Löngu fyrir sótthita olíuverðs í Rotterdam voru olíukaup okkar frá Sovétríkjunum orðin óskynsamleg. Við áttum fyrir löngu að vera búnir að snúa olíuviðskiptum okkar annað. Enda hefur Dagblaðið árum saman hvatt til þess.
Viðskiptajöfnuður okkar við Sovétríkin hefur lengi verið í megnasta ólagi. Þeir hafa þótzt lítið hafa við vörur okkar að gera. Það hefur endurspeglazt í mikilli tregðu þeirra við að greiða vörurnar eðlilegu verði og taka við nægilegu magni.
Ofan á hættuna, sem fylgir skuldasöfnun við heimsveldi sem Sovétríkin, bætist svo öryggisleysið, sem felst í föstum einokunarviðskiptum í olíu við slíkt veldi. Allt þetta gilti í þá gömlu og góðu daga, er Rotterdam mældi olíuverð rétt.
Nú hefur það gerzt í tvígang, að mælirinn í Rotterdam hefur farið úr sambandi. Fyrst var það, þegar olíuframleiðsluríkin sömdu um minni framleiðslu. Í annað skipti varð það svo í ár, þegar framleiðslan í Íran hrapaði við byltinguna.
Þessi mælir er orðinn að hitasóttarmæli, sem mælir yztu mörk olíuverðs. Hann mælir hið litla brot af olíu, sem kaupendur sárvanhagar um hverju sinni. Föst olíuviðskipti eru á mun lægra verði. Og þetta er bara gamalt markaðslögmál.
Auðvitað er það ekki Sovétríkjunum að kenna, þótt áður hlutlaus mælir sé orðinn alvarlega hlutdrægur. En breytingin hefur gert áður óskynsamleg olíuviðskipti að beinlínis fráleitum. Og hún hefur vakið okkur til almenns skilnings á þessu.
Undanfarna mánuði hefur óvenjulega dugleg olíuviðskiptanefnd kannað olíuverð í heiminum. Hún hefur komizt að því, að við búum nú við verst olíukjör allra vestrænna ríkja. Ennfremur, að við búum við verst kjör allra viðsemjenda sovétríkjanna.
Svavar Gestsson ætlar að halda skýrslu nefndarinnar leyndri fram yfir olíuviðræðurnar, sem nú standa yfir í Moskvu. Þar með léttir hann dálítið þrýstingi af samninganefnd Íslands og eykur líkurnar á framhaldi viðskiptanna.
Ef alþjóð sæi svart á hvítu orð skýrslunnar um útreið okkar í olíuviðskiptum, yrði reiðin svo almenn, að samningamennirnir í Moskvu yrðu að reyna að ná mun betri niðurstöðu en þeir geta í rauninni náð.
Sumir fyrri samningamanna sáu fram á þróun málsins og neituðu að fara til Moskvu að undirrita nýja einokunarsamninga. Svavar þorði ekki heldur að fara sjálfur og vill geta kennt ráðuneytisstjóra sínum og olíufélögunum um útkomuna.
Óeðlilegur áhugi Svavars á framhaldi olíuviðskipta við Sovétríkin kemur einnig fram í andstöðu hans við aðild Íslands að alþjóðlegu orkustofnuninni. Sú andstaða er í andstöðu við hagsmuni Íslands alveg eins og skýrsluleyndin.
Með þátttöku í hinni alþjóðlegu stofnun eigum við að geta komizt í mun nánari snertingu við strauma olíusölu og olíuverðs, auk allrar annarrar vitneskju um orkumál, er stofnunin býr yfir. Þátttaka okkar er sjálfsögð.
Síðustu daga hefur líka komið í ljós, að ýmsir möguleikar eru á olíukaupum á mun sanngjarnara verði en við nú búum við. Þessa möguleika þurfum við að kanna rækilega, ekki sízt hversu varanlegir eða skammvinnir þeir eru.
Smám saman þurfum við að koma okkur upp nýjum og varanlegum olíuseljendum, helzt fleirum en einum, um leið og við leggjum niður hvimleið viðskipti við Sovétríkin. En þetta gerist ekki á einni nóttu.
Þess vegna má nú búast við nauðungarsamningum í Moskvu.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið