Mannskaðinn mikli á Norðfirði er enn efst í huga þjóðarinnar, þótt heil vika jólaundirbúnings og jólahalds sé liðin. Harmleikur sem þessi kallar fram samhug þjóðarinnar allrar og varpar skugga á mestu hátíð ársins.
Við hugsum til hins mikla barnafjölda, sem misst hefur annað foreldri sitt. Og við höfum enn einu sinni verið minnt á, að þrátt fyrir tækni nútímans geisa hér á landi hin óblíðu og óheftu náttúruöfl elds og ísa.
En ekki dugir að örvænta. Lífið heldur áfram. Þess vegna skiptir nú mestu að átta sig á, hvað tekur við á Norðfirði, þegar meira en þrír fjórðu hlutar atvinnulífsins hafa verið lagðir í rúst. Það er þörfin fyrir uppbygginguna, sem kallar á allar fúsar hendur. Og sú uppbygging má ekki dragast, því að hver dagurinn er dýrmætur.
Ríkisstjórnin brást fljótt og vel við. Geir Hallgrímsson forsætisráðherra fór strax austur til að skoða vegsummerki og ræða við heimamenn. Tjáði hann þeim, að ríkisstjórn, alþingi og þjóðin öll stæði með Norðfirðingum í uppbyggingarstarfi þeirra. Mundi þeim verða
veitt öll sú aðstoð, sem þörf væri á.
Gizkað hefur verið á, að eignatjónið á Norðfirði nemi einum til tveimur milljörðum króna. Mest er tjónið á loðnubræðslunni, sem er að mestu ónýt, en mikið tjón hefur einnig orðið á bílaverkstæði, steypustöð, nokkrum húsum og á vélasal frystihússins. Alvarlegastur er missir bræðslunnar vegna loðnuvertíðarinnar, sem er að fara í hönd. Norðfjörður hefur á undantörnum árum verið aðallöndunarstaðurinn í upphafi vertíðar, en er úr leik í þetta sinn.
Íslendingar eru vafalítið sammála um, að þjóðin eigi að bregðast við þessu á svipaðan hátt og eldgosinu á Heimaey. Annað hvort þarf að fela Viðlagasjóði fjármögnun uppbyggingarinnar á Norðfirði eða koma á fót nýrri, hliðstæðri stofnun.
Ef til vill er komið tækifæri til að setja á stofn fastan viðlagasjóð, er hafi það verkefni að bæta tjón, sem náttúruöflin valda. Slíkur sjóður yrði eins konar “force majeur”-tryggingafélag þjóðarinnar. Við gerðum tilraun með þetta í sambandi við Vestmannaeyjagosið og nú er komið tækifæri til að koma því í fast form.
Náttúruhamfarasjóðurinn á ekki eingöngu að bæta stórtjón heilla byggðarlaga, heldur.einnig einstök tjón, svo sem þegar stök hús eyðileggjast í snjóflóðum. Allir eiga að vera jafnir fyrir slíkum sjóði, er taki við, þar sem hefðbundnar tryggingar enda. Við höfum lært af reynslunni að við verðum á hverju ári að leggja til hliðar örlítinn hluta af sameiginlegu fé okkar til að byggja upp slíkan viðlagasjóð.
Norðfirðingar bera harm sinn af æðruleysi. Þeirra bíða nú gífurleg verkefni, sem þeir geta ráðizt í af alefli, því að þeir vita, að fjármagn þjóðarinnar er til reiðu. Þeir munu dreifa huganum frá harmi sínum og einbeita sér að skjótri uppbyggingu atvinnutækjanna.
Því miður vitum við öll, að hið mikla eignatjón er minnstur hluti harmleiksins á Norðfirði. Mikill mannskaði í fámennu byggðarlagi verður ekki bættur, þótt lífið haldi áfram sína braut. Við getum aðeins hryggzt með Norðfirðingum.
Jónas Kristjánsson
Vísir