Prófkjörin eru ein merkasta nýjung stjórnmála síðustu ára. Þau hafa stuðlað að heilbrigðri endurnýjun. Þau hafa opnað stjórnmálin og á þann hátt orðið lýðræðinu til styrktar. Með prófkjörunum er hamlað gegn ægivaldi hinnar ópersónulegu fámennisstjórnar í flokkunum og almennum kjósendum opnuð ný leið til pólitískra áhrifa.
Lýðræðislegust eru þau prófkjör, sem eru ekki einungis opin flokksmönnum, heldur einnig öðrum stuðningsmönnum flokksins. Og lýðræðislegust eru þau prófkjör, sem hafa bindandi úrslit, ef þátttakan í þeim er næg. Slík prófkjör hafa á undanförnum árum verið séreinkenni Sjálfstæðisflokksins. Hið sama virðist vera uppi á teningnum að þessu sinni.
Framsóknarflokkurinn fetaði fyrir fjórum árum nokkuð inn á braut prófkjöra og skoðanakannana um skipun framboðslista, en virðist ætla að draga í land að þessu sinni. Hins vegar hefur Alþýðuflokkurinn, sem fyrir fjórum árum var andvígur þessari grein lýðræðis, hætt sér að þessu sinni út í skoðanakannanir meðal flokksmanna.
Opin og bindandi prófkjör ætla enn í ár að verða séreinkenni Sjálfstæðisflokksins. Þau fóru mjög vel af stað á Seltjarnarnesi í síðasta mánuði. Rúmlega helmingur kjósenda á Nesinu tók þátt í prófkjörinu. Það lofar góðu um, að þátttaka verði einnig góð í öðrum sveitarfélögum.
Um næstu helgi verður í Reykjavík viðamesta og mikilvægasta prófkjörið. Fjórir af átta borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins verða ekki í kjöri að þessu sinni. Þess vegna er nú óvenjumikil ástæða fyrir almenna kjósendur að taka þátt í þeirri endurnýjun, sem óhjákvæmilega verður á borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna. Ekkert getur betur tryggt góðan framboðslista en einmitt mikil þátttaka í prófkjörinu.
Almenningur á því að venjast, að efstu menn framboðslista séu valdir af fámennum valdaklíkum og síðan staðfestir af fámennum flokksfundum. Hin opnu og bindandi prófkjör eru hressandi gustur í mollulofti baktjaldamakksins. Þau hafa endurvakið trú margra á styrk og gildi lýðræðisins.
Þetta nýja vopn almennings má ekki ryðga í slíðrum. Vísir vill skora á kjósendur að nota sér traustið, sem þeim er sýnt. Þessari áskorun er ekki eingöngu beint til sjálfstæðismanna í Reykjavík,heldur til allra þeirra, sem kost eiga á þátttöku í prófkjöri í sinni heimabyggð.
Framundan eru tvísýnar kosningar í Reykjavík. Sjálfstæðisflokkurinn og vinstri flokkarnir berjast um meirihlutann. Ef allt gengur að óskum í kosningunum í vor, hafa þátttakendur prófkjörsins átt þátt í vali mannanna, sem skipa meirihluta borgarstjórnarinnar. Þátttakendurnir hafa jafnframt tekið þátt í fyrsta bardaganum um að verja Reykjavík fyrir ásókn þeirra flokka, sem fara með völd í landinu um þessar mundir.
Jónas Kristjánsson
Vísir