Svo virðist sem við verðum fyrr búnir að afla okkur 200 mílna fiskveiðilögsögu en 50 mílna. Í næstum því heilt ár hafa 50 mílurnar verið nafnið tómt, bókstafir á pappír. Bretar og Þjóðverjar halda enn áfram veiðum eins og ekkert hafi í skorizt. Aflamagn þeirra er svipað og áður. Okkur hefur ekki tekizt að verja yfirlýsta landhelgi fyrir ofbeldi þeirra.
Í næstum því heilt ár hefur hvorki gengið né rekið í viðræðum okkar við Breta og Þjóðverja. Það litla, sem fram hefur komið, er okkur í óhag, sífelldar viðræður um undanþágur af alls kyns tagi til handa Bretum og Þjóðverjum. Að svo miklu leyti sem viðræðunum miðar eitthvað, er það í átt til mjög svo útvatnaðrar 50 mílna landhelgi, alsettrar hvers konar undanþágum.
Á þessu tæpa ári,sem við höfum árangurslaust verið að reyna að afla okkur 50 mílna fiskveiðilögsögu, er málstaður okkar mjög ört að vinna fylgi á alþjóðlegum vettvangi. Nú þykir líklegast, að hafréttarráðstefna Sameinuðu þjóðanna á næsta ári muni gera 200 mílna, en ekki 50 mílna fiskveiðilögsögu að alþjóðlegum lögum.
Umtalið um velgengni 200 mílna stefnunnar hefur farið nístingslega í taugar Lúðvíks Jósepssonar ráðherra og Þjóðviljans. Þessir aðilar telja sig nefnilega hafa mestan hag af því að halda á lofti þorskastríðinu og málastappinu í kringum það til að dreifa huga þjóðarinnar frá öðrum vandamálum og til að slá sig til þjóðernisriddara í augum kjósenda.
Þeir vilja ekki, að fólk átti sig á, að 200 mílna alþjóðlega löggilt fiskveiðilögsaga er innan seilingarfjarlægðar. Þeir vilja láta fólk halda, að þorskastríðið á miðunum og þrasið við Breta og Þjóðverja sé mergurinn málsins. Þá geta þeir beitt hinum gamalkunnu Hitlersaðferðum. Þeir spila á þjóðernisstrengi og setja landráðastimpil á alla, sem ekki eru þeim sammála.
Fréttirnar um velgengni 200 mílna stefnunnar hafa spillt þessum sjónhverfingum. Taugaveiklunin út af þeirri þróun mála fékk í gær útrás
í dæmigerðri Þjóðviljafölsun. Í leiðara blaðsins var reynt að dylgja um, að Vísir væri landráðablað, sem væri á móti 50 mílna landhelgi. .
Þjóðviljinn vitnaði í hluta málsgreinar úr leiðara Vísis, þar sem talað var ekki virðulega um fyrirganginn út af 50 mílunum. Gætti Þjóðviljinn þess vandlega að sleppa þeim hluta málsgreinarinnar, þar sem fyrirgangsmennirnir voru nefndir með nafni, Bretar og Þjóðverjar. Áttu lesendur Þjóðviljans að halda, að Vísir ætti fyrst og fremst við Íslendinga. Þannig fer Þjóðviljinn að því að gera sig að sorpriti.
Að mati Þjóðviljans er 200 mílna stefna Vísis þjóðhættulegur undansláttur. Er þó orðið ljóst, að mikill fjöldi kunnugra manna er kominn á þá skoðun, að landhelgismáli okkar verði bezt komið í höfn á hafréttarráðstefnunni á næsta ári og að við skulum nú þegar lýsa hiklaust yfir því, að við munum í skjóli nýrra alþjóðalaga taka upp 200 mílna fiskveiðilögsögu um leið og ráðstefnunni lýkur. Enginn þessara aðila hefur haldið því fram, að við eigum í þessu skyni að hætta að troða illsakir við Breta á miðunum og að karpa við þá á samningafundum.
Þjóðviljinn mun því væntanlega mikið þurfa að hafa landráðastimpilinn á lofti á næstunni.
Jónas Kristjánsson
Vísir