Svo virðist sem Íslendingar hafi verið og séu enn fremur seinir að átta sig á gildi bílaferja. Hefur þú Akraborgin nýja reynzt svo framar vonum, að nú þegar er talað um, að annað skip þurfi til viðbótar til að brúa Hvalfjarðarleiðina.
Af Akraborginni má ráða, að fólk, sem kærir ekki um að láta lyfta bílum sínum um borð í skip, vill gjarna aka þeim um borð og frá borðí. Vex því slík aðferð mun minna í augum en hin fyrri. Og auk þess hlýtur kostnaður við uppskipun og útskipun að vera mun minni.
Merkilegt er, að stóru skipafélögin okkar skuli aldrei hafa efnt til fastra áætlana bílaferja milli Íslands og Evrópu. Það voru Færeyingar, sem tóku áhættuna og hagnast nú réttilega á miklum vinsældum Smyrlls á þessari mikilvægu samgönguleið.
Jónas Guðmundsson stýrimaður vakti nýlega í grein í Tímanum athygli manna á vannýttum möguleikum bílaferja. Benti hann á, aó slík skip geti vel hentað til flutninga á gámum og nýjum bílum utan ferðamannavertíða, ekki sízt ef þau væru í upphafi hönnuð með t illiti til slíkra möguleika.
Stýrimaðurinn benti á, að bílaferjur gera almenningi kleift að fara í annars konar ódýrar sumarleyfisferðir en sólarlandaferðir. Menn geta hlaðið bíla sína viðlegubúnaði og mat og ferðazt út um lönd án verulega mikillar gjaldeyrisnotkunar umfram bensínkostnað.
Ennfremur benti hann á, að unnt er að ferja hópferðabíla og vöruflutningabíla á sama hátt. Aka mætti ferskum fiski, síld, loðnu eða spærlingi beint frá löndunarstöð inn á markaðstorg evrópskra borga.
Með hraðskreiðri ferju, sem ekki hefur viðdvöl Í Færerjum, er unnt að komast á einum sólarhring frá Austfjörðum Íslands til Björgvinjar Í Noregi eða til nyrztu hafna Skotlands.
Margar viðkvæmar vörur, sem mönnum þykir of dýrt að flytja flugleiðis, væri á þann hátt unnt að flytja til Íslands og frá því í kælivögnum og frystivögnum, sem ekið væri um borð og frá borði.
Gámatækni er unnt að beita þannig, að tengivagnar séu ekki annað en gámar á hjólum, venjulegir gámar, kæligámar eða frystigámar. Þar að auki má spara flutninginn á sjálfum dráttarbílunum. Með ýmsum slíkum hættl væri sennilega unnt að gerbreyta viðhorfum til flutninga á sjó.
Ef til vill hafa íslenzku skipafélögin ekki kjark til að verðleggja slíka flutninga skynsamlega lágt fremur en aðra flutninga. En það væri þó alténd hægt að benda Færeyingum á að færa út kvíarnar á þessu forvitnilega sviði, till hagsbóta fyrir þá og okkur.
Kjarni málsins er sá, að fjarlægðir á sjó hafa minnkað eins og fjarlægöir í lofti. Evrópubúum þykir sjálfsagt að ferja bíla yfir Eystrasalt og Ermasund. Á því og ferjun bíla milli Íslands og Evrópu er aðeins stigsmunur, en enginn eðlismunur.
Við erum með Smyrli komnir í vegasamband við Evrópu og getum aukið það vegasamband verulega, ef við kærum okkur um.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið