Ýmsir kostir – margir gallar.

Greinar

Landhelgissamningurinn við Vestur-Þjóðverja mun vafalaust ekki verða vinsæll hérá landi. Til þess eru gallar hans of miklir og of mikil andstaða í landinu gegn hvers konar samningum við útlendinga um veiðar innan 200 mílna fiskveiðilögsögunnar.

Samt hefur samningurinn bæði kosti og galla. Menn verða að líta bæði á meðrökin og mótrökin, áður en þeir gera upp hug sinn til hans. Við skulum fyrst líta á kostina, því að þeir eru færri.

Með því að semja við erlent ríki, sem hagsmuna hefur að gæta, um fyrirkomulag veiða innan 200 mílna, höfum við sýnt fram á, að um slíkan frið er unnt að semja í frjálsum samningum án gerðardóms.

Þetta getur haft góð áhríf á niðurstöðu hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Ísland og önnur 200 mílna ríki vilja, að strandríkin dæmi sjálf um undanþágur innan 200 mílnanna. En andstæðingarnir eru að reyna að koma inn í samþykkt ráðstefnunnar ákvæðum um, að alþjóðlegur gerðardómur skeri úr deilum, sem upp kunna að koma.

Eftir samninginn við Þjóðverja er ekki unnt að benda á Ísland sem einstrengingslegt strandríki. Samningurinn leggur einnig grunn að samningum við Belga, Norðmenn og Færeyinga, án þess að við þurfum að fórna miklu af þorskfiskstofnunum. Þar með hefur taflið snúizt við á þann hátt, að við getum bent á Breta sem hina einu sönnu sérhagsmunamenn.

Annar kostur samningsins er, hve litlar þorskveiðar Þjóðverja mega vera. Af 60.000 tonnum þeirra mega aðeins 5.000 tonn vera þorskur.

Þriðji kosturinn er svo bann við veiðum frystitogara og takmörkun á fjölda leyfðra togara.

Einn augljósasti galli samningsins er, að 60.000 tonn fela ekki í sér neinn umtalsverðan samdrátt á afla Þjóðverja.

Annar galli samningsins er, að hann mun samkvæmt áreiðanlegum heimildum gera ráð fyrir veiðum Þjóðverja innan 50 mílna.

Þriðji galli samningsins er, að hann felur ekki í sér neina formlega viðurkenningu á 200 mílna fiskveiðilögsögunni. Slík viðurkenning hefði einmitt verið tímabær, þar sem komið hefur í ljós, að mikill meirihluti þjóða heims fylgir 200 mílna efnahagslögsögu. Slík viðurkenning hefði orðið málstað okkar til framdráttar á hafréttarráðstefnunni.

Enn er sá galli á samningnum, að hann leiðir ekki til afnáms refsitolla ríkja Efnahagsbandalagsins á sjávarafurðum okkar. Við höfum því enga knýjandi viðskiptahagsmuní af því að undirrita samninginn. Við fáum sem sagt ekki hið minnsta í staðinn fyrir undanþágur Þjóðverja.

Svo má nefna þann galla, að samningurinn virðist ekki gera ráð fyrir því, sem við á að takaa þegar tveggja ára samningstíma lýkur. Þjóðverjar munu því, þegar þar að kemur, geta haldið því fram, að undanþágurnar eigi að halda áfram, nema um annað sé samið. Við höfum hins vegar alltaf talið okkur vera að semja um umþóttunartíma.

Loks er sá galli, sem ef til vill er mikilvægastur. Hann er sá, að samningurinn mun sundra þjóðinni og grafa undan ríkisstjórninni. Andstaðan gegn samningnum er einfaldlega nógu sterk til þess að rjúfa flokkstryggð manna.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið