Ísland er ekki varið land. Ísland er land, þar sem Bandaríkjunum hefur með samningi verið leyft að reka hernaðarlega eftirlitsstöð. Sá rekstur getur boðið heim kjarnorkuárás á styrjaldartíma. Þjóðin er gjörsamlega óvarin slíkri árás.
Um þetta sagði Guðjón Petersen, framkvæmdastjóri Almannavarna, í kjallaragrein í Dagblaðinu í síðustu viku: “Það verður að telja, að á Íslandi séu stöðvar, sem áhugi væri á að eyða í styrjöld og mundi eyðing slíkra stöðva valda gífurlegu manntjóni, væri engum vörnum fyrir komið.”
Allur þorri Suðurnesjamanna og 60.000 af íbúum Reykjavíkursvæðisins mundu farast í kjarnorkuárás á Keflavíkurflugvöll samkvæmt útreikningum, sem framkvæmdastjóri Almannavarna skýrir frá í grein sinni. Hann vill, að hér á landi sé aðstaða til að flytja íbúa Suðurnesja á brott í skyndingu.
Hann vill ennfremur, að húsnæði á Reykjavíkursvæðinu verði útbúið á þann hátt, að það henti sem neyðarskýli fyrir íbúa svæðisins. Telur hann, að með slíkum aðgerðum megi bjarga lífi alls þorra íbúa svæðisins.
En þetta er bara ekki gert. Íslenzk stjórnvöld hafa ekki áhuga á að verja þjóð sína með þessum hætti. Og stjórnendur liðs þess á Keflavíkurflugvelli, sem gengur undir öfugmælinu “varnarlið”, hafa ekki heldur sýnt áhuga á að verja þjóðina, þrátt fyrir varnarsamning.
Guðjón Petersen er sammála þeim, sem telja, að ýmsar framkvæmdir í samgöngumálum hafi mikið varnargildi. Að öðru leyti tekur hann ekki afstöðu til aronskunnar og ýmissa málamiðlunarhugmynda, sem ræddar hafa verið að undanförnu.
Hitt segir hann, að við værum búnir að gera þetta sjálfir, ef fjármögnun Almannavarna hefði haldið áfram með sama krafti og í upphafi þeirra á árunum 1962-1964. Þá væri nú varið til þeirra 240 milljón krónum á ári í stað 5 milljóna. Þá væri þegar búið að ganga frá ofangreindum skýlum, er gætu bjargað lífi 60.000 Íslendinga.
Í grein framkvæmdastjórans kemur fram, að við núverandi fjárveitingar taki það meðalstórt sveitarfélag 61 ár að safna sér fyrir einni fullkominni aðvörunarflautu. Kjósi það að sleppa flautunni, getur það keypt eitt teppi og hálfar sjúkrabörur á ári.
Þannig er ástandið með þjóð, sem á stjórnmálamenn, er tala um fátt fremur en varnarmál. Árum saman hefur verið logið að henni, að Bandaríkjamenn sjái um varnir landsins. Í rauninni hefur þeim verið leigð eftirlitsstöð gegn margvíslegu hermangi gæðinga tveggja stærstu stjórnmálaflokka landsins.
Eðlilegt er, að menn telji Bandaríkjamönnum skylt að sjá um varnir þjóðarinnar, úr því að lið þeirra hér er kallað “Varnarlið Íslands”. Ef þeir kæra sig ekki um slíkt, er eðlilegt að láta þá fara sem samningssvikara.
Slíkur brottrekstur hefði þann kost að neyða stjórnmálamenn okkar til að horfast í augu við staðreynd varnarleysisins. Þá mundum við sjálfir byggja upp almannavarnir. Myndarskapur áranna 1962-1964 sýnir, að við getum það, ef við viljum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið