Veikgeðja fjárlög

Greinar

Í nálægum löndum hefur tíðkazt áratugum saman, að ríkið beiti eigin fjármálum til að stuðla að jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Það gerir ríkisvaldið með því að auka umsvif sín, þegar illa árar og atvinna er lítil, en minnka þau, þegar vel árar og atvinna er mikil.

Þegar atvinnuleysi er mikið, eru gild rök fyrir, að hið opinbera reyni að fylla í skarðið með ýmsum hætti, meðal annars með því að taka mikið fé að láni og leggja út í stórframkvæmdir. Þannig hafa margar ríkisstjórnir reynt að þenja hagkerfið á samdráttartíma.

Jafngild rök eru fyrir, að ríkið stefni í öfuga átt, þegar þensla er í hagkerfinu, er eftirspurn eftir starfs-röftum er meiri en framboð á þeim. Þá reyni ríkið að endurgreiða fyrri lán og fresta framkvæmdum til að vega á móti athafnagleði annarra og draga úr verðbólgu.

Þetta síðara ástand ríkir hér á landi um þessar mundir, hið margnefnda góðæri. Mikið fjör er í atvinnulífinu og laus störf eru margfalt fleiri en hinir atvinnulausu. Hagfróðir menn hafa varað við, að í þessu felist spenna, sem geti ýtt verðbólgunni á fulla ferð á nýjan leik.

Í samræmi við það ættu fjárlög ríkisins á næsta ári að vera hallalaus og hið opinbera ætti að grynna á skuldum sínum í útlöndum. Það geta ríkisstjórnin og þingmannameirihluti hennar gert með því að fresta framkvæmdum og skera niður rekstur í stórum stíl.

Þetta er ekki bara skynsamlegt, heldur einnig í samræmi við loforð, sem ríkisstjórnin hefur gefið samtökum vinnumarkaðsins. Hún hefur skriflega lofað þeim jafnvægi í efnahagsmálum á næsta ári, stöðugu gengi, minni lántökum í útlöndum og sparsemi í fjármálum.

Samkvæmt þessu ættu ríkisstjórnin og þingmenn hennar að vera í önnum þessa dagana við að skera á brott hallann á fjárlagafrumvarpinu, sem stjórnin lagði fram í haust. Þessir aðilar ættu að vera að ákveða að fresta framkvæmdum og draga úr ýmsum rekstri.

En því er ekki til að dreifa. Um þessar mundir er verið að bæta ofan á fjárlagafrumvarpið og auka hinn upphaflega halla þess. Og svo makalaus er þessi iðja, að aukningin er hlutfallslega mikil í fyrirhugaðri fjárfestingu ríkisins á næsta ári.

Í fyrstu útgáfu frumvarpsins var gert ráð fyrir, að aukning yrði um 6% á magni opinberra framkvæmda milli áranna 1986 og 1987. Eðlilegra hefði verið í góðærinu að minnka magn opinberra framkvæmda. Og eftir meðhöndlun þingmanna hefur hlutfallið enn hækkað.

Ekki er hægt að segja, að ríkið sé svelt í fjárfestingu. Samkvæmt frumvarpinu eiga meira en átta milljarðar að fara til opinberra framkvæmda á næsta ári. Það samsvarar yfir 20% af niðurstöðutölum fjárlaga. Vel hefði mátt skera eitthvað af þessum ósköpum.

Þingmenn telja þetta vafalaust nauðsynlegar framkvæmdir. En þú og ég vitum hins vegar, að við sjálfir getum ekki ráðizt í alla fjárfestingu, sem okkur langar í. Við verðum að fresta mörgu. Og við teldumst lánsamir, ef við gætum notað 20% tekna okkar í fjárfestingu.

Niðurstaðan er, að stjórnarflokkarnir stefna í verki í þveröfuga átt við það, sem þeir hafa lofað og skynsamlegt væri að gera. Þeir eru að auka framkvæmdir hins opinbera og magna skuldasúpuna í útlöndum í stað þess að reyna að hamla á móti þenslunni í þjóðfélaginu.

Ástæðan er, að stjórnarflokkarnir eru veikgeðja. Þeir eiga erfitt með að segja nei. Þeir lofa út og suður og búa svo til veikgeðja fjárlög, þjóðinni til bölvunar.

Jónas Kristjánsson

DV