Vinstristjórn?

Greinar

Forseti Íslanda ræddi í gær við formenn allra stjórnmálaflokkanna til þess að kynna sér viðhorf þeirra, áður en hann felur einhverjum að reyna að mynda nýja ríkisstjórn. Er fastlega búizt við, að það gerist á morgun.

Telja má víst, að formaður Sjálfstæðisflokksins verði fyrir valinu. Flokkur hans felldi meirihluta fráfarandi ríkisstjórnar í kosningunum, hefur fjölmennasta þingflokkinn og vann stórsigur í kosningunum. Raunar er fráleitt að ímynda sér annað en forseti Íslands snúi sér til Sjálfstæðisflokksins.

Hins vegar er ekki víst, að myndun nýrrar ríkisstjórnar takist fljótt. Margt bendir til þess, að Framsóknarflokkurinn og Alþýðubandalagið, sem hafa samanlagt 28 af 60 þingmönnum að baki sér, muni reyna að vinna tíma til þess að taka Alþýðuflokkinn á taugum.

Alþýðubandalagið hefur þegar sent Alþýðuflokknum væmið bréf með ósk um samstarf. Alþýðuflokkurinn virðist vera veikur fyrir slíku, því að komið hefur í ljós, að þátttaka í uppvakinni vinstristjórn á nokkurn hljómgrunn í flokksráði Alþýðuflokksins.

Formaður Alþýðuflokksins sagði alþjóð í útvarpinu strax eftir kosningarnar, að flokkur hans hefði ekki áhuga á þátttöku í ríkisstjórn. Nú er hann farinn að éta þetta ofan í sig og segir allt á misskilningi byggt. Þetta bendir til þess, að hann sé að hugleiða kúvendingu í stjórnmálunum.

Þar með mundi rætast það, sem Vísir varaði við fyrir kosningarnar. Hann benti á, að þeir, sem kysu Alþýðuflokkinn í.samúðarskyni, mættu eiga von á, að atkvæði þeirra yrðu notuð til að gera landið varnarlaust og til að framlengja þriggja ára vinstra slys í fjögur ár í viðbót.

Talað er um, að Alþýðuflokkurinn hyggist setja tvö skilyrði fyrir þátttöku í vinstristjórn. Annað er, að Samtökum frjálslyndra og vinstri manna verði haldið utan stjórnar. Hitt er, að Alþýðuflokkurinn fái utanríkisráðherrann í stjórninni.

Fyrra skilyrðinu ætti Framsóknarflokkurinn að geta fullnægt, því að þar eru engir hlýir straumar í átt til Möðruvellinganna í Samtökunum, auk þess sem Alþýðuflokkurinn einn mundi færa Framsóknarflokknum og Alþýðubandalaginu nægan meirihluta á alþingi.

Í staðinn má hugsa sér, að Alþýðuflokkurinn falli frá síðari kröfunni. Og þó svo að Benedikt Gröndal yrði utanríkisráðherra, verða menn að minnast þess, að litlu munar á stefnu hans og margra ráðamanna Alþýðuflokksins og tillögum þeim, sem Einar Ágústsson hefur lagt fram í Washington og stefna að varnarleysi Íslands á tveimur árum.

Allt eru þetta hugleiðingar um óráðna hluti. En þær sýna, að Sjálfstæðisflokknum getur reynzt erfitt að mynda samstarf um ríkisstjórn, meðan allir hinir flokkarnir stefna annað hvort að vinstristjórn eða gætu freistazt til þátttöku í slíkri stjórn. Kjósendur geta hæglega vaknað upp við þann vonda draum, að vinstri stjórnin gangi aftur í lítt breyttri mynd.

Jónas Kristjánsson

Vísir