Vinnum hratt og horfum langt

Greinar

Það leynir sér ekki, að mikill og vaxandi hraði er á orkuvæðingu Íslands. Hluti árlegrar fjárfestingar í orkuverum af heildarfjárfestingu í landinu hefur nærri tvöfaldazt á stuttum tíma. Árin 1970-1974 var fjárfesting í orkumálum að meðaltali 9% af heildarfjárfestingu í landinu, en árin 1975-1976 var hún orðin 16%.

Þetta kostar miklar erlendar lántökur. Í fyrra voru erlendar lántökur til orkumála um átta milljarðar af tuttugu milljarða heildarlántökum ársins. Meira en helmingurinn fór til Sigöldu eða 4,4 milljarðar og næstmest til Hitaveitu Reykjavíkur eða 1,6 milljarðar. Samtals fóru sex af átta milljörðum til þessara tveggja mikilvægu verkefna.

Flestum má vera ljóst, að undanfarin tvö ár hafa erlendar lántökur Íslendinga verið of miklar. Þær binda okkur of mikla bagga í framtíðinni. Hins vegar er það líka rétt, að lántökur til orkuframkvæmda leiða til verðmætaaukningar, sem er umfram vexti og endurgreiðslur lána. Lántökur til orkumála eru hættuminni en flestar aðrar lántökur.

Enn er mikið starf óunnið í orkuvæðingu landsins. Innflutt olía nemur enn um 62% af orkunotkuninni. Vatnsaflið sér um 20% orkunotkunarinnar og jarðvarminn um 18% orkunotkunarinnar. Hlutfall hinna tveggja innlendu orkugjafa þarf enn að efla á kostnað innfluttu olíunnar.

Við verðum áreiðanlega lengi enn að notast við olíu sem orkugjafa í skipum, flugvélum og bílum. En á flestum öðrum sviðum eigum við að reyna að láta vatnsaflið og jarðvarmann leysa olíuna af hólmi.

Um 55% þjóðarinnar nýtur nú jarðvarma til húshitunar. Við lok þeirra virkjana, sem nú eru í undirbúningi, kemst þetta hlutfall upp Í 67%. Síðan er unnt að stefna að því, að 80% þjóðarinnar njóti jarðvarma til húshitunar og þau 20%, sem eftir eru, fái rafhitun í staðinn.

Um leið og við látum innlenda orkugjafa leysa erlenda af hólmi í almennri orkunotkun, þurfum við að vinna að frekari eflingu orkufreks iðnaðar, eins og til dæmis byggingu álvers í Eyjafirði. Ef athuganir leiða Í ljós, að menn óttist slíkan iðnað vegna mengunar eða af pólitískum ástæðum, kemur sterklega til greina að stefna að útflutningi umframorkunnar um gervihnetti, eins og töluvert hefur verið rætt um í sumar.

Jafnframt þurfum við að vera framsýnir á fleiri sviðum. Við þurfum að fylgjast vel með, hvernig gengur að nýta rafmagn til að knýja samgöngutæki, fyrst og fremst bíla. Þegar þær hugleiðingar verða raunhæfar, getum við enn höggvið á hlut innfluttra orkugjafa í orkunotkun þjóðarinnar.

Enginn vafi er á, að orkan er ein mikilvægasta auðlind heimsins. Jafnljóst er, að uppbygging innlends orkukerfis er eitt mikilvægasta hagsmunamál Íslendinga um þessar mundir og um ókomna áratugi. Á því sviði verðum við að vinna hratt, um leið og við verðum að horfa langt fram Í tímann.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið