Hér á landi eru 115 lánastofnanir, þótt útibú séu ekki talin með. Bankarnir eru minnsti hlutinn af þessum fjölda, því að þeir eru aðeins sjö. Hins vegar eru sparisjóðirnir 51, innlánsdeildirnar 37 og fjárfestingarlánasjóðirnir 17.
Menn geta verið sammála um, að þetta er allt of mikill fjöldi og að margar þessar lánastofnanir eru allt of veikburða til að gegna hlutverki sínu af nokkru öryggi. Það er því nauðsynlegt að stefna að samstarfi og samruna í þessari grein eins og sumum öðrum greinum efnahagslífsins.
Sérstök bankamálanefnd skilaði greinargerð um þetta fyrir um það bil ári. Í niðurstöðum nefndarinnar er lagt til, að sparisjóðunum, innlánsdeildunum og fjárfestingarlánasjóðum verði fækkað um helming, ekki í snarkasti, heldur á löngum tíma.
Nefndin var ekki eins ákveðin í, að sameina þyrfti bankana, enda eru þeir miklu stærri og öflugri en sjóðirnir. Um ríkisbankana segir í niðurstöðum nefndarinnar: “Eigi að stefna að því, að ríkisbönkunum fækki úr þremur í tvo,virðist sú leið helzt koma til greina, að það.gerist með sameiningu Búnaðarbankans og Útvegsbankans”. Í þessum orðum felst, að nefndin treystir sér ekki til að mæla beinlínis með þessari sameiningu.
Og nefndin heldur áfram: “Nefndin leggur þó áherzlu á, að henni hefur ekki unnizt tími til að kanna nægilega rekstrarlega hagkvæmni þessarar sameiningar”. En Ólafur Björnsson prófessor hefur athugað þetta mál og sagði í viðtali við Vísi um daginn: “Að þetta verði sparnaður í rekstri og vinnu er á misskilningi byggt”.
Það er semsagt ekkert komið fram, sem bendir til sparnaðar af sameiningu þessara tveggja banka. Hins vegar vita bankamenn, að sparnaði má ná með ýmsu samstarfi, svo sem með sameiginlegu tölvubókhaldi bankanna, eins og nú er verið að koma á.
Bankamálanefndin varaði við óðagoti í þessum ráðagerðum um sameiningu lánastofnana. Í niðurstöðum hennar segir m.a.: “Hver stofnun á sér djúpar rætur í þeim jarðvegi, sem hún er sprottin úr”. Og: “Vill nefndin eindregið vara við, að þeirri stefnu verði framfylgt án tillits til þeirra sögulegu og félagslegu sjónarmiða, sem mótað hafa þróun þessara mála hingað til”. 0g loks: “Samruni bankastofnana og einföldun fjármálakerfisins er stefna, sem framkvæma verður með fullri gát og á hæfilega löngum tíma”.
Næsta skref í málinu hefði því átt að vera að finna leiðir til að sameina smæstu einingarnar, ýmsa sparisjóði, innlánsdeildir og fjárfestingarlánasjóði. Það er alls ekki í samræmi við álit bankamálanefndarinnar að byrjað skuli vera á stærstu einingunum. 0g því síður er það í samræmi við álit nefndarinnar, að Lúðvík Jósepsson bankamálaráðherra hyggst leggja fram í þessum mánuði frumvarp um sameiningu Búnaðarbankans og Útvegsbankans. Alþingi ber að hafna því ótímabæra frumvarpi.
Jónas Kristjánsson
Vísir