Rétt er að gæta hófs í bjartsýni á 200 mílna árangur á þeim þætti hafréttarráðstefnunnar, sem hófst í Genf á mánudaginn og lýkur 10. maí. Þótt undarlegt megi virðast, er hinn nýi stuðningur margra siglingavelda víð 200 mílurnar að ýmsu leyti hættulegur hagsmunum Íslands.
Meðan siglingaveldin börðust með kjafti og klóm gegn 200 mílunum, vissum við, hvar við höfðum þau. Þegar þau þykjast nú hins vegar vera orðnir samherjar í 200 mílunum, er rétt að fara að gæta sín á þeim.
Vitanlega stafa sinnaskipti siglingaveldanna af því, að þau sáu að þau voru að missa tökin á tólf mílna kerfinu. Þau sáu, að meirihlutinn með 200 mílunum var svo yfirgnæfandi, að við varð ekki ráðið.
Þess vegna einbeita þau sér nú að útþynningu 200 mílna efnahagslögsögunnar með ýmsum ráðum. Þau tala um, að erlend ríki eigi að fá að veiða innan 200 mílnanna, ef fiskistofnarnir séu vannýttir á svæðinu.
Og hver á svo að úrskurða, hvort fiskistofnar séu vannýttir? Siglingaveldin vilja, að alþjóðlegur gerðardómur ákveði það, væntanlega jafn íhaldssamur dómstóll og alþjóðadómstóllinn í Haag.
Siglingaveldin vona, að þau geti haft nægileg áhrif á ýmis ríki, sem ekki hafa mikilla hagsmuna að gæta og mundu í samkomulagsskyni geta fallizt á útþynnta útgáfu af 200 mílunum, með lögbundnum undanþágum og gerðardómum. Og reynslan sýnir, að mörg ríki hafa ekki bein í nefinu til að standast svo lævíslega gagnsókn sem þessa.
Að sjálfsögðu nægir okkur ekki útþynnt útgáfa af 200 mílna efnahagslögsögu. Ríkisstjórn okkar hefur þegar gengið fram fyrir skjöldu og skýrt frá því, að hún muni einhliða stækka efnahagslögsöguna í 200 mílur í sumar eða haust, hvort sem úrslit hafréttarráðstefnunnar verða okkur í vil eða ekki.
Æskilegast væri fyrir okkur, ef fundurinn í Genf leiddi til óskoraðrar 200 mílna efnahagslögsögu. Slíkt mundi styrkja verulega aðstöðu okkar í þorskastríði því, sem búast má við, þegar fiskveiðilögsagan verður stækkuð á þessu ári.
Nokkur árangur hefur þegar náðst í fyrri þáttum hafréttarráðstefnunnar. Í Caracas fækkaði kostunum, sem um er að velja. Og í Evensens-nefndinni, sem starfað hefur milli funda hefur orðalagið á þessum kostum verið samræmt.
Ekki er við því að búast, að línurnar skýrist strax á fundinum í Genf. Það verður varla fyrr en undir lok fundarins, í apríllok eða í byrjun maí sem reynir á, hvaða útgáfa af 200 mílunum verður ofan á.
Ljóst má vera, að útþynnt útgáfa af 200 mílunum nær ekki tilgangi sínum. Við Íslendingar erum ekki einir um að hafna slíkri útgáfu. Mörg önnur ríki munu vafalaust stækka efnahagslögsögu sína einhliða og neita að fallast á túlkun alþjóðlegra gerðardóma á því, hvað sé vannýting fiskimiða.
Samt munu fulltrúar okkar á hafréttarráðstefnunni berjast ótrauðir fyrir nægilegum meirihluta með virkum 200 mílum. Slíkur árangur mundi létta okkur eftirleikinn verulega.
Jónas Kristjánsson
Vísir