Við eygjum ljós

Greinar

Í stefnuræðu Geirs Hallgrímssonar forsætisráðherra í fyrrakvöld kom fram, að nýjustu þjóðhagsspár benda til þess, að björgunaraðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum muni stuðla að verulega bættu ástandi á næsta ári.

Verðbólgan, sem stefndi langt yfir 50% og sennilega í 60% á þessu ári, hefur verið stöðvuð í 42%, sem að sjálfsögðu er Íslandsmet. Það met verður ekki slegið á næsta ári, því að sérfræðingar spá, að verðbólgan verði komin niður í 15% undir lok næsta árs. Verðum við þá aftur farin að nálgast skaplegri tölur en við höfum búið við á undanförnum árum.

Í fyrra var hallinn á viðskiptunum við útlönd um 2,6 milljarðar króna eða um 3% af þjóðarframleiðslu. Í ár rýkur þessi halli upp í 12,5 milljarða króna eða um 9,5% af þjóðarframleiðslu. Þessi rosatala sýnir ásamt verðbólgunni, hversu hrikalegt ástandið var orðið á þessu hausti. Spáð er, að á næsta ári lækki viðskiptahallinn niður í 9-9,5 milljarða eða í 50% af þjóðarframleiðslu.

Þetta er nokkur bati en ekki nægilegur, enda þarf enginn að undrast, að það taki meira en eitt ár að koma þjóðarskútunni fyllilega á flot. Miklu máli skiptir þó, að horfur eru á, að greiðslujöfnuður náist gagnvart útlöndum þegar á næsta ári.

Gjaldeyrisvarasjóðurinn, sem nú er kominn niður í 2 milljarða króna og nægir ekki nema fyrir hálfs mánaðar innflutningi, ætti því ekki að rýrna meira en orðið er. Til samanburðar má geta þess, að í ár verður hallinn á greiðslujöfnuði gagnvart útlöndum um 6,5 milljarðar króna.

Í ljósi þessara talna má segja, að þjóðin sleppi nokkuð naumlega við gjaldþrot í viðskiptum sínum við umheiminn og sé raunar ekki enn komin úr allri hættu. Enn ríkir óvissa um vinnufrið í landinu og auk þess geta ytri aðstæður breytzt okkur í óhag.

Ríkisstjórnin hefur nú þegar staðið fyrir gengislækkun, hækkun óbeinna skatta, sérstökum ráðstöfunum í sjávarútvegi, frystingu kaupgreiðsluvísitölu og greiðslu launajöfnunarbóta, svo að dæmi séu nefnd. Hún hyggst áfram vinna að því á næsta ári að draga úr hraða verðbólgunnar og tryggja sæmilegan jöfnuð í greiðslum gagnvart útlöndum án þess að grípa til harkalegra samdráttaraðgerða, er geta teflt atvinnuöryggi og lífskjörum almennings í hættu.

Takist þetta, geta lífskjör á næsta ári haldizt óbreytt frá því, sem var í fyrra og hittifyrra. Þá megum við teljast hafa vel sloppið eftir að hafa rambað á barmi þjóðargjaldþrots á síðari hluta þessa árs. 0kkar hlutur verður þá betri en flestra nágrannaþjóða okkar, sem búa við hnignandi lífskjör og vaxandi atvinnuleysi og hafa ekki von um bata á næsta ári.

Þjóðarskútan hefur verið að brenna. Ríkisstjórnin hefur verið önnum kafin við að slökkva það bál og verður svo áfram á næsta ári. Miklu máli skiptir, að þorri þjóðarinnar meti rétt nauðsynina á þessu slökkviliðsstarfi og styðji viðleitni ríkisstjórnarinnar eftir föngum. Þá mun þjóðinni vel vegna, þótt á móti blási.

Jónas Kristjánsson

Vísir