Véfréttastefnan

Greinar

“Íslenzku ráðherrarnir sögðu, að núverandi ástand í landhelgismálinu gæti haft áhrif á afstöðu Íslands til Atlantshafsbandalagsins”. Ef til vill verður að fá úrskurð orðabókarnefndar um merkingu ofangreindrar véfréttar úr yfirlýsingu íslenzkra ráðherra og framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins í gær.

Er átt við, að íslenzka ríkisstjórnin stefni að úrsögn Íslands úr bandalaginu? Eða er átt við, að bókstafurinn z verði felldur úr íslenzku útgáfunni af Atlantshafssamningnum?

Orðalagið er dæmigert vinstristjórnarorðalag, véfrétt, sem túlka má á ótal mismunandi vegu, eftir því sem hentar hverju sinni. Magnús Kjartansson getur túlkað það á einn veg og Einar Ágústson á annan veg, hvor fyrir sinn heimamarkað. Og um leið fær forsætisráðherra nægan tíma til að velta vöngum yfir því, hvaða útkoma muni henta bezt í styrjöld hans við Möðruvallahreyfingu flokksins.

Frægasta véfrétt vinstristjórnarinnar er samkomulagið um endurskoðun varnarsamningsins við Bandaríkin. Einar Ágústsson reynir að túlka það á þann hátt, að öll hugsanleg frumhlaup í því máli verði alténd lögð fyrir alþingi. En Magnús Kjartansson túlkar það svo,að spurningin sé ekki hvort, heldur hvenær og hvernig varnarsamningnum verði sagt upp.

Véfréttum af þessu tagi á vinstristjórnin líf sitt að launa. Með þeim má sífellt breiða yfir ný vandamál á stjórnarheimilinu og halda öllum leiðum opnum til allra átta. En um leið verður almenningur engu nær um fyrirætlanir stjórnarinnar. Menn neyðast til að trúa því, sem þeir vilja trúa.

Margir hallast í bjartsýni sinni að því að trúa Einari Ágústssyni og telja hann munu sjá til þess, að meðferð utanríkismála verði róleg og yfirveguð. En hann er því miður aðeins partur af utanríkisráðherra. Í varnarmálunum hefur hann sér við hlið Magnúsa tvo. Og í landhelgismálinu verður hann að sætta sig við, að forsætisráðherra og Lúðvík Jósepsson gefi stefnumótandi yfirlýsingar án þess að hafa nokkurt samráð við hann.

Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra er maður hinna opnu enda. Véfréttin er hans uppáhald. Hún gerir honum það kleift að styðja stundum við bakið á Einari og stundum á Lúðvík, eftir því hvernig vindurinn blæs hverju sinni.

Hann sagði nýlega fylgismönnum sínum í Norðurlandskjördæmi vestra, að aðalmál flokks hans um þessar mundir væri að losa sig við uppreisnarmennina í Möðruvallahreyfingunni. Hann fullvissaði norðanmenn um, að flokkurinn mundi ekki tapa fylgi á því að svæla Ólaf Ragnar Grímsson og félaga út.

Þetta þóttist hann geta sagt, af því að hann hafði uppi í erminni hugmynd um að túlka að lokum véfréttir sínar á þann hátt, að varnarliðið yrði látið fara úr landi og Ísland úr Atlantshafsbandalaginu. Þar með telur hann sig geta haldið fylgi Möðruvellinga innan flokksins, þótt þeir hrekist á brott. Hann minnist þess, að Bismark gerði sósíaldemókrata áhrifalausa með því að taka upp stefnumál þeirra.

Öryggismál þjóðarinnar skipta Ólaf engu máli í samanburði við Möðruvallaslaginn. Véfréttastefna hans er eins óútreiknanleg og óáreiðanleg og mest má verða.

Jónas Kristjánsson

Vísir