Hinir erfiðu tímar, sem að undanförnu hafa verið í efnahagsmálum Íslendinga eru aðeins smávægilegt böl í samanburði við þá erfiðleika, sem nú eru fyrirsjáanlegir. Við hina pólitísku óstjórn innanlands er nú að bætast aflabrestur og önnur ytri óáran. Jafnframt er hluti framkvæmdavaldsins að flytjast úr landi vegna ótæpilegra erlendra lánveitinga á undanförnum mánuðum.
Vetrarvertíðin hefur gengið mjög illa. Spár fiskifræðinga um samdrátt þorskstofnsins hafa rætzt að fullu. Sumir vertíðarbátar hafa ekki aflað upp í olíukostnaðinn einan. Fjárhagur fjölmargra útgerðarfélaga er hrikalega bágur um þessar mundir. Og ekki er ljóst, hvernig bankar geta haldið þessum fyrirtækjum á floti án þess að lenda í að hafa ónógar tryggingar fyrir útlánum sínum.
Ennfremur virðist ljóst, að síldveiðin í Norðursjó verður að þessu sinni ekki svipur hjá sjón. Hin árvissi tekjuauki stóru loðnuskipanna er því nokkurn veginn úr sögunni. Afleiðingarnar hafa ekki látið á sér standa. Nokkur beztu aflaskipanna eru komin á sölulista og flytjast senn í hendur norskra eigenda.
Bankakerfið ræður ekki yfir því fjármagni, að það geti haldið útgerðinni áfram á floti. Ríkisstjórnin hefur látið undir höfuð leggjast að laga gengiskráninguna að staðreyndum lífsins. Annað hvort verður umtalsverður hluti útgerðarinnar bráðlega gjaldþrota eða þá að teknir vorða upp beinir eða óbeinir styrkir fyrir tilstilli erlendra lánveitinga.
Í rauninni er nokkuð dularfullt, hversu léttilega ríkisstjórninni hefur tekizt að safna skuldum á stuttum tíma. Hún hefur aukjð skuldabyrðina á hvern Íslending á tæpum 10 mánuðum úr 200.000 krónum í 350.000 krónur. Að baki þessara erlendu lána úr sjóðum, sem Bandaríkjamenn ráða að mestu, virðist liggja ákvörðun þarlendra stjórnvalda um að halda efnahag Íslands á floti.
Það er út af fyrir sig mjög þægilegt að eiga svona góða vini í raun. En það þarf líka sterk bein til að þola þessa gjafmildi. Skuldunautur verður alltaf nokkuð háður lánardrottni sínum. Og við megum sízt við slíku á þeim tíma, er við stöndum Í þorskastríði og þurfum á allri reisn okkar að halda. Það er erfitt fyrir ölmusumann að standa í deilum við nágrannana.
Að undanförnu hafa efnahagsvandræði okkar aðallega stafað af innlendri óstjórn. Í ríkisútgjöldunum hefur verið ástunduð sama veizluhaldastefnan og hjá síðustu vinstri stjórn. Og í efnahagsmálunum má ekki á milli sjá, hvor er getulausari, ríkisstjórnin eða Þjóðhagsstofnun. Fyrir bragðið erum við þess nú mjög vanbúnir að mæta versnandi ytri skilyrðum.
Því miður skortir alla stjórnmálaflokkana forustu til að mæta þessum erfiðleikum af raunsæi. Og því miður mundi brottför ríkisstjórnarinnar ekki leysa vandann, þar sem ekki tæki betra við hjá hinum flokkunum.
Þjóðin stendur því andspænis næstum ósigranlegum vanda, sem ekki fer í burtu, þótt menn stingi höfðinu í sandinn.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið