Verulegur áfangi

Greinar

Með bráðabirgðalögunum um millifærslur í sjávarútvegi annars vegar og um láglaunabætur og hækkun elli- og örorkubóta hins vegar hefur náðst verulegur áfangi í endurreisn efnahagslífsins úr öngþveiti undanfarinna mánaða.

Gengislækkunin miðaði að því, að gengi krónunnar yrði rétt skráð á nýjan leik. Og rétt skráning gengis er lykillinn að því, að íslenzkt atvinnulíf sé samkeppnishæft. Þess vegna var gengislækkunin fyrsta skref endurreisnarinnar.

En gengislækkunin ein nægði ekki til að koma sjávarútveginum á réttan kjöl. Samanlagður árlegur halli allra greina sjávarútvegsins var áætlaður 1740 milljón krónur, þrátt fyrir gengislækkunina. Þess vegna voru fyrir helgina sett bráðabirgðalög um ráðstöfun gengishagnaðar og millifærslur í sjávarútvegi, sem eyða þessum halla að mestu leyti. Er talið, að hallinn komist með lögunum niður í 150 milljón krónur.

Eftir þetta eiga margar greinar sjávarútvegsins að geta borið sig. En útgerð skuttogara og loðnubáta mun eftir sem áður eiga í erfiðleikum og þess vegna er ráðgert að koma í vetur með frekari ráðstafanir til viðbótar.

Sjómenn munu að töluverðu leyti njóta gengislækkunarinnar, því að hún gerir kleifa hækkun fiskverðs um allt að 11%. Sú hækkun kemur óskipt fram í aflahlut sjómanna.

Bráðabirgðalögin um láglaunabætur og hækkun almannatrygginga veita hinum verst settu í þjóðfélaginu svipaðar kjarabætur og sjómenn fá. Þeir, sem hafa 50.000 króna mánaðartekjur fá um 7% kauphækkun í formi láglaunabóta. Þeir, sem lægri tekjur hafa, fá hlutfallslega hærri launabætur. Og hækkunin á ellilífeyri og örorkubótum gerir svipað gagn.

Frysting vinstristjórnarinnar á kaupgreiðsluvísitölunni,hefur þegar valdið nokkurri kjaraskerðingu. Gengislækkunin og framhald vísitöluskerðingarinnar magna þessa kjaraskerðingu, nema hjá hinum verst settu í þjóðfélaginu. Nýju bráðabirgðalögin eiga að vernda þá gegn þessari auknu kjaraskerðingu.

Alþýðusambandið átti töluverðan þátt í mótun þessara ráðstafana í þágu hinna verst settu. Ekki tekur sambandið samt neina ábyrgð á ráðstöfununum eins og sést á því, að það hefur hvatt aðildarfélög sín til að segja upp kjarasamningum.

Félög uppmælingarmanna og annarra hátekjumanna láta nú fremur ófriðlega. Svo getur því farið, að verkföll hefjist í byrjun nóvember og endurreisn efnahagslífsins verði fyrir slæmu áfalli. Félögin eru nú sem óðast að segja upp samningum. Þetta er stærsta vandamálið, sem þjóðin horfist nú í augu við.

Á meðan þurfa stjórnvöld að glíma við annað vandamál, tóma sjóði ríkisins, ríkisstofnana, opinberra sjóða og sveitarfélaga. Vandi nokkurra sjóða og stofnana hefur að vísu þegar verið leystur. En sjálft fjárlagadæmið er eftir og það mun líta dagsins ljós fyrstu dagana í nóvember, þegar þing kemur saman. Þar er verkefnið að rétta við fjárhag hins opinbera með sparnaði og samdrætti og án nýrra skatta. Þetta er einn erfiðasti þáttur endurreisnarinnar.

Nýja ríkisstjórnin hefur núna strax á fyrstu vikum ævi sinnar náð verulegum áfanga í endurreisninni. En blikur eru enn á lofti, svo að of snemmt er að spá, hvort endurreisnin takist í heild.

Jónas Kristjánsson

Vísir