Við búum til skort

Greinar

Nýr fiskur ætti að vera dæmigerð dagprísavara í fiskbúðunum. Aflinn er svo miklum sveiflum háður frá degi til dags, að ekki er framkvæmanlegt að hafa á honum fast verð. Reynslan sýnir líka, að fastaverðið leiðir til þess, að nýr fiskur er mjög oft alls ekki á boðstólum.

Þegar mikið berst að af fiski, eiga fisksalar auðvelt með að útvega sér fisk á venjulegu verðlagsstjórnarverði og geta síðan selt hann aftur á venjulegu verðlagsstjórnarverði. Að vísu bendir helmingsfækkun fiskbúða á undanförnum árum til þess, að álagning fiskbúða sé of lítil, en það er önnur saga.

Málið vandast, þegar lítið af fiski berst á land. Þá eiga fisksalar um þrennt að velja. Þeir geta reynt að bjóða í fiskinn. Þeir geta reynt að sækja hann til fjarlægari verstöðva, þar sem meira framboð er af fiski. og þeir geta haldið að sér höndum.

Tveir fyrri kostirnir eru dýrir. Í öðru tilfellinu verður innkaupsverðið hærra en útsöluverðið og í hinu kemur til sögunnar mikill flutningskostnaður, sem leiðir til sömu niðurstöðu. Það kostar hins vegar ekkert að halda að sér höndum og því er það algengasta niðurstaðan, þegar skortur er á fiski.

Þetta kerfi kemur niður á neytandanum. Hann fær ákaflega ófullnægjandi þjónustu. Það er mjög óvíst, að hann kæri sig um að hafa saltfisk eða reyktan fisk í hvert mál. Miklu líklegra er, að hann vilji geta valið um að kaupa í staðinn nýja ýsu, þótt hún sé á hærra verði en venjulega.

Ef dagprísar væru á nýjum fiski, mundi þjónustan lagast af sjálfu sér. Bátarnir, sem afla þessa fiskjar, mundu koma jafnar að landi. Aukin fyrirhöfn einstakra báta á því sviði mundi leiða til hærra verðs upp úr sjó. Fisksalarnir mundu geta yfirboðið vinnslustöðvarnar, þegar hörgull er á fiski. Og þeir mundu ekki telja eftir sér að sækja fisk til fjarlægra verstöðva, þegar ekki væri annan fisk að fá.

Þessi kostnaðarauki mundi að sjálfsögðu endurspeglast í hærra verði á nýjum fiski til neytenda, þegar hörgull er á fiski. Þessa daga gætu neytendur valið um unninn fisk á föstu verði og nýjan fisk á hækkuðu verði í stað þess að hafa ekkert val og verða að taka vinnslufiskinn.

Í þessu dæmi um fisksöluna sést munurinn, sem er á frjálsu markaðskerfi nágrannalandanna og á verðlagsstjórnarkerfi okkar. Allir sjá, hversu ótækt fisksölukerfi okkar er, en blindan er svo mikil, að fæstir sjá möguleikann á frjálsu markaðskerfi. Helzt er, að tillögur sjáist um, að sveitarfélög taki að sér fisksölu.

Verðlagsstjórnarkerfið hefur drepið fisksölu á Reykjavíkursvæðinu. Það hefur fækkað fiskbúðum svæðisins um helming og hefur tryggt sífelldan skort á þeirri ódýru vöru, sem fiskur er. Þetta er mikið afrek hjá annarri eins fiskveiðiþjóð og við erum.

Jónas Kristjánsson

Vísir