Vorster stirðnaði

Greinar

Stjórn hvíta minnihlutans í Suður-Afríku hefur valið ranga leið í viðbrögðunum gegn vaxandi andófi svarta meirihlutans í landinu. Hún hefur valið leið, sem hlýtur að einangra hvíta menn í Suður-Afríku og leiða til blóðugrar borgarastyrjaldar fyrr eða síðar.

Um tíma virtist stjórn John Vorsters fara sér rólega í kynþáttamálum. Hún reyndi að vingast við nágrannaríki svartra manna. Hún reyndi að fá Ian Smith í Rhodesíu ofan af vonlausri andstöðu við kröfur svartra manna um valdatöku í landinu. Og hún tók ekki illa í kröfur Sameinuðu þjóðanna um, að hún léti Namibíu af hendi.

Að baki þessarar afstöðu lágu herfræðileg sannindi. Stjórn Suður-Afríku veit, að hún getur ekki varið Rhodesíu og Namibíu. Hún hefur þegar mikinn kostnað af þessum löndum og Vorster telur fénu betur varið til heimavarna.

Ofsóknir stjórnar Vorsters á hendur andstæðingum aðskilnaðarstefnunnar síðustu tvær vikurnar benda til, að eftirgjöfunum út á við eigi að fylgja aukin harka heima fyrir. Þar með hefur stjórnin valið skotgrafirnar og einangrunina. Þess má þegar sjá merki, að afstaða vesturveldanna til Suður-Afríku hefur kólnað verulega síðustu dagana.

Þeir tugir svartra frelsisleiðtoga, sem stjórn Vorsters hefur handtekið og sumpart látið myrða í fangelsum, voru tiltölulega varfærnir menn, skynsamleg leiðtogaefni. Þeir, sem koma í staðinn, verða róttækari og munu reka harðskeyttari og hatursfyllri stefnu.

Ofbeldi stjórnar Vorsters leiðir til þess, að meðal svartra manna í landinu rísa upp leiðtogar, sem endurspegla þröngsýni, ofbeldi og kynþáttahatur stjórnarinnar sjálfrar.

Hvíti minnihlutinn er þegar farinn að sjá forsmekkinn af því, sem síðar kemur. Prentfrelsi hefur verið rýrt í landinu. Lögregluríkið heldur hvarvetna innreið sína, svo sem frjálslyndir hvítir menn eru þegar farnir að finna fyrir.

Vorster heldur því réttilega fram, að svartir menn eigi betri, lengri og öruggari ævi í Suður-Afríku en í þeim ríkjum álfunnar, sem svartir menn stjórna sjálfir. En það þýðir ekki, að hann geti endalaust haldið þeim réttlausum í skjóli aðskilnaðarstefnunnar.

Uppþotin í Soweto sýna, að svarti meirihlutinn er að vakna til lífsins. Þar og annars staðar í landinu munu smám saman rísa upp flokkar borgarskæruliða, sem munu hefna sín með hermdarverkum af ýmsu tagi. Í bæjum og hverfum svartra manna munu þessir skæruliðar eiga sér örugga felustaði, þrátt fyrir lögregluaðgerðir stjórnar Vorsters.

Það mun taka svarta menn mörg ár að undirbúa borgarastyrjöldina. Þeir þurfa að afla sér þjálfunar og vopna. Úr því að stjórn hvíta minnihlutans hefur ákveðið að loka augunum og bíta á jaxlinn, getur hún aðeins beðið þess sem verða vill í vaxandi einangrun, vaxandi hatri og vaxandi ofbeldi.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið