Nú er vor í lofti í efnahagsmólum flestra Vesturlanda nema Íslands. Menn sjá greinileg merki þess, að samdráttartímabili orkukreppunnar er að ljúka. Búizt er við, að fyrir lok þessa árs verði árlegur hagvöxtur kominn upp í 4-7% í iðnaðarríkjum Vesturlanda og að framleiðniaukning ríkjanna verði jafnvel heldur meiri en þetta.
En Ísland situr eftir á botninum. Við fylgdum öðrum niður á við í kreppunni og sukkum dýpra en aðrir, enda höfum við haft tvær afleitar ríkisstjórnir í röð. Við sitjum áfram í vetrarkulda efnahagsvandræða, þótt farið sé að vora alls staðar í kringum okkur. Við getum ekki búizt við neinum hagvexti á þessu ári. Og engin teikn eru um bata í fyrirsjáanlegri framtíð.
Aðrar ríkisstjórnir í kringum okkur hafa hagað varnarstríði sínu skynsamlega. Þær hafa getað haft hemil á ríkisútgjöldunum og hagað málum þannig, að atvinnuvegirnir eru nú færir um að fjárfesta til útþenslu, þegar efnahagsvorið er komið.
Forsætisráðherra okkar er að forminu til einnig efnahagsráðherra. En svo virðist sem hann hafi hvorki haft vilja né getu til að sinna efnahagsmálum af neinni festu. Átakanlegast var þó, þegar hann nennti ekki að sinna vel rökstuddum kröfum samtaka launþega og vinnuveitenda í janúar um ákveðnar læknisaðgerðir.
Kjarninn í hugmyndum samtaka vinnumarkaósins var sá, að útþensla ríkisbáknsins hefði valdið því, að minna væri til skiptanna hjá almenningi og atvinnuvegum. Þessa augljósu staðreynd mátti líka lesa í áætlunum og spám Þjóðhagsstofnunar um þjóðarhag og skiptingu hans. Forsætisráðhcrra átti raunar fyrir löngu að vera búinn að átta sig á þessari staðreynd.
Forsætisráðherrar eru sjaldan í þeirri öfundsverðu aðstöðu að fá upp í hendurnar kröfur tveggja af voldugustu þrýstihópum landsins um skynsamlegar aðgerðir f efnahagsmálum. Venjulega hafa slíkar kröfur gengið í hina áttina. Forsætisráðherra átti semsagt í janúar aldrei þessu vant vísan stuðning aðila vinnumarkaðsins til niðurskurðar á ríkisgeira þjóðarútgjaldanna, en glataði því tækifæri.
Ekki bætir úr skák, að forsætisráðherra hefur frá upphafi vantað þá hægri hönd, sem fjármálaráðherra á að vera. Langt er síðan harðir fjárgæzlumenn héldu þar um völinn. Upp á síókastið hefur nánast aðeins að forminu til verið fjármálaráðherra hér á landi. Óstjórnin á fjármálum ríkisins er svo yfirgengileg.
Óþarfi er að rekja enn einu sinni hinar hrikalegu tölur um halla ríkisbúskaparins, skuldasöfnun ríkissjóðs hjá Seðlabanka og í útlöndum. Óþarfi er að minna enn einu sinni á, hvernig hlutur ríkisins til fjárfestingar og rekstrar hefur aukizt, meðan hlutur almennings og atvinnuvega hefur dregizt saman. Meðan ríkisfjármálin eru í slíkum ólestri, er engin leið að ná vinnufriði, hagvexti og lífskjarabótum í atvinnulffinu.
Þessi heimatilbúnu vandræði valda því, að við höfum misst af lestinni í samfélagi Vesturlanda. Við sitjum eftir í vetrarkuldanum, þótt farið sé að vora alls staðar umhverfis okkur.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið