Í viðræðum ríkisstjórnarinnar og Alþýðusambandsins hefur náðst árangur, sem nægir til þess, að forseti Alþýðusambandsins getur lýst því yfir, að andrúmsloftið á fundunum sé gott, enda sé engin “pólitík” í spilinu. Viðræðuaðilarnir verða æ bjartsýnni á, að friðsamleg lausn finnist á vandamálunum.
Báðir aðilar virðast sammála um þá meginstefnu, að láglaunafólki, sem hefur innan við 50.000 króna mánaðartekjur, verði bætt að verulegu leyti kjaraskerðingin, sem leiðir af endurreisn atvinnulífsins. Þá virðist einnig sennilegt, að samkomulag geti náðst um tímalengd ráðstafananna, vísitölufrystingarinnar og láglaunabótanna.
Þetta bótakerfi hefur enn ekki verið mótað, enda þarf að vanda mjög til þess, svo að það nái tilgangi sinum. Sigla þarf framhjá ýmsum hættum, sem gætu fylgt vanhugsuðu bótakerfi. Þess vegna er eðlilegt, að nokkurn tíma taki að finna rétta kerfið.
Ein hættan er,sú, að ýmsir flokkar gerviláglaunamanna fái bætur. Þar með mundi rýrna það fjármagn, sem væri til ráðstöfunar handa raunverulegu láglannafólki. Sumar stéttir ern láglaunastéttir samkvæmt tímatöxtum, en eru í rauninni hátekjustéttir vegna uppmælingakerfis. Það mundi stríða eindregið gegn anda hugmyndarinnar um láglaunabætur, ef þessir hátekjumenn fengju þær.
Önnur hætta er sú, að niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum verði of freistandi. Þessar niðurgreiðslur eru í ýmsum tilfellum orðnar svo miklar, að verðið til bóndans er hærra og jafnvel mun hærra en verðið til neytandans. Niðurgreiðslurnar eru orðnar hærri en vinnslu- og dreifingarkostnaður landbúnaðarvara. Við vitum af reynslunni, að slíkar niðurgreiðslur gang út í öfgar og skapa hættu á hringsölu.
Ekki er þó raunhæft að tala um afnám niðurgreiðslna við núverandi aðstæður. Einhvern gullinn meðalveg þarf að finna, sem ekki aflagar verðmyndunarkerfið óhóflega og leggur ríkissjóði ekki óhóflegar byrðar á herðar.
Þriðja hættan er sú, að ekki verði litið nægilega á möguleika skattlækkunar. Sú leið sameinar þó kjarabætur og samdrátt í ríkiskerfinu, sem er æskilegur á þvílíkum þenslutíma, sem nú er. En menn hafa jafnan tilhneigingu til að vanmeta kosti slíkrar leiðar. Ríkisstjórnin hefur áhuga á þessari leið, enda er það á stefnuskrá hennar, að tekjuskattur verði ekki greiddur af almennum launatekjum. En ekki er enn ljóst, hvort Alþýðusambandið hefur áhuga á þessari leið.
Enn ein hættan er sú, að hugsanlegt samkomulag verði eyðilagt á þann hátt, að Alþýðusambandið missi tökin á hátekjuhópum á svipaðan hátt og í samningunum í vetur sem leið. Þá klufu mörg félög hátekjumanna sig frá og náðu gífurlegum kjarabótum, sem eru ein meginorsaka öngþveitisins í efnahagslífinu. En láglaunafólkið sat þá eftir með sárt ennið. Ef sami leikurinn verður leikinn núna, munu allar aðgerðir í þágu láglaunafólks verða gagnslausar. Nú reynir því á styrk Alþýðusambandsins sem væntanlega hefur lært af biturri reynslu.
Af þessu öllu er ljóst, að eðlilegt er, að nokkurn tíma taki að finna lausn, sem kemur að fullu gagni án þess að hafa óþægileg hliðaráhrif.
Jónas Kristjánsson
Vísir