George W. Bush náði mestum árangri í framleiðslu á hræðslu eftir árásina á tvíburaturnana í New York. Hann sannfærði Bandaríkjamenn um að vera hræddir við erlenda terrorista. Þeir eru enn skelfingu lostnir, öfugt við Spánverja eftir hryðjuverkið á lestarstöðinni. Hér á landi er hræðsluáróður vinsælt bragð spunakarla. Mála fjandann á vegginn; Ísland er í vondum heimi; alls konar ill öfl steðja að. Þið skuluð vera hrædd við erlenda glæpaflokka og erlenda flóttamenn. Við erlenda búvöru. Við erlent Evrópusamband og erlenda evru. Þið skuluð vera hrædd við umheiminn. Einkum verið þó bara hrædd.
