Dálítið er kveinað þessa dagana í Alþýðublaðinu og Þjóðviljanum út af kosningu bankaráðs. Alþýðuflokkurinn er enda dottinn úr þeim og aðeins einn Alþýðubandalagsmaður hangir í hverju bankaráði með fjórum mönnum úr helmingaskiptafélagi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.
Það er dæmigert fyrir íslenzk stjórnmál, að kosning bankaráða skuli vera eitt af meiri háttar ágreiningsefnum stjórnmálaflokkanna. Í þetta sinn varð hvað eftir annað að fresta atkvæðagreiðslu meðan þjarkað var um menn og flokka.
Margir töldu sig manna hæfasta til að gegna þessum embættum, sem eru ekki aðeins góðir bitar af herfangi stjórnmálaflokkanna, heldur einnig mikil ábyrgðarstörf gagnvart hagsmunum stjórnmálaflokkanna og gæðinga þeirra.
Lengi neituðu sjálfstæðismenn að kyngja Kristni Finnbogasyni sem bankaráðsmanni Landsbankans og væntanlegum varaformanni þess. Þetta olli langri töf, unz Ólafur Jóhannesson klúbb- og battamálaráðherra barði í borðið og hótaði stjórnarslitum, ef Kristni yrði ekki hleypt inn.
Sumir hlutlausir menn telja sjálfstæðismenn hafa sýnt of mikinn þvergirðingshátt gagnvart Kristni. Það sé einmitt einkar vel við hæfi, að hann sé varaformaður bankaráðs stærsta bankans. Það gefi alveg ljómandi góða innsýn í íslenzk stjórnmál í árslok 1976.
Kristinn Finnbogason er einmitt persónugervingur núverandi valdakerfis á Íslandi. Í honum tengjast fjármál, stjórnmál og bankamál í órjúfanlega heild á opinskáan hátt, en ekki undir borði eins og hjá sumum hinna, sem veifa ákaft fána flokkspólitískra hugsjóna.
Stjórnmálamennirnir hafa einmitt blekkt þjóðina upp úr skónum með innantómu rugli um ímynduð ágreiningsefni af málefnalegum eða öðrum efnislegum toga. Þeim hefur að nokkru leyti tekizt að dylja hið raunverulega áhugamál flestra þeirra: Að komast í feitt fyrir sig, sína og sinn flokk.
Stjórnmálaflokkarnir nota bankana óspart til að gefa sjálfum sér og gæðingum sínum verðbólgugjafir. Þess vegna er svo lítið eftir handa öðrum, þegar dyr bankanna opnast. Og þess vegna er engin leið að ráða við verðbólguna, því að hún er mesta hjartans mál gæðinga stjórnmálaflokkanna.
Það er skiljanlegt, að ráðamönnum Alþýðuflokksins gremjist að láta ýta sér út í kuldann. Auðvitað öfunda þeir helmingaskiptafélagið, sem situr að ránsfengnum, meðan Alþýðuflokkurinn getur varla keypt sér atkvæði fyrir næstu kosningar.
Afskipti stjórnmálaflokkanna af bankamálum er ein af nokkrum skrumskælingum lýðræðis hér á landi. Þar koma stjórnmálaflokkarnir fram sem ræningjaflokkar, alveg eins og þegar þeir hirða fjörutíu milljónir úr ríkissjóði til að gera út Morgunblaðið, Vísi, Tímann, Þjóðviljann og Alþýðublaðið. Og svona verður þetta enn um sinn, meðan almenningur heldur áfram að láta gabba sig upp úr skónum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið