Vei steikarbúlum!

Greinar

Líta má á það sem misheppnaða tilraun til að verða ríkur, þegar eigandi matstofu með sjálfsafgreiðslu selur þríréttaða máltíð af korti á um það bil 4.000 krónur, meðan vínveitingamaðurinn selur þríréttaða máltíð af korti á 6.000-6.500 krónur.

Í sumum vínveitingahúsum eru matsveinar, sem hafa áhuga á starfi sínu og leggja sig fram. Þar eru líka þjónar sem kunna til verka. Hvorugu er til að dreifa á flestum þeim steikarbúlum, sem orðnar eru að einkennistákni íslenzkrar matargerðar og veitingamennsku.

Útkoman er auðvitað sú, að almenningur situr heima hjá sér og borðar mun skárri mat fyrir mun minna fé en sjálfsafgreiðslustofurnar bjóða. Og á ferðalögum um landið borðar almenningur upp úr töskum sínum. Hví skyldi fólk líka kaupa verri mat en það getur búið til sjálft?

Erlendir ferðamenn koma ekki hingað til að borða. Óhjákvæmilegt er þó, að vaxandi fjöldi þeirra taki eftir, að mikið af hversdagsmatreiðslu á íslenzkum veitingahúsum nær ekki lágmarki í gæðum og hófsemi verðlagningar.

Fyrr eða síðar fara erlendir fjölmiðlar að senda hingað menn til að kanna íslenzka matargerðarlist. Þar verður hún á svipstundu illræmd langt út fyrir pollinn, með viðeigandi afleiðingum í rýrnun gjaldeyristekna.

Áður fyrr ríkti hér á landi matargerðarlist sem streymdi frá húsmæðraskólunum. Þar var um að ræða blöndu af þjóðlegri, íslenzkri matargerð og yngri straumum frá Danmörku og öðrum Norðurlöndum. Þessi list lifir enn í heimilismatreiðslu og í matreiðslu beztu vínveitingahúsanna.

Með steikarbúlunum hefur hins vegar haldið innreið sína versta hliðin á bandarískri matargerð og ekki hin dæmigerða hlið hennar. Þar er sjálfvirknin, einhæfingin og tilfinningaleysið komið í það hámark, að boðið er upp á svokallaða “sósu” með öllum mat. Þessi sósa var áður kölluð “kokkteilsósa”, en nú þarf víst ekki að skilgreina hana nánar.

Ekki má heldur gleyma hinum innfluttu gervikartöflum, né heldur ofnotaðri steikarfeitinni, sem matur steikarbúlanna jóðlar í, til viðbótar hinni miklu fitu, sem þykir við hæfi í íslenzkum landbúnaði.

Rétt er þó að taka fram, að eina góða nýjung hafa steikarbúlurnar innleitt. Það eru hin hollu hrásalöt, sem eru bæði bragðbetri og bragðmeiri en mauksoðið grænmeti vínveitingahúsanna. Það er steikarbúlunum að þakka, að Íslendingar eru hættir að líta á hrásalöt sem dýrafóður.

Það á hins vegar ekki að hafa sama hrásalat með öllum mat, ekki fremur en sömu sósuna og sömu “frönsku” kartöflurnar. Og það er óþarfi að líta á djúpsteikingarpottinn sem altari. Steikarbúlurnar rísa ekki úr eymdinni, fyrr en eigendur og starfsfólk rækta með sér virðingu fyrir mat og tilfinningu fyrir mat.

Þær rísa ekki heldur úr eymdinni fyrr en eigendur átta sig á, að þeir eru ekki bara í samkeppni við mötuneyti úti í bæ, heldur venjulega heimilismatreiðslu. Geti þeir ekki lækkað verðið, ættu þeir að bjóða betri mat en almenningur fær heima hjá sér.

Steikarbúlurnar hafa tröllriðið íslenzkri matarmenningu og haft varanleg spillingaráhrif á tilfinningu unglinga fyrir góðum mat. Nú er kominn tími til að bæta ráð sitt.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið