Verndar ekki gjaldeyri

Greinar

Nauðsynlegt er að gera upp gjaldeyrisdæmi landbúnaðarins, þegar þjóðhagslegt gildi atvinnugreinarinnar er metið. Sumpart notar landbúnaðurinn gjaldeyri, sumpart aflar hann gjaldeyris eða sparar hann og sumpart hindrar hann þjóðina í að beita kröftum sínum að arðbærum verkefnum, sem afla gjaldeyris eða spara hann.

Árið 1975 notaði landbúnaðurinn gjaldeyri fyrir 4400 milljónir króna. Fyrir þetta var keypt skepnufóður, tilbúinn áburður, eldsneyti og vélar til landbúnaðar. Þessi háa tala endurspeglar annars vegar mikla tæknivæðingu og hins vegar rýra landkosti, sem kalla á mikinn áburð og mikið fóður.

Sama ár aflaði landbúnaðurinn og búvöruiðnaðurinn gjaldeyris fyrir 3300 milljónir króna. Fyrir þetta var selt kjöt, ull, gærur, skinn, húðir, ullarteppi, lopi, band og prjónavörur. Annars vegar er þarna um að ræða uppbótavörurnar frægu og hins vegar iðnaðarvörur, sem nokkrar vonir hafa verið bundnar við.

Dæmi gjaldeyrisöflunar og gjaldeyrisnotkunar er landbúnaðinum verulega óhagstætt samkvæmt þessu. En auðvitað sparar landbúnaðurinn nokkurn gjaldeyri. Erfitt er að meta þann sparnað, því að verð landbónaðarafurða er hér á landi óheyrilega miklu hærra en í nágrannalöndunum.

Hér í þessum dálkum hefur verið stungið upp á innflutningi nautakjöts, svínakjöts, kjúklinga, eggja, smjörs og kartaflna, Ef allar þessar vörur væru eingöngu fluttar inn og engar framleiddar hér heima, yrði kostnaðurinn í erlendum gjaldeyri um 3000 milljónir króna.

Þar með er gjaldeyrisdæmi landbúnaðarins komið í nokkurn plús. En þá er eftir að taka tillit til þess, að óhemjulegt vinnuafl fer í landbúnað, vinnslu landbúnaðarafurða og búvöruiðnað. Telja má öruggt, að finna megi raunhæfari verkefni fyrir mikið af þessu fólki, úr því að framboð atvinnutækifæra er mun meira en eftirspurnin.

Að svo miklu leyti sem arðbær verkefni bíða vinnufúsra handa hér á landi, er þar um að ræða starfsemi, sem annaðhvort aflar gjaldeyris eða sparar hann. Að svo miklu leyti sem slíkt vinnuafl er bundið í landbúnaði, vinnslu landbúnaðarafurða og búvöruiðnaði, hindrar það þessa gjaldeyrisöflun og gjaldeyrissparnað.

Hér verður ekki gerð tilraun til að meta þessa stöðu til gjaldeyris, enda leikur mikil óvissa um möguleikana á arðbærum verkefnum fyrir fólk, sem bætist á vinnumarkaðinn. Það ætti þó að vera ljóst, að möguleikarnir eru mun meiri en sem nemur þeim gjaldeyri, er færi í að kaupa erlendar landbúnaðarafurðir.

Niðurstaðan verður því sú, að gjaldeyrisdæmið sé landbúnaðinum óhagstætt. Hann notar mikinn gjaldeyri án þess að spara mikinn gjaldeyri í þeim vörum, sem ella yrði að flytja inn. Þar að auki aflar hann ekki mikils gjaldeyris, þrátt fyrir gífurlegar fórnir skattgreiðenda í útflutningsuppbótum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið