Verðhrun á olíu?

Greinar

Tímaritið Economist spáir því í nýjasta tölublaði sínu, að verðhrun og offramleiðsla verði á olíu á næstu árum. Þessi spá er í beinni mótsögn við það, sem stjórnmálamenn og sérfræðingar hafa verið að segja að undanförnu. Flytur blaðið ítarlegar röksemdir fyrir þessari óvæntu skoðun.

Blaðið segir, að um það bil fimmtán sinnum frá stríðslokum hafi áhrifamenn verið sammála um að spá skorti á ákveðinni afurð. Í öllum tilvikum hafi þeir haft á röngu að standa. Í stað skorts hefur orðið offramleiðsla á þessum vörum.

Árin 1946-1969 spáðu menn smjörskorti í Evrópu og síðan fór smjörfjall fljótlega að myndast, Árin 1950-1951 spáðu menn síhækkuðu hráefnisverði og síðan var þetta verð í tvo áratugi að ná hámarki ársins 1951. Árin 1951 var mynduð alþjóðleg nefnd til að finna lausn á óhugnanlegum brennisteinsskorti og síðan varð brennisteinn fljótlega óseljanlegur.

Árið 1947 var spáð nægri kolanámuvinnu í marga áratugi. Nokkrum árum síðar hafði flestum kolanámum verið lokað. Árið 1956 var spáð skorti á flutningaskipum vegna lokunar Súezskurðar. Nokkrum árum síðar voru góð flutningaskip farin að ryðga af aðgerðarleysi. Við lokun Súez-skurðar voru Bretar og Frakkar helztu óvinir Araba, en nú eru þeir aftur á móti orðnir helztu stuðningsmennirnir.

Þannig nefnir Economist hvert dæmið á fætur öðru um, að þróunin stefni í öfuga átt við það, sem.spáð er. Bendir blaðið á, að fréttirnar um skort á ákveðinni vörutegund leiði til þess, að ríkisstjórnir og framleiðendur keppist við að bjarga málunum með því að spara vöruna og nota aðrar í staðinn, með því að nýta hana betur, og með því að auka framleiðslu á henni. Afleiðingin sé jafnan offramleiðsla og verðhrun.

Economist segir, að nýja og háa verðið á olíunni leiði til þess, að um allan heim verði skjótlega farið að vinna olíu, sem áður var talin of dýr í vinnslu. Auk þess séu olíulindir heimsins margfalt meiri en opinberar tölur gefi til kynna. Þar á ofan séu í uppsiglingu orkulindir eins og kjarnorka, sem muni fljótlega veita olíu harða samkeppni.

Blaðið segir, að verðhækkun olíunnar verði Aröbum í óhag, þegar til lengdar lætur. Gagnaðgerðir annarra aðila muni leiða til þess, að á þessum áratug muni olíuverð dragast aftur úr öðru verðlagi og verða hlutfallslega lægra en það var fyrir hækkun. Blaðið varar einnig við óhóflegri bjartsýni um, að olíulindirnar í Norðursjó verði mikil gullnáma.

Þetta eru náttúrlega ósannaðar kenningar eins og annað, sem sagt er um þróun olíumálanna. En þær eru óneitanlega mjög athyglisverðar, ekki sízt vegna hins ítarlega rökstuðnings, sem fylgir þeim. Þær gefa til kynna, að oft er ekki allt sem sýnist, ekki sízt þegar skelfingin stjórnar skoðunum manna. Olíukreppan er kannski ekki eins alvarleg og ætla mætti af taugaveikluðum yfirlýsingum sérfræðinga og stjórnmálamanna.

Jónas Kristjánsson

Vísir