Tillaga Ólafs Ragnars Grímssonar í landhelgisnefnd um sameiginlega efnahagslögsögu Noregs og Íslands í og undir hafinu umhverfis Jan Mayen er bezta innlegg íslenzks stjórnmálamanns í deilunni um réttarstöðu þessarar eyjar.
Tillagan er mjög í samræmi við þau sjónarmið, sem leiðarahöfundar Dagblaðsins hafa sett fram hvað eftir annað að undanförnu. Tillagan byggjst á skilningi á því, að réttarstaða okkar er mun betri en áður var talið.
Jan Mayen er eyja án atvinnulífs á landgrunni Íslands. Norðmenn gera vafasamt tilkall til þessarar eyju og hafa þar nokkra vísindamenn í vetursetu. Slík eyja getur engan veginn haft sama rétt og sjálfstætt og fullvalda þjóðríki.
Nú síðast hefur Hans G. Andersen þjóðréttarfræðingur bent á, að á hafréttarráðstefnunni sé nú orðinn meirihluti fyrir því, að landgrunn sé reiknað 350 mílur frá landi í stað 200 mílna. Jan Mayen mundi þá verða hluti af lagalegu landgrunni Íslands.
Í ljósi þessa virðist það afar sanngjarnt af hálfu Íslendinga að bjóðast til að deila hafinu umhverfis Jan Mayen með Norðmönnum. Og augljóst er, að við þurfum að hafa afskipti af verndun fiskistofna á þeim slóðum.
Tillaga Matthíasar Bjarnasonar í landhelgisnefnd er einnig nokkuð góð. Hún felur í sér, að Norðmenn lýsi yfir og Íslendingar samþykki 200 mílna fiskveiði- og efnahagslögsögu við Jan Mayen, en með sameiginlegum yfirráðum beggja ríkja og jafnri nýtingu þeirra.
Dagblaðið kann þó ekki við það frumkvæði, sem Norðmönnum er ætlað í tillögu Matthíasar. Betri kostur felst í hinu fulla jafnræði, sem tillaga Ólafs Ragnars gerir ráð fyrir enda er Matthías samþykkur þeirri breytingu.
Dagblaðið hefur raunar viljað ganga enn lengra. Það hefur lagt til, að Íslendingar taki frumkvæðið með yfirlýsingu um, að Ísland geri tilkall til efnahagslegrar nýtingar og verndunar fiskistofna kringum Jan Mayen, eyju án atvinnulífs á landgrunni Íslands. Eftir slíka yfirlýsingu verði fyrst setzt að samningaborði með Norðmönnum.
Þótt tillögur Matthíasar og Ólafs Ragnars gangi fullskammt, eru þær ánægjulegt spor í rétta átt frá klúðri Benedikts Gröndal, utanríkisráðherra og formanni flokks þess, er þegið hefur fjárhagslegan stuðning af norskum krötum.
Meðferð Benedikts á þessu stórmáli er hreint hneyksli frá upphafi til enda. Áramt Kjartani Jóhannssyni, sjávarútvegsráðherra og varaflokksforanni, stundar hann einkaviðræður við norska flokksbræður í ríkisstjórn Noregs, þá menn, sem hann á skuld að gjalda.
Á sama tíma er málið ekkert undirbúið. Hans G. Andersen, hinum þrautreynda samningamanni, er ekki falið að undirbúa málið. Engin gögn eru lögð fram til að kynna málstað Íslands og lagaleg rök, sem Hans G. Andersen og fleiri geta lagt fram.
Áður en menn vita, hvaðan á þá stendur veðrið, er Benedikt kominn á flugstig í samningum við flokksbræður sína í Noregi. Hann hyggst taka af okkur réttinn til afskipta á Jan Mayen svæðinu og jafnvel semja um miðlínu.
Einhverju slíku hefur Benedikt greinilega lofað fjárhaldsmönnum Alþýðuflokksins í Noregi. Því miður verður Dagblaðið að taka undir það með Þjóðviljanum, að Benedikt verði strax settur á hliðarspor í þessu máli og frumkvæðið verði falið mönnum, sem ekkert hafa þegið af norskum krötum.
Enn er tími til að bjarga klúðri Benedikts. Stærstu flokkarnir tveir, Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðubandalagið,hafa samræmanleg sjónarmið, sem ganga að verulegu leyti í rétta átt, – átt Dagblaðsins.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið