Við högnumst of hægt

Greinar

Íslenzkur almenningur sló skjaldborg um Dagblaðið um leið og það hóf göngu sína fyrir tæpum tveimur árum. Lesendur blaðsins hafa æ síðan komið í veg fyrir, að fram næðu að ganga tilraunir hinna samtryggðu stjórnmálaflokka til að koma blaðinu fyrir kattarnef.

Ekki vantar samt, að stjórnmálaflokkarnir hafi unnið ýmsar orrustur í styrjöldinni við Dagblaðið. Fyrst tókst þeim að tefja útkomu blaðsins í viku. Síðan tókst þeim að spilla daglegum útkomutíma þess. Þar á ofan tókst þeim að útskúfa því fyrirvaralaust úr prentun. Og allan tímann hefur þeim tekizt að hindra, að blaðið fengi eðlilega fyrirgreiðslu í lánastofnunum.

En það nægir ekki að vinna orrustur og tapa svo styrjöldinni. Bolabrögð í forréttindakerfinu duga skammt, þegar almenningur tekur til höndum. Viðgangur Dagblaðsins er ánægjulegt dæmi um, að þrátt fyrir allt hefur venjulegt fólk ýmis völd í landinu.

Í dag eru birtir opinberlega reikningar Dagblaðsins fyrir fyrsta heila starfsár þess. Þar kemur fram, að árið 1976 hagnaðist Dagblaðið um tæpar 1,4 milljónir króna og afskrifaði rúmlega 7,1 milljón króna, sem er leyfilegt hámark.

Endurskoðun á bókhaldi Dagblaðsins á miðju þessu ári bendir til, að útkoman verði enn betri árið 1977, enda hefur útbreiðsla blaðsins aukizt töluvert. Stjórnmálaflokkarnir geta því haldið áfram að harma tilveru þess.

Þetta þýðir ekki, að Dagblaðið hafi endanlega unnið sitt varnarstríð. Hagnaðurinn er í rauninni mjög lítill og má ekki tæpar standa. Ungt fyrirtæki þarf mikinn hagnað til að koma undir sig fótunum í vélum og húsnæði.

Hingað til hefur Dagblaðið getað fjárfest fyrir rúmar 80 milljónir króna og munar þar mest um 75 milljón króna hlutafé blaðsins. Til þess að verða sjálfu sér nógt þarf blaðið enn að fjárfesta fyrir 150 milljónir á núverandi verðlagi. Það mun ganga hægt, nema hagnaðurinn aukist verulega.

Ekki síður þarf blaðið sem fyrst að komast úr þeirri greiðslustöðu, sem jafnan einkennir ung fyrirtæki. Slík fyrirtæki þurfa mikið og vantar því alltaf peninga, þótt afkoman sé í sjálfu sér góð.

Almenningur gæti treyst enn betur á Dagblaðið, ef fjárhagsstaða þess styrktist enn hraðar en hún gerir nú. Augljóst er, að með þeim hætti hverfa líkurnar á, að samtryggingarkerfi stjórnmálaflokkanna geti sett blaðinu stólinn fyrir dyrnar.

Dagblaðið hefur stungið litlu blöðin af og treyst sig í sessi sem næstmest keypta og lesna blað landsins, enda er það eina blaðið fyrir utan Morgunblaðið, sem þorir að taka þátt í upplagseftirliti Verzlunarráðsins.

Þessa stöðu þarf enn að bæta, svo að vel sé. Fyrir dyrum stendur mikið kosningamoldviðri stjórnmálaflokkanna. Í þeim dansi þarf almenningur á Dagblaðinu að halda. Dagblaðið vill því hvetja lesendur sína til að efla útbreiðslu blaðsins, fá fleiri í hópinn.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið