Eftir hrapallegan ósigur Jóns Ármanns Héðinssonar alþingismanns í prófkjöri Alþýðuflokksins í Reykjaneskjördæmi fækkar örugglega þeim, sem telja prófkjör engu breyta.
Að undanförnu hefur oft verið sagt, að prófkjör og skoðanakannanir hjá stjórnmálaflokkunum stuðli að viðhaldi ríkjandi ástands. Á prófkjörunum græði þeir, er fyrir séu í framboðssætum þeim, sem um er barizt.
Reynslan á Vestfjörðum virtist styðja þessa skoðun. Hjá framsóknarmönnum tókst Gunnlaugi bónda Finnssyni í Hvilft að hindra tilraun Ólafs Þórðarsonar skólastjóra til að komast í annað sæti listans. Og hjá alþýðuflokksmönnum tókst Sighvati Björgvinssyni að halda fyrsta sætinu fyrir Jóni Baldvin Hannibalssyni.
Þetta töldu margir vera merki þess, að þingmenn mundu jafnan hafa betur í skoðanakönnunum og prófkjörum um skipan framboðslista. Úrslitin í prófkjöri Alþýðuflokksins í Reykjaneskjördæmi sýna, að þetta þarf alls ekki alltaf að vera rétt.
Þar lenti Jón Ármann Héðinsson alþingismaður í þriðja sæti í samkeppninni um efsta sæti listans. Bæði Kjartan Jóhannsson verkfræðingur og Karl Steinar Guðnason verkalýðsforingi komust langt upp fyrir hann.
Kjartan Jóhannsson fékk 1008 atkvæði í fyrsta sæti í harðri samkeppni við Karl Steinar Guðnason, sem hlaut 22 atkvæðum færra, eða 986 atkvæði. Jón Ármann fékk hins vegar ekki nema 681 atkvæði.
Þar á ofan fengu þeir Kjartan og Karl atkvæði í annað sæti, Kjartan 400 atkvæði og Karl 608. Samtals fékk Kjartan þannig atkvæði 1408 manna og Karl atkvæði 1592 manna.
Með þessu hefur Kjartan Jóhannsson nánast náð kjöri til alþingis. Ef gert er ráð fyrir að Alþýðuflokkurinn fái að minnsta kosti einn kjördæmakosinn þingmann í Reykjavík eða annars staðar, fylgir örugglega uppbótarþingmaður í Reykjaneskjördæmi vegna fjölmennis þess.
Enginn dómur á misjöfnu ágæti Kjartans og Jóns felst í því að segja úrslitin í Reykjanesumdæmi hafa komið skemmtilega á óvart. Þau sýna, að nýir menn geta ýtt þingmönnum úr vegi. Þau hljóta að hvetja nýja menn til að taka þátt Í prófkjörum og skoðanakönnunum á vegum flokkanna.
Á þessu verður þó að hafa einn fyrirvara. Hvorki Kjartan né Karl Steinar eru neinir utangarðsmenn í Alþýðuflokknum. Kjartan er hvorki meira né minna en varaformaður flokksins og Karl Steinar hefur lengi verið í röð fremstu flokksmanna.
En það er unnt að endurnýja alþingi, þótt ekki komi margir utangarðsmenn til sögunnar. Nýir menn gefa vissar vonir, þótt þeir komi úr valdastöðum flokkanna. Núverandi alþingismenn hafa ekki megnað að lyfta virðingu alþingis úr lágmarki. Nýir þingmenn geta alténd ekki staðið sig verr en hinir gömlu.
Á þessu einu getum við byggt vonir okkar.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið