Varið land

Greinar

Skoðanakannanir Vísis hafa hvað eftir annað leitt í ljós, að meirihluti landsmanna telur ekki tímabært, að varnarliðið fari úr landi. Oftast hafa um tveir þriðju hinna spurðu verið andvígir brottför og einn þriðji fylgjandi henni.

Árum saman hefur miklu meira borið á þeim þriðjungi, sem vill, að varnarliðið fari strax eða fljótlega úr landi. Samtök hernámsandstæðinga hafa starfað mikið með köflum, haldið fundi, farið í kröfugöngur og rekið áróður í fjölmiðlum og manna á milli.

Meirihlutinn hefur hins vegar setið aðgerðalítill, enda hefur lengst af ekki þótt líklegt, að andstæðingar varnarliðsins mundu ná undirtökunum. Nú hefur hins vegar setið í hálft þriðja ár ríkisstjórn, sem stefnir að því, að varnarliðið hverfi á brott.

Þar við bætist, að hugmyndir um millileiðir í málinu hafa hlotið nokkurn hljómgrunn meðal fólks. Hugsanlegt er, að samkomulag náist um einhverja slíka millileið, bæði innan ríkisstjórnarinnar og í viðræðunum við fulltrúa 8andaríkjastjórnar. Það er ennfremur hugsanlegt, að slík leið mundi njóta stuðnings meirihluta þjóðarinnar

Því miður er líklegast, að þessi leið muni ekki tryggja öryggishagsmuni Íslands. Hún getur e.t.v. leyst þörf Atlantshafsbandalagsins og Bandaríkjanna fyrir eftirlitsflug, en þá á kostnað varna sjálfs landsins. Það virðist óhjákvæmilegt, að fækkun í varnarliðinu muni rýra varnir Íslands.

Þess vegna er orðið fyllilega tímabært, að þeir, sem eru þessari þróun andvígir, spyrni við fótum. Undirskriftasöfnunin, sem fór vel af stað í vikunni, er kröftugt upphaf að því andófi. Enginn vafi er á, að mörg þúsund manns munu skrifa nafn sitt undir ávarp fjórtánmenninganna.

“Við teljum fulla ástæðu til, að fram komi, að íslenzkur almenningur krefst þess, að við tökum áfram þátt í samstarfi innan Atlantshafsbandalagsins og álítur ótímabært að vísa varnarliðinu á brott”, segir í ávarpinu.

Þar segir einnig: “Varnir landsins eru bæði beint í. þágu Íslendinga, annarra þjóða við Norður-Atlantshaf, ekki sízt Norðmanna, og í þágu varnarsamtaka Vesturlanda, sem eru trygging þess, að Ísland haldi frelsi og sjálfstæði. Varnarlaust Ísland mundi veikja stöðu vestrænna ríkja í tilraunum þeirra til að ná samningum um að draga úr vígbúnaði”.

Þetta er kjarni málsins. Friðarfundirnir í Vín og Genf hafa ekki enn leitt til neins áþreifanlegs árangurs. Og ljóst er, að þeir munu ekki gera það á næstunni. Ef þar semst einhvern tíma um gagnkvæman samdrátt herafla Atlantshafs- og Varsjárbandalagsins, verður framtíð varnarliðsins á Keflavíkurvelli eðlilegur þáttur dæmisins, en fyrr ekki.

Ef undirskriftasöfnunin opnar augu margra fyrir köldum staðreyndum umheimsins, verður hún þjóðinni og öryggi hennar að miklu gagni.

Jónas Kristjánsson

Vísir