðamaður spyr ekki: Er sagan mín sanngjörn? Slíkt dregur úr sannreynslu og staðfestingum.

1. Aldrei bæta neinu við, sem ekki var.
2. Aldrei blekkja notendur.
3. Vertu gegnsær um aðferðir þínar og tilgang.
4. Treystu eigin rannsóknum.
5. Vertu auðmjúkur.
Þetta eru grundvallarreglur leitar þinnar að staðfestingum.

Skáldskapur er farinn að þykjast vera sannleikur. Framleiðendur í sjónvarpi kalla það Docudrama. Það felur í sér að ljúga. Ekki má vitna í fólk, nema tilvitnunin sé rétt. Þú birtir ekki, hvað þú ákveður að viðkomandi hafi sagt.

Reglurnar tvær um að bæta engu við og að blekkja aldrei notendur eru vitar á siglingunni um haf staðreynda og skáldskapar. Þú getur þó leiðrétt málfar. Ekki má heldur færa málsatvik til, klippa viðtalskafla inn á annan stað.

Hvernig veistu það, sem þú veist? Hverjar eru heimildir þínar. Hve mikið vita þær beint um málið? Hvaða hlutdrægni hafa þær? Eru til heimildir, sem segja annað? Hvað vitum við ekki? Þetta eru spurningar, sem leiða til gegnsæis.

“Sérfræðingar segja …” Hvað þýðir þetta? Hve margir sérfræðingar, hverjir eru þeir, sem blaðamaðurinn talaði í rauninni við. Var það gamli skólabróðirinn. Oft er verið að spara tíma. Þetta er vond blaðamennska, sem veldur grun almennings um óheilindi.

Þegar heimildarmaður, sem hefur fengið að vera nafnlaus, reynist hafa blekkt blaðamanninn, er heimilt að segja hver hann er. Samkomulag um nafnleysi gildir aðeins að því marki, að nafnlausa heimildin sé heiðarleg og fari rétt með.

Sigling undir fölsku flaggi er stundum notuð. Ef upplýsingarnar eru nógu mikilvægar, ef engin önnur leið er til að ná þeim. Segja þarf frá dulargervi og skýra, hvernig stóð á því, hví var það nauðsynlegt. Lesandinn dæmir svo, hvort tilgangur helgi meðal.

Gerðu vinnuna þína sjálfur. Ekki lepja upp úr öðrum fjölmiðlum. Láttu mál vera, ef þú efast um það. Hræðslan við að vera skúbbaður hefur afsakað mörg slys í blaðamennsku. Þú verður sjálf að leita staðfestingar á fréttinni.

Er inngangurinn réttur? Hafa allar staðreyndir verið tékkaðar? Eru upplýsingar um bakgrunn fullnægjandi? Er vitað um alla málsaðila og koma þeir fram? Dregur frásögnin taum eða er hún hlaðin gildismati? Vantar eitthvað? Er kvótað rétt?

Gerðu ekki ráð fyrir neinu. Tékka þarf af alla hluti. Hve mikið veit ónafngreindur heimildarmaður í rauninni? Er hann hlutdrægur, getur hann freistast til að leiða þig á villigötur, felur hann sumt fyrir þér? Eru vinstri grænir virkilega andvígir íbúðum fyrir fatlaða?

Ef þú hefur að málavöxtum skoðuðum ákveðið að nota nafnlausa heimild, notaðu þessar reglur. Láttu aldrei ónafngreinda heimild hafa skoðun á nafngreindri persónu. Byggðu aldrei frétt á tilvitnunum í nafnlausa heimildarmenn.

Sjá nánar:
Bill Kovach og Tom Rosenstiel,
The Elements of Journalism,2001

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé