Vilja hætta leiðaralestri

Greinar

Margir Íslendingar hafa tamið sér að hlusta á útdrátt leiðara dagblaðanna í morgunútvarpinu. Þeim finnst, að þeir fái þar á skjótan og einfaldan hátt yfirlit yfir helztu skoðanir, sem efstar eru á baugi hverju sinni.

Í leiðaraútdrættinum fá menn að heyra allar þær skoðanir, sem stjórnmálaflokkarnir hafa fram að færa, og ýmsar skoðanir að auki. Í flokksblöðunum fimm birtast stundum leiðarar um mál, án þess að þau séu tekin flokkspólitískum tökum. Og svo hefur Dagblaðið verið til í tæpt hálft þriðja ár.

Að öllu samanlögðu sýnir leiðaraútdrátturinn fremur breiða mynd af margvíslegum sjónarmiðum í þjóðfélaginu. Þar er að vísu of lítið fjallað um mál á borð við menntir og menningu, tómstundir, neyzlu og velferð. Og kannski er of mikið fjallað um hin hefðbundnu stjórnmál og efnahagsmál.

Gæðin eru að sjálfsögðu afar misjöfn, hvort sem miðað er við efni eða stíl. Styttingin í útdrætti hefur einnig nokkur áhrif, stundum til hins verra og í annan tíma til hins betra. Rökfastir og knappir leiðarar vilja spillast í styttingu, en losaralegt froðusnakk batnar aftur á móti.

Fyrir nokkrum árum var minni áhugi á lestri útdráttar leiðaranna. Þá höfðu flokksblöðin sjálfrátt eða ósjálfrátt komið sér saman um, hvers konar mál skyldu tekin fyrir í leiðurum og með hvaða hætti. Karpið milli þeirra var orðið að eins konar menúett, stignum fremur af skyldurækni en áhuga.

Birting Dagblaðsins í hóp blaðanna hefur megnað að hræra nokkuð upp í hinum lygna polli. Ýmislegt í leiðurum blaðsins hefur komið óþægilega við samtryggða hagsmuni stjórnmálaflokka og rýrt möguleika þeirra á að blekkja kjósendur.

Þeir eru nú mun fleiri en áður, sem hlusta á lestur útdráttarins úr Il dagblaðanna. En það veldur stjórnendum flokkanna engri gleði, því að áhrifin af lestrinum eru önnur en þeir ætluðust til, þegar þeir hugðust nota hann til að þjappa kjósendum um flokka sína.

Niðurstaðan er um þessar mundir að verða sú, að stjórnmálamennirnir telja lestur útdráttarins ekki lengur vera flokkum sínum í hag. Þeir telja sinn hlut skarðan, þótt þeir tefli fram fimm dagböðum af sex. Þeir eru fúsir að fórna lestri úr sínum blöðum, ef ekki er með öðrum hætti unnt að skrúfa fyrir lesturinn úr Dagblaðinu.

Á næstu vikum má búast við tillögu í útvarpsráði, sennilega borinni fram af fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, um, að lestri útdráttar úr leiðurum verði hætt. Jafnframt má búast við, að þessi tillaga verði samþykkt. Hún hefur verið til umræðu að tjaldabaki frá því fyrir áramót.

Dagblaðinu er að sjálfsögðu mikill heiður að þeim dómi stjórnmálamanna, að blaðið sé samtryggingu þeirra svo hættulegt, að þyngra vegi á metunum en stjórnmálaskrif flokksblaðanna fimm. Dagblaðið fær seint aðra eins viðurkenningu fyrir unnin störf í þágu þjóðfélagsins.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið