Vanda Reykjavíkur má leysa

Greinar

Ekki er ástæða til örvæntingar, þótt embættismenn Reykjavíkur hafi í greinargóðri skýrslu bent á atvinnu- og búsetuþróun, sem getur reynzt borginni hættuleg um síðir. Skýrslan bendir ekki til, að neinn dómsdagur sé yfirvofandi í Reykjavík. Hún sýnir aðeins, að óveðursský eru farin að myndast.

Lífskjör hafa batnað í Reykjavík að undanförnu, enda hefur atvinna verið næg og virðist ekki fara minnkandi. Það, sem gerzt hefur, er, að uppgangsstaðir við sjávarsíðuna hafa farið fram úr borginni í tekjum íbúanna. Raunar má telja eðlilegt, að tekjur séu hærri á slíkum uppgangsstöðum.

Skýrslan sýnir þó, að ríki og borg verða að hafa gát á þessu sviði. Slæmt væri fyrir þjóðina í heild, ef Reykjavík lenti í þeim vítahring stórborga, sem menn hafa til dæmis séð á undanförnum áratugum í mörgum bandarískum stórborgum.

Vítahringurinn er margþættur. Opinber þjónusta flyzt til borgarinnar en framleiðsla úr henni. Auðugir skattgreiðendur flytja úr borginni en miður fjáðir koma í staðinn. Dugnaðarfólk flyzt til staða, sem eru í vaxtarbroddi framleiðslunnar, en til borgarinnar flytur líkamlega og félagslega veikburða fólk, sem þarf á félagslegri aðstoð að halda.

Sumpart er þetta sjálfvirk þróun, sem erfitt er að hamla gegn. En að öðru leyti geta ríki og borg gert ýmislegt til að hindra hina sjálfvirku þróun í að verða að lítt leysanlegu vandamáli.

Hér á landi er ástæða til, að ríkið flytji hluta af starfsemi sinni úr Reykjavík út á land til að auka þjónustujafnvægi einstakra landshluta. Reykjavík hefur engan hag af því að hýsa alla opinbera starfsemi.

Ennfremur er ástæða til að kanna, hvort mismunun Byggðasjóðs og annarra þátta byggðastefnu stjórnvalda hefur ekki gengið út í öfgar, þegar framleiðslufyrirtæki verða að flytja úr Reykjavík til að fá lán.

Borgin sjálf þarf líka að hefjast handa. Meðal annars þarf hún að ná samkomulagi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um samræmi í skipulagsmálum, er stefni að fjölbreyttari byggð í hverju einstöku sveitarfélagi svæðisins.

Ófært er, að borgin sérhæfi sig í blokkum og hin sveitarfélögin sérhæfi sig í einbýlishúsum, – um leið og þau treysta á ýmsa þjónustu borgarinnar.

Loks liggja í augum uppi tvær leiðir borgarinnar til að laða að sér framleiðslufyrirtæki. Hún þarf í fyrsta lagi að leggja aukna áherzlu á skipulagningu lóða handa atvinnurekstri. Og í öðru lagi þarf hún að hefja frumkvæði að byggingu ódýrs, verksmiðjuframleidds leiguhúsnæðis fyrir ung og aðstöðulítil fyrirtæki.

Skýrsla embættismanna hefur komið fram á réttum tíma. Ekki aðeins stjórnvöld borgarinnar, heldur einnig og jafnvel enn frekar stjórnvöld ríkisins, eiga að hafa nægan tíma til að draga réttar ályktanir af henni og hefja aðgerðir á þessu sviði byggðajafnvægis.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið