Vaxandi atgervisflótti

Greinar

Aðeins þarf venjulegt gestsauga til að sjá, að lífskjör Norðurlandabúa og meginlandsbúa allt suður í Alpafjöll eru mun betri en Íslendinga. Við getum ekki lengur ferðazt um þessi lönd, nema eiga vini og kunningja, sem bjóða húsnæði og fæði. Svo hátt er verðlagið fyrir okkur orðið í lífsgæðaríkjum Evrópu.

Flestar þjóðir þessa heimshluta eru að rétta við eftir erfiðleika undanfarinna ára. Við sitjum einir eftir með sömu lífskjör og fyrir fjórum árum. Þar á ofan horfum við fram á vaxandi vandræði á næstu árum.

Tvær fráleitar ríkisstjórnir hafa leikið okkur grátt á átta árum. Hin nýjasta er sízt skárri. Hún magnar landbúnaðinn, hafnar bráðnauðsynlegri fiskverndun, þenur út ríkisbáknið á kostnað alþýðu og atvinnuvega og viðheldur fyrirgreiðslukerfinu, þar sem lán jafngilda gjöfum.

Eitt máttu þó eiga hinar afleitu ríkisstjórnir síðustu átta ára. Þær héldu fullri atvinnu í landinu. Það getur hin nýja ríkisstjórn hins vegar ekki til lengdar. Efnahagslífið er orðið of máttlítið eftir átta ára óstjórn.

Um þessar mundir ríkir hér atgervisflótti. Langskólamenn og tæknimenn streyma til nágrannalandanna og aðrir hverfa ekki heim að námi loknu. Þeirra freista tvöfaldar og þrefaldar tekjur og margvísleg önnur lífsþægindi.

Rýrni atvinna hér heima, verður þessi flótti að stríðum straumi. Reynslan sýnir, að almennt eiga Íslendingar auðvelt með að fá störf erlendis vegna verklagni sinnar og verkhraða.

Margir eiga líka ættingja eða vini erlendis, sem veita mikla hjálp við að útvega atvinnu og húsnæði, svo og félagslegt skjól í köldu mannfélagi stórborganna. Íslendingar standa saman í útlöndum, þótt þeir geri það ekki hér heima.

Auðvitað má segja, að allt sé þetta eftirsókn eftir vindi. Lífskjör séu hér eins góð nú og þau voru fyrir fjórum árum, þegar þau voru betri en nokkru sinni fyrr. Ekki er ljóst, af hverju menn þurfi alltaf meira og meira. Velsældin virðist ekki færa mönnum neina hamingju.

Þessar röksemdir duga samt ekki þjóðfélagi, sem tapar atgervi til útlanda. Vítahringurinn er fljótur að magnast við vaxandi lífsgæðamun. Flestir vita um þennan mun og margir þeirra eiga erfitt með að standast freistingarnar.

Ekkert ríkisbákn getur lifað á jafnaðarmönnum, ríkisstarfsmönnum og andstæðingum lífsgæðakapphlaups eingöngu. Þeim mun örar sem dráttardýrin hverfa, þeim mun erfiðari verður rekstur báknsins. Í því felst einn hættulegasti þáttur vítahringsins.

Við verðum að bera okkur saman við nágrannaþjóðirnar, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Við verðum að halda í humátt á eftir þeim í lífsgæðum, þótt það færi okkur ekki aukna hamingju. Það er einfaldlega lýðveldið sjálft, sem stendur og fellur með þessu kapphlaupi.

Við getum þetta, ef við hættum að styrkja landbúnað, setjum upp fiskveiðikerfi, sem gefur mestan afla með minnstri sókn, og notum sparnaðinn af þessu til að byggja upp nútíma iðnað í landinu. Ennfremur með því að koma á raunvöxtum og færa lánakerfið úr höndum stjórnmálamannanna.

Við verðum líka að gera þetta, því að við erum skuldbundnir ófæddum börnum okkar, sem við höfum þegar lagt á herðar að greiða skuldir þær, er við höfum stofnað til í útlöndum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið