Ekki er amalegt að vera í stjórnarandstöðu, þegar önnur eins ríkisstjórn er við völd og sú, sem nú reynir í örvæntingu að þrauka langt fram yfir andlát sitt.
Meðan stjórnarflokkarnir rífa hver annan á hol sefur Sjálfstæðisflokkurinn værum blundi og græðir samt fylgi á tá og fingri. Þetta sýna skoðanakannanir Dagblaðsins.
Sú könnun, sem birt var í blaðinu í gær, bendir til, að flokkurinn mundi ná helmingi allra gildra atkvæða, ef þingkosningar færu fram nú, svo og 31 þingmanni af 60.
Auðvitað eru þessar tölur ónákvæmar. En raunar þyrfti ekki að koma neinum á óvart, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði nú stærri kosningasigur en árið 1974. Þá var líka vinstri stjórn, en ekki eins fáránleg og þessi.
Skoðanakannanir Dagblaðsins benda til, að fylgi flokksins hafi aukizt hraðast frá kosningum og fram til síðustu áramóta, en aukningin sé nú orðin mjög hæg.
Framsóknarflokkurinn virðist nú loksins vera farinn að jafna sig eftir kosningaósigurinn í fyrra. Framan af stjórnartímabilinu hrakaði fylgi hans áfram, en tók svo snarlega að vaxa aftur í marz á þessu ári.
Flokkurinn á nú fremur skammt í að ná hinu hefðbundna fylgi sínu frá fyrri árum. Það þýðir, að nú bitna óvinsældir ríkisstjórnarinnar nærri eingöngu á Alþýðuflokknum og Alþýðubandalaginu.
Fyrri skoðanakannanir Dagblaðsins bentu til, að Alþýðuflokkurinn hafi að mestu haldið sinu fram til síðustu áramóta. Síðan hafi fylgið hrunið á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs, en tapið hafi verið mun hægara síðan.
Samkvæmt sömu heimildum virðist Alþýðubandalagið hafa haldið sínu mun lengur eða fram í marz á þessu ári. Síðan hafi það sætt hliðstæðu fylgishruni og Alþýðuflokkurinn sætti fyrstu tvo mánuði ársins.
Fróðlegt væri að túlka frekar, hvað kom fyrir Alþýðuflokkinn í janúar og Alþýðubandalagið í marz. Ennfremur hvað sneri gæfu Framsóknarflokksins í marz. En það verður ekki gert hér að sinni.
Eins og síðustu kosningar sýna þessar miklu sveiflur á einu ári, að flokkstryggð hér á landi er orðin eins lítil og hún er til dæmis í Bretlandi. Kjósendur sópast í stórhópum fram og aftur milli flokka.
Þetta sýnir líka tónninn í þeim, sem spurðir voru í síðustu skoðanakönnun Dagblaðsins. “Ég veit nú ekki, hvað hægt er að kjósa nú orðið: þetta virðast allt sömu fíflin”, sagði einn.
“Þeir eru allir eins”, “Búinn að missa trú á öllum flokkunum”, “Þeir eru allir jafn vonlausir”, “Þetta er skrípaleikur”. Þannig mætti lengi rekja ummæli fólks í skoðanakönnuninni.
Það dregur töluvert úr gildi þessarar síðustu könnunar, að nærri helmingur hinna spurðu vildi af ýmsum ástæðum ekki nefna neinn stjórnmálaflokk umfram annan. En það staðfestir þó um leið, að losið á kjósendum fer vaxandi.
Ekki er ástæða til að taka þessar kannanir sem nákvæma lýsingu á raunveruleikanum. En í stórum dráttum endurspegla þær þó ákveðin mynztur í breytingum á fylgi stjórnmálaflokkanna.
Stóra spurningin, sem engin leið er að svara, er um afstöðu þeirra, er sátu hjá í könnuninni. Skiptast þeir á flokkana, þegar til kastanna kemur, í sömu hlutföllum og hinir, sem gáfu greið svör?
Eða er þar meira um óánægða stuðningsmenn stjórnarflokkanna, sem mundu í kosningum láta draga sig til heimahúsa? Þá væru sveiflurnar í raun nokkru minni en tölur könnunarinnar sýna.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið