Um þessar mundir er verið að moka ofan í 15 ára gamlan grunn sundlaugar endurhæfingardeildar Landspítalans. Allan þennan tíma hefur ekki verið fé aflögu til að ljúka þessum mikilvæga þætti deildarinnar. Og nú hefur verið hætt við hann.
Svo virðist sem alþingismenn hafi í 15 ár ekki þurft sjálfir að notfæra sér aðstöðu endurhæfingardeildar Landspítalans. Hins vegar hafa fjórir þeirra nýlega legið á endurhæfingardeild Borgarsjúkrahússins. Sér nú greinileg merki þeirrar vistar í tillöguflutningi hinna fjögurra þingmanna.
Þeir hafa lagt til, að ríkið greiði hið snarasta peninga til byggingar sundlaugar Borgarsjúkrahússins. Hafa þeir farið fjálgum orðum um hina miklu þjóðfélagslegu nauðsyn á slíkri sundlaug. Ekki er vitað til, að neinn þeirra hafi áður haft svo göfugt áhugamál, né lyft litla fingri í 15 ár til þess að gera Landspítalanum kleift að ljúka sinni sundlaug.
Mál þetta hefur réttilega vakið athygli. Það endurspeglar, hvernig fjárveitingar verða til á Alþingi. Þar ræður ekki raunsætt mat á því, hversu mismunandi brýn ýmis verkefni eru. Alls kyns tilviljanir ráða því, hvort fé er lagt í þetta verkefni eða hitt.
Því miður ræktar stjórnkerfi okkar ekki alþingismenn, sem hafa víðan sjóndeildarhring og sjá langt út fyrir þröngt svið persónulegrar lífsreynslu. Þeir virðast sjálfir þurfa að kynnast vandamálunum til þess að vilja leysa þau. 15 ára gamall grunnur sundlaugar á lóð Landspítalans er greinilega utan hins þrönga sjóndeildarhrings persónulegrar lífsreynslu þingmanna.
Þessar ábendingar beinast að vinnubrögðum þingmanna og þröngsýni þeirra, en eiga ekki að draga úr því, að sjúklingar í endurhæfingu geti senn haft not af sundlaug. Slík laug kemur að sama gagni við Grensásveg og við Barónsstíg.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið