Nokkurs uggs um verkfallshættu gætir hjá fólki um þessar mundir. Byggist sú svartsýni aðallega á því, að Alþýðusamband Íslands hefur eindregið beðið aðildarfélög sín að afla sér verkfallsheimildar. Reynslan hefur kennt mönnum svartsýni í þessum efnum.
En hinu má ekki heldur gleyma, að á sjónarmiðum launþega, vinnuveitenda og ríkisstjórnar eru ýmsir snertifletir, sem gefa almenningi ástæðu til að vona, að samkomulagshorfurnar séu betri en vopnabrakið á yfirborðinu gefur til kynna.
Í fyrsta lagi eru aðilar málsins sammála um, að atvinnuöryggið skipti mestu máli og að það sé í mikilli hættu um þessar mundir. Forustumenn Alþýðusambandsins gera sér ljóst, að nauðungarsamningar í kjölfar óhófskrafna mundu valda snöggum samdrætti í atvinnulífinu ofan á þann samdrátt, sem fyrir er, og leiða á þann hátt til atvinnuleysis.
Í öðru lagi eru málsaðilar sammála um, að brýnast sé að bæta kjör láglaunafólks, og að hinir, sem betri kjörin hafa, geti fremur tekið þátt í byrðum efnahagserfiðleikanna. Vinnuveitendur hafa gert launþegum tilboð í þessum anda, sem er mikilvægt skref til sátta, þótt aðila greini enn á um upphæðir.
Í þriðja lagi eru samningamenn sammála um, að kjarabætur skattalækkana, sem ríkisstjórnin hefur boðizt til að beita sér fyrir, verði metnar að fullu sem aðrar kjarabætur. Í þessu felst mikilvægur möguleiki á að bæta kjörin með sparnaði í ríkisrekstri og frestun ríkisframkvæmda og án kostnaðar fyrir illa stætt atvinnulíf.
Í fjórða lagi eru deiluaðilar sammála um, að kjarabæturnar megi koma í áföngum. Forustumenn Alþýðusambandsins hafa viðurkennt, að óraunhæft sé að krefjast þess, að lífskjörin, sem fólust í samningunum fyrir réttu ári, verði endurheimt í einu vetfangi.
Allir þessir fjórir snertipunktar ern mikilvægir. Þeir valda því, að ekki er enn ástæða til að örvænta, þótt blásið sé í herlúðra. Samningsaðilar eru sammála um margar meginlínur. Þeir vita, að atvinnuástandið takmarkar möguleikana. Þeir vita, að mest ríður á að bæta kjör láglaunafólks. Þeir telja skattalækkanir jafngildi kauphækkana. Og þeir telja ekki unnt að endurheimta kaupmáttinn frá í fyrravor í einum áfanga.
0ft hafa samningar náðst án verkfalla, þótt meira hafi borið á milli. Ekki er því á þessu stigi unnt að fortaka, að deiluaðilar séu menn til að finna lausn innan hins tiltölulega þrönga ramma, sem snertipunktarnir setja þeim.
Hins vegar verður að viðurkennast, að viðræður samningamanna ganga ósköp hægt. Þrátt fyrir hið frjálsa samningaform mæna þeir um of á ríkisstjórnina eins og hún geti nú höggvið á Gordíonshnútinn. Ríkisstjórnin hefur þegar veitt aðstoð á ýmsum sviðum og getur af eðlilegum ástæðum ekki lagt fram frekari tilboð, nema þá til að liðka fyrir undirritun samninga á síðustu klukkustundum viðræðnanna.
Ef deiluaðilar líta nú raunsætt á snertipunktana og meta hin félagslegu og efnahagslegu sjónarmið að jöfnu, eiga þeir að geta náð saman endum, áður en til verkfalla kemur.
Jónas Kristjánsson
Vísir