Allt of mikið veður er gert út af ósamkomulagi alþingismanna um, hvort rita skuli zetu eða ekki. Umræður á alþingi um þennan ágæta bókstaf eru ekki vitlausari en aðrar umræður þar í húsi. Þær stela ekki heldur frá þingmönnum tíma, sem betur væri varið til annarra mála mikilvægari, því að við slík mál ráða alþingismennirnir hvort sem er ekki. Og ekki gera þeir neitt af sér meðan þeir ræða zetu.
Þessi stafur var um nokkurra áratuga skeið óhreina barnið í opinberri stafsetningu hér á landi. Hann var ekki kenndur í skólum til jafns við aðra stafi. Menn komust fyrst í kynni við zetuna á síðustu stigum skyldunámsins og höfðu því hvorki tíma né tækifæri til að læra notkun hennar.
Svo var zetunni útskúfað, af því að menn kunnu ekki notkun hennar. En það var í rauninni ekki stafnum sjálfum að kenna. Zetan er mjög auðveld í notkun ef vel er að gáð. Hún fékk bara aldrei tækifæri.
Út af fyrir sig getur verið ágætt að grisja stafrófið. En þá væri nær að byrja á ypsílon, sem er í eðli sínu mesti vandræðastafur tungumálsins. Og ef menn eru á annað borð að krukka í ritmálið og færa það nær töluðu máli, er alveg eins hægt að löggilda hljóðritun íslenzkunnar.
Hafa verður í huga, að opinber stafsetning má gjarna vera nokkuð íhaldssöm, svo að hún rugli fólk ekki í ríminu. Ekki má heldur gleyma hinum mikla kostnaði við að breyta kennslubókum í samræmi við nýjustu tízkur málfræðinga og menntamálaráðherra.
Auðvitað hafa menn farið sínu fram og fara sínu fram, þrátt fyrir allar stafsetningardillur ráðuneytis. Langflest dagblöðin og þar á meðal tvö hin mest lesnu hafa óhikað notað zetu, þrátt fyrir útskúfun hennar. Dagblaðið mun sennilega halda áfram að nota zetu, að minnsta kosti meðan meirihluti þeirra, er blaðið skrifa, kann sæmilega við hana.
Þingmenn hafa augljósa heimild til að rísa upp til varna, þegar menntamálaráðuneytið breytir opinberri stafsetningu. Þeir hafa fjárveitingavaldið. Og krukk með stafi hefur óhjákvæmilega kostnað í för með sér, þótt ráðuneytið reyni að gera lítið úr því.
Bezt væri að innleiða zetuna á nýjan leik og gleyma því millibilsástandi, sem frumhlaup menntamálaráðuneytisins hefur valdið. Það er notendum zetunnar samt ekkert sáluhjálparatriði, því að þeir komast vel af, þótt þeir lesi ekki zetu í opinberum gögnum.
Hitt væri svo afar gaman, ef hugsjónamóður þingmanna með og móti zetu rynni ekki jafnóðum af þeim aftur. Bezt væri, ef umræðurnar um zetuna kæmu þeim í varanlegt stuð, sem þeir virkjuðu síðan í ýmsum alvörumálum, er steðja að þjóðinni. Þá væri með réttu unnt að segja, að enginn stafur sé betri en einmitt zetan.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið