Það fer um marga hrollur, þegar þeir sjá myndir af hinum nýju valdhöfum í Chile. Þeir bera það utan á sér, að þeir eru ekki eins og fólk er flest. Og það, sem hægt er að lesa sér til um skoðanir þeirra, ber allt einkennilega verptan svip. Þetta virðast vera geðtruflaðir hugsjónamenn, sem láta brenna bækur og drepa þúsundir manna.
Athyglisvert er, hve góður jarðvegur er fyrir slíka menn í herjum um allan heim. Atvinnumennska í vopnaburði virðist hafa aðdráttarafl á menn, sem annars þyrftu að leita sálfræðings, og virðist jafnvel rækta með þeim annarlega hugsun.
Chile er ekki eina grófa dæmið um slíkt. Grikkland er annað nýlegt dæmi, sem allir kannast við. Í báðum þessum löndum eru við völd atvinnuhermenn, sem eru ekki með sjálfum sér, fremur en Stalín og Hitler voru á sínum tíma. Menn muna líka eftir Ajub Kahn, forseta Pakistan, og hershöfðingjum hans, sem trylltust gersamlega, þegar þeir reyndu að kúga Bengali til hlýðni.
Voru þessir menn þó uppfræddir í beztu herforingjaskólum Bretlands. Af þessu má draga þann lærdóm, að herskólagengnir menn séu hættulegir, jafnvel þótt það komi ekki eins skýrt fram meðal siðaðra þjóða.
Það er uggvænlegt, hve valdamiklir hershöfðingjar eru í voldugustu ríkjum heims. Í Sovétríkjunum er herinn eitt allra stærsta aflið í þjóðfélaginu, sífellt að heimta og fá meira fjármagn til vígbúnaðar. Áhrifavald hersins er svo mikið, að Sovétríkin eru orðin rangnefni. Betra nafn væri Stór-Rússland, sem minnir á hið forna stórveldi, sem alltaf var útþenslusinnað. Munur gamla og nýja tímans er aðallega sá, að ný hugmyndafræði hefur yngt ríkið upp og gert það að heimsveldi með meiri útþenslukrafti en nokkru sinni fyrr.
Víetnamstríðið hefur sýnt okkur hvílíkir ólukkufuglar bandarískir hershöfðingjar eru í þjóðfélagi sínu. Síðari tíma upplýsingar hafa fært okkur heim sanninn um, hvernig herinn laug kerfisbundið að stjórnmálamönnum landsins og almenningi.
Bæði Kennedy og Johnson voru fangar rangra upplýsinga hers höfðingja sinna. Það var ekki fyrr en lygin var orðin ótrúlega flókin og fjarlæg raunveruleikanum, að spilaborgin hrundi og raunveruleikinn kom í ljós.
Bandaríkjamenn eru heppnir að hafa áttað sig á varasemi hershöfðingja sinna í þetta sinn, eins og þeir áttuðu sig á MacArthur á sínum tíma.
Við Íslendingar megum þá enn frekar prísa okkur sæla að hafa ekki ræktað upp með okkur neina atvinnuhermenn með verpta hugsun. Við höfum sloppið vel í lífsins ólgusjó, og getað sparað okkur hermennsku, þrátt fyrir mikilvæga stöðu lands okkar í ótryggum umheimi.
Jónas Kristjánsson
Vísir