Reykvíkingar hafa löngum tekið eftir hræi af stórhýsi á horni Laugavegs og Nótatúns. Þetta hús, sem oft hefur kviknað í og einu sinni brann illa, er í hópi þeirra húsa, sem ömurlegastan svip setja á borgina, enda hafa borgaryfirvöld á sínum tíma látið undir það lóð á einkar áberandi stað.
Að utan að sjá virðast þessar brunarústir ekki hafa notið hins minnsta viðhalds árum saman. Tugir gluggarúða eru brotnir eða brostnir og víða eru spjöld í gluggum. Óhreinindataumarnir síga niður hliðar hússins. Að innan er hræið illa innréttað verksmiðjuhúsnæði.
Þetta er trésmiðjan Víðir, einn máttarstólpa Sjálfstæðisflokksins. Húsið er nánast óseljanlegt, enda hefur verið gizkað á, að kosta muni um 400 milljónir að gera úr því skrifstofur, ofan á sjálft kaupverðið.
Fyrirtækið bjargast ekki á einkaframtakinu og þess vegna er kallað á ríkisframtakið. Umboðsmenn Sjálfstæðisflokksins hafa gengið berserksgang í að fá ríkið til að kaupa húshræið á uppsprengdu verði til þess að flokkurinn njóti áfram mikilla fjárgjafa trésmiðjunnar Víðis.
Fyrir þjóðfélagið væri blóðtakan minnst, ef Sjálfstæðisflokknum hefði tekizt að leysa málið innan þeirra ráðuneyta, sem komu í hlut flokksins, þegar stjórnarflokkarnir skiptu herfanginu í upphafi samstarfsins.
En nú hefur málið verið leyst á þann hátt, að brunarústirnar á að kaupa til nota ráðuneytis, sem Framsóknarflokkurinn hefur yfir að ráða. Þar með er húsið komið undir helmingaskiptaregluna. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að gera Framsóknarflokknum jafn stóran greiða á móti. Þar með er málið. orðið helmingi dýrara.
Sumir kunna að halda því fram, að 260 milljónir séu ekki mikið fyrir 4900 fermetra hús. En þá gleymast 400 milljónirnar, sem fara í að koma húsinu í nothæft ástand. Húsið mun kosta menntamálaráðuneytið 660 milljónir tilbúið til notkunar.
Óþarft er að taka fram, að Alþingi hefur enga heimild veitt til kaupa á þessu húshræi, auk þess sem hagsýsludeild ríkisins hefur ekki fengizt til að mæla með kaupunum. Samt hafa stjórnarflokkarnir tekið ákvörðun um kaupin. Sú ákvörðun er ekki lögleg sem stendur.
Ráðamenn okkar hyggjast leita heimildar Alþingis eftir á með því að læða heimildarákvæði inn í næsta fjárlagafrumvarp. Reynslan sýnir líka, að þingmenn leyfa alltaf gerðum hlutum að standa, þótt þeim sé meinilla við þá. Þeir þora ekki að reka til baka ólöglegar ákvarðanir ráðherra sinna.
Húshræið á horni Nóatúns og Laugavegs er eitt af ótal dæmum um fyrirlitningu ráðamanna þjóðarinnar á almenningsáliti og lýðræði. Þeir líta á þjóðfélagið í heild sem herfang, er þeir hafi fengið umboð til að fara með að vild í fjögur ár.
Enn meiri er fyrirlitning ráðamanna Sjálfstæðisflokksins á kennisetningum flokksins um einkaframtak. Þegar á reynir, hafna þeir áhættu einkaframtaksins og kjósa heldur, að ríkið borgi brúsann. Þeir dýrka ríkið ekki minna en aðrir.
Og svo borgum við eins og venjulega.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið