Geir Hallgrímsson forsætisráðherra sagði ýmis góð tíðindi í stefnuræðu ríkisstjórnarinnar, sem hann flutti á mánudagskvöldið. Um hugsanlega undanþágusamninga í fiskveiðilögsögunni sagði hann:
“Allar viðræður fulltrúa okkar og Efnahagsbandalagsins hljóta að byggjast á gagnkvæmum fiskveiðiréttindum, Og í slíkum viðræðum verðum við að meta, hvers virði við teljum okkur fiskveiðiréttindi utan 200 mílna fiskveiðilögsögu okkar, sem í boði kunna að vera.”
Þetta hljóta menn að túlka sem yfirlýsingu um. að ekki verði samið um framhald á undanþágum, nema í þeim tilvikum, þar sem króna getur komið fyrir krónu Í gagnkvæmum veiðum, en ekkert umfram það. Þar með hljóta undanþágur erlendra skipa á Íslandsmiðum að leggjast niður að verulegu leyti, því að hagsmunir okkar á erlendum miðum eru sáralitlir.
Forsætisráðherra boðaði leiðréttingar á ýmsu misræmi og mismunun í þjóðfélaginu. Hæst ber þar frumvörp um breytingar á skattalögunum, sem sögð eru taka töluvert tillit til þeirra ábendinga, sem gagnrýnendur skattakerfisins hafa lagt fram. Hins vegar verður það að segjast, að þessar breytingar verða samt tiltölulega stutt skref í átt til réttlátari skattabyrði.
Ekki er kannski síður mikilvægt, að ríkisstjórnin lofar nú að vinna að samræmingu á lánveitingum og lánakjörum hinna ýmsu lánasjóða. Á því sviði hefur löngum ríkt argasta misræmi og misrétti. Hins vegar hyggst ríkisstjórnin ekki taka upp markaðsbúskap á þessu sviði, heldur áfram styðjast við pólitíska skömmtun undir því fína heiti: Lánsfjáráætlun. En fjórðungur úr skrefi er betri en ekkert skref.
Ríkisstjórnin segist stefna að nýrri skipan lífeyrismála á árinu 1978 og er það vel. Verðrýrnun lífeyris á undanförnum árum er einhver mesti glæpur þjóðfélagsins. Stöðugt verðgildi lífeyris gamla fólksins er sennilega mesta réttlætismál íslenzkra þjóðmála um þessar mundir.
Ríkisstjórnin hyggst standa vörð um frumvarpið um nýjar og betri aðferðir við gerð kjarasamninga, meðal annars með eflingu hlutverks sáttasemjara, þótt frumvarpið hafi sætt nokkurri gagnrýni. Þessi stefnufesta er til góðs, því að nýjar venjur eru nauðsynlegar á þessu sviði.
Ríkisstjórnin hyggst líka flytja annað gott frumvarp, sem fjallar um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta verzlunarhætti og á að miða að aukinni samkeppni og tryggja sem lægst vöruverð.
Því miður er minna innihald í orðum forsætisráðherra um, að samneyzla eigi ekki að aukast á næsta ári og að draga eigi úr opinberum framkvæmdum. Fjárlagafrumvarpið virðist ekki bera vitni um þennan fagra ásetning. Og það er kjarni málsins í b aráttunni við verðbólguna, að það er útþensla ríkisbáknsins á valdaskeiði þessarar ríkisstjórnar, sem er örlagaríkasti verðbólguvaldurinn.
En ríkisstjórnin hefur enn tíma til að efna stefnu samdráttar í ríkisbákninu, – við afgreiðslu fjárlaga.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið