Aflaverð hlýtur alltaf að vera merkari mælieining en aflamagn. Og það, sem skortir í aflamagni, er oft unnt að bæta að nokkru í aflaverði. Þetta er orðið einkar mikilvægt verkefni í sjávarútvegi, nú þegar takmarka þarf aflamagn hastarlegar en nokkru sinni fyrr.
Ekki sízt þarf að gæta þessa, þegar gælt er við hugmyndir um takmörkun aflamagns með útboði veiðileyfa, meða1 annars til að endurveita sjávarútveginum fyrri forustu í framleiðni í alþjóðlegum samanburði.
Í hugmyndinni um útboð veiðileyfa er nefnilega aðeins miðað við takmarkaðan fjölda skipa eða tonnafjölda í skipum, en ekki við takmarkaðan afla eða kvóta á skip. Markmiðir er að ná hámarksnýtingu á mannskap, fjárfestingu og rekstrarvörum.
Við slíkar aðstæður er hugsanlegt, að menn freistist til að veiða of mikið, þótt umframmagnið lendi í lægri gæða- og verðflokkum. Slík nýting á takmörkuðum fiskistofnum væri einkar óhagkvæm. Og aðdáendur hins annars óarðbæra aflakvótakerfis benda einmitt á þetta mikilvæga atriði.
Sumpart stafar þessi hætta af því, að markaðsöflin endurspeglast ekki fyllilega í verðmun gæðaflokkanna. Ákvarðanir verðlagsráða og yfirnefnda eru jafnan öðrum þræði pólitískar ákvarðanir. Hér þurfa stjórnmálin að víkja fyrir nákvæmum útreikningum á raunverulegum verðmun gæðaflokka.
Til viðbótar er sennilegt, að koma þurfi upp sérstöku millifærslukerfi, sem flytji hluta fiðskverðs frá þeim, sem afla lélegasta hráefnisins, til hinna, sem afla bezta hráefnisins. Á þann hátt gæti hið opinbera lagt sérstaka áherzlu á vandaða nýtingu takmarkaðrar auðlindar, umfram þá áherzlu, sem markaðsöflin legðu sjálf.
Hafa verður þó í huga, að það er markaðurinn einn sem getur sagt okkur, hversu verðmætur mismunandi afli er og mismunandi gæðaflokkar. Það eru neytendur úti um heim, sem að lokum ákveða, hvaða fiskur er verðmætur og hvaða fiskur ekki. Millifærslukerfi yrði að byggja á þessari staðreynd, en ekki einhverjum pólitískum ímyndunum.
Við höfum verið svo heppnir, að hinn erlendi markaður er margslunginn og fjölbreyttur. Sums staðar vilja menn saltfisk, annars staðar skreið. Sums staðar vilja menn frosinn fisk, annars staðar ferskan. Okkur hefur því tekizt að ná háu verði úr misjöfnu hráefni með breytilegum vinnsluaðferðum.
Sennilega verður frysti fiskurinn áfram uppistaðan í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Þar þarf að leggja mikla áherzlu á vélakost, sem nýti aflann ýtarlegar en nú er. Og þar þarf að taka upp við frystingu nýjar aðferðir, sem líklegt má telja, að leiði til enn vinsælli vöru á erlendum markaði.
Jafnframt megum við ekki gleyma því, að fiskiðnaður er ólíkur öðrum iðnaði. Í fiskiðnaði er ekki verið að auka verðmæti hráefnisins, heldur varðveita það. Verðmætasti fiskurinn er ferski fiskurinn.
Við megum ekki gefast upp á að leita leiða til að koma ferskum fiski, jafnvel lifandi fiski, til erlendra neytenda. Þar getur komið að gagni löng og góð reynsla okkar af vöruflutningum í lofti. Á þessu sviði er til mjög verðmætur markaður, þótt takmarkaður sé.
Allt safnast þetta saman í álitlega milljarða; betra hráefni upp úr sjó, meiri og betri nýting þess í vinnslu. Á þessum sviðum getum við fengið til baka það, sem við fórnum við takmörkun aflamagns.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið