Við viljum hreinan sjó

Greinar

Reykvíkingar vilja hreina og heilnæma borg. Þorri þeirra er áreiðanlega sammála Birgi Ísleifi Gunnarssyni borgarstjóra um, að gera verði ströngustu kröfur um hreinan sjó við fjörur borgarinnar. Þeir styðja hugmynd hans um, að varið verði einum milljarði króna til að ná þessu markmiði á um það bil einum áratug.

Reykjavíkurborg hefur látið gera umfangsmiklar athuganir á því, hvernig þetta verði bezt framkvæmt. Komið hefur í ljós, að ýmsar leiðir eru færar. Felast þær í því að sameina allt skolp frá borginni í eitt, tvö eða þrjú ræsi. Í þessum ræsum verði einföld hreinsunartæki, en afgangur skolpsins verði fluttur svo langt út í sjó, að straumar beri það frá fjörum. Síðar verður svo hægt að setja fullkomnari hreinsunartæki í þessi sameinuðu holræsi til þess að hindra mengun sjávarins á meira dýpi.

Holræsakerfi Reykjavíkur er í góðu lagi, ef frá eru taldar útrásirnar í fjörunum. Þær eru of margar til þess, að það borgi sig að setja í þær hreinsunarútbúnað, og auk þess ná þær of skammt út í sjó. Með því að sameina 30 útrásir í þrjár eða færri er ódýrara, þótt dýrt sé, að koma upp hreinsunarútbúnaði og leggja ræsin út á meira sjávardýpi.

Eftir þetta átak í holræsagerð verður Reykjavík öðrum hafnarborgum til fyrirmyndar. Varla verður nokkurs staðar hægt að finna hreinni sjó og hreinni fjörur en einmitt við Reykjavík. Vissulega er ástandið nú á tímum betra við Reykjavík en víðast annars staðar í heiminum. En það er samt ekki í samræmi við nýjustu kröfur í umhverfisvernd.

Reykvíkingar vilja vera í fararbroddi á þessu sviði eins og ýmsum öðrum sviðum umhverfisverndar og hreinlætis. Þeim hefur tekizt að vernda sitt hreina og tæra kranavatn, þrátt fyrir gífurlega útþenslu borgarinnar og stóraukna vatnsnotkun. Og með stórkostlegu átaki í hitaveitu hefur þeim tekizt að gera Reykjavík að reyklausri borg, erlendum ferðamönnum til mikillar undrunar.

Kalda og heita vatnið er stolt Reykvíkinga. En stórvirki hafa verið unnin á fleiri sviðum hreinlætis og umhverfisverndar á síðustu árum. Rykmökkurinn frá gömlu malargötunum er gleymdur eins og olíureykur skorsteinanna, því að velflestar götur borgarinnar hafa verið malbikaðar. Og síðast en ekki sízt fer ræktun borgarlandsins fram hröðum skrefum.

Á þessu ári hófust umfangsmiklar aðgerðir í ræktun, lagningu gangstíga og gerð útivistarsvæða. Slíkar framkvæmdir hafa verið umtalsverðar í mörg undanfarin ár, en að þessu sinni voru þær stórlega efldar. Markmið hins nýja borgarstjóra er að framkvæma “græna byltingu” í skipulagi borgarinnar.

Það fer vel á því, að “græna byltingin” og hin mikla holræsagerð séu samhliða á verkefnaskrá Reykjavíkurborgar. Bæði þessi mál eru tákn nýs tíma, nýs verðmætamats, sem tiltölulega fáar sveitarstjórnir í þróuðum iðnaðarlöndum hafa enn áttað sig á til fulls. En það er augljóst, að Birgir Ísleifur borga1.stjóri hyggst láta hjarta Reykjavíkur slá í takt við tímann.

Jónas Kristjánsson

Vísir