Þjóðin vill vinstri stjórn samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar, sem Dagblaðið birti á mánudaginn. Um helmingur hinna spurðu vildi stjórn Alþýðuflokks og Alþýðubandalags með þátttöku eða hlutleysi Framsóknarflokks.
Þátttöku Framsóknarflokksins vildu 41% og hlutleysi vildu 8%. Af þessu má ráða, að viðræður þessara þriggja flokka undanfarna daga um myndun nýrrar ríkisstjórnar séu í samræmi við vilja kjósenda.
Viðreisnarstjórn og nýsköpunarstjórn með Sjálfstæðisflokkinn sem kjölfestu hafa samanlagt mun minna fylgi meðal kjósenda, 29% sem skiptust í skoðanakönnuninni nokkurn veginn jafnt milli beggja tegundanna. 15% vildu viðreisn og 14% nýsköpun.
Athyglisvert var, að 8% vildu þjóðstjórn allra flokka, þótt þeim möguleika hafi lítið verið hampað. Sú tala sýnir, að töluverður hópur kjósenda telur vandamál þjóðarinnar orðin tilefni sameiginlegra neyðaraðgerða allra flokka.
Aðrir möguleikar en þeir, sem hér hafa verið nefndir, virðast ekki koma til greina að mati kjósenda. 86% þeirra, sem álit höfðu í könnuninni, nefndu einn þessara möguleika, en aðeins 14% nefndu ýmsa aðra möguleika og fékk enginn þeirra yfir 3%.
Tveir stjórnarmöguleikar, sem dálítið hafa verið nefndir að undanförnu, fengu slæma útreið í skoðanakönnuninni. Aðeins 3% vildu framhald núverandi ríkisstjórnar og aðeins 2% vildu minnihlutastjórn Alþýðuflokks.
Hin litla trú þátttakenda skoðanakönnunarinnar á minnihlutastjórn Alþýðuflokks hlýtur að vera flokknum nokkurt áfall. Nokkrir ráðamanna flokksins hafa hampað þessum möguleika sem næsta úrræði, ef vinstri viðræðurnar sigla í strand.
Hugleiðingar um slíka stjórn hafa verið notaðar til að knýja Alþýðubandalag og Framsóknarflokk til að gefa meira eftir í vinstri viðræðunum og færa sig nær málefnagrundvelli Alþýðuflokksins. Þessi ógnun virðist hingað til hafa haft töluverð áhrif.
Nú er hins vegar komið í ljós, að hótunin um minnihlutastjórn Alþýðuflokksins er deigara vopn en menn höfðu áður haldið. Það kann að leiða til aukinna krafna Alþýðubandalags og Framsóknarflokks um áhrif á málefnasamning vinstri stjórnar.
Hið sáralitla fylgi núverandi ríkisstjórnar er ömurlegt dæmi um hina almennu fyrirlitningu, sem hún hefur bakað sér. Þótt hún hafi enn nauman meirihluta á þingi, er varla nokkur, sem telur raunhæft, að hún geti setið áfram.
Þegar úrslit sveitarstjórnarkosninganna urðu kunn, sögðu margir, að nú væru óánægðir stuðningsmenn stjórnarflokkanna búnir að fá útrás og mundu hverfa til föðurhúsanna í alþingiskosningunum.
Þegar afhroð stjórnarflokkanna varð svo margfalt meira í alþingiskosningunum, neituðu sumir þessara manna enn að sjá það, sem ritað var á vegginn. En skoðanakönnun Dagblaðsins sýnir, að þjóðin er alls ekki neitt byrjuð að fyrirgefa stjórnarflokkunum.
Skoðanakönnun Dagblaðsins staðfestir þá skoðun margra stjórnmálamanna, að þriggja flokka vinstri stjórn í kjölfar undanfarinna viðræðna sé sú niðurstaða, sem sé í mestu samræmi við úrslit alþingiskosninganna.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið