Íslendingar eru langt frá því að vera eina Evrópuþjóðin, sem glímir við stórfelld vandamál, stjórnmálaleg eða efnahagsleg. Þótt við höfum til skamms tíma rambað á barmi þjóðargjaldþrots, erum við að ýmsu leyti betur settir en margar aðrar þjóðir Evrópu. Við höfum þó fengið nýja ríkisstjórn, sem hefur mjög traustan þingmeirihluta að baki sér og er sammála um víðtækar björgunaraðgerðir í efnahagslífinu.
Í tveimur ríkjum Evrópu hefur óstjórnin leitt til algerrar kúvendingar í stjórnmálunum. Þetta eru Portúgal og Grikkland, sem til skamms tíma skipuðu annað og þriðja sæti á eftir Íslandi í verðbólgukapphlaupinu.
Í Portúgal veltu frjálslyndir herforingjar einræðisstjórn Caetanos úr sessi. Og þeir eru nú önnum kafnir við að losa landið við rándýra útgerð á úreltri nýlendustefnu.
Í Grikklandi hljópst herforingjastjórnin undan ábyrgð eftir hroðaleg mistök í Kýpurmálinu ofan á fyrri óstjórn sína. Borgaralegir stjórnmálamenn tóku við og hófu endurreisnarstarf.
Portúgalar og Grikkir eru lánsamari en sumar aðrar Evrópuþjóðir að því.leyti, að þeir hafa nú öðlazt vonina. Þar varð óstjórn einræðisherra svo gífurleg, að þeir ultu úr sessi. Og nú eru þessar tvær þjóðir að feta sig í átt til lýðræðis og efnahagslegrar endurreisnar.
Atburðarásin hjá okkur hefur að sumu leyti verið hliðstæð, þótt umskiptin í stjórnmálunum hafi af eðlilegum ástæðum ekki verið eins róttæk. En við höfum þó kúvent í stjórnmálunum og öðlazt von í efnahagsmálunum.
Ástandið er hins vegar skuggalegt í mörgum öðrum ríkjum Evrópu og fer versnandi. Í ríkjum eins og Danmörku og Bretlandi eru minnihlutastjórnir við völd. Þær hafa ekki þingstyrk til að ráðast af hörku gegn vandamálum efnahagslífsins.
Í báðum þessum ríkjum eru þingkosningar í uppsiglingu. En þeim kosningum fylgir lítil von, því að reiknað er með, að þær valdi litlum breytingum á styrkleikahlutföllum stjórnmálaflokkanna. Menn búast við, að jafnerfitt verði að mynda traustar meirihlutastjórnir í þessum ríkjum eftir kosningar og fyrir kosningar.
Bæði þessi ríki eru ákaflega illa stödd í efnahagsmálum. Á því sviði er ástandið enn verra á Ítalíu, sem er um það bil gjaldþrota eins og Ísland var að verða fyrir örfáum vikum. Á Ítalíu er öngþveitið í stjórnmálunum orðið svo mikið, að enginn ræður við neitt og þjóðarhagur er látinn reka á reiðanum.
Að sjálfsögðu magnast um leið öfgaöfl til vinstri og hægri í þessum ríkjum, einkum Ítalíu og Bretlandi. Stjórnmálahópar ofstækismanna eflast og á vinnumarkaðinum treysta menn í vaxandi mæli á hnefaréttinn. Þetta dregur stórlega úr möguleikum þjóðanna á að leysa efnahagsvandamál sín.
Okkar öfgaöfl eru svo veikburða, að við getum vonað, að þau nái ekki að spilla endurreisninni, sem hafin er í efnahagslífinu. Við erum einnig að því leyti lánsamari en margar aðrar þjóðir Evrópu.
Jónas Kristjánsson
Vísir